Fara í efni
Íshokkí

Íslandsbikarinn á loft í Skautahöllinni?

Boðið verður upp í dans í Skautahöllinni í kvöld! Aðalheiður Ragnarsdóttir, til hægri, er hér í baráttunni í fyrsta úrslitaleiknum við Fjölni. Aðalheiður og stöllur hennar í liði SA gætu fagnað Íslandsmeistaratitlinum í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Skautafélags Akureyrar getur orðið Íslandsmeistari í íshokkí í kvöld með sigri á Fjölni á heimavelli. SA hefur unnið tvo fyrstu leikina en þrjá þarf til þess að tryggja sér Íslandsbikarinn.

SA vann fyrsta leikinn á heimavelli síðastliðinn fimmtudag. Sá var heldur bragðdaufur og hvorki skorað í hefðbundnum leiktíma né framlengingu þannig að grípa þurfti til vítakeppni. Þar var aðeins skorað úr einu víti af 10! Kolbrún Björnsdóttir í liði SA tók fyrsta vítið og skoraði en aðrar tilraunir fóru í vaskinn; annað hvort vörðu markverðirnir eða skotin fóru framhjá.

SA vann annan úrslitaleikinn 4:2 í Egilshöll á laugardaginn.

Með sigri í kvöld verður Stelpurnar okkar Íslandsmeistarar 17. árið í röð!

Leikurinn hefst klukkan 19.30 og Akureyri.net hvetur sem flesta til að mæta og styðja við bakið á stelpunum. 

Stelpurnar í SA fagna þegar þær urðu deildarmeistarar á dögunum. „Sá stóri“, Íslandsbikarinn, gæti farið á loft í kvöld. Ljósmynd: Þórir Tryggvason