Fara í efni
Íshokkí

Ísland áfram í 3. deild eftir tap fyrir Ísrael

Íslensku landsliðsstrákarnir og aðstandendur liðsins að leikslokum í gærkvöldi.

Ísland tapaði í gærkvöldi fyr­ir Ísra­el, 5:1, í loka­leik A-riðils 3. deild­ar heims­meist­ara­móts 18 ára og yngri í ís­hokkí í Skauta­höll­inni á Ak­ur­eyri. Þetta var eina tap íslensku strákanna í riðlinum en þeir urðu þó að sætta sig við annað sætið því sigur Ísraelsmanna færði þeim gullverðlaun og sæti í 2. deild að ári.

Spennan var mikil fyrir leik og áhorfendabekkir skautahallarinnar þéttsetnir. Byrjun leiksins var þó ekki eins og Íslendingar höfðu vonast eftir því Ísraelsmenn fóru kröftuglega af stað og tóku forystu eftir aðeins rúma mínútu eftir slæm varnarmistök.

Leikurinn var hraður og skemmtilegur og óhætt að segja að hart hafi verið barist. Ísland kom pekkinum í mark Ísraels um miðjan fyrsta leikhluta en markið stóð ekki; dómararnir töldu sig hafa séð brot í aðdragandanum og sýndist sitt hverjum um það. Stuttu fyrir lok leikhlutans skoruðu Ísraelsmenn hins vegar öðru sinni.

Ormur slasaðist

Ekkert var skorað í öðrum leikhluta en um miðbik þess þriðja dró til tíðinda. Ormur Jónsson, fyrirliði Íslands, slasaðist eftir brjót eins mótherjans. Ormur var fluttur á sjúkrahús í myndatöku og var vitaskuld sárt saknað. Sá brotlegi var rekinn af velli og leikmenn Ísraels voru einum færri á svellinu í fimm mínútur. Stuttu áður en refsitímanum átti að ljúka minnkaði Viktor Mojzyszek muninn fyrir Ísland eftir að strákarnir höfðu gert harða hríð að marki Ísraels.

Meðbyrinn dugði þó ekki lengi því Ísraelsmenn skoruðu fljótlega þriðja markið, Rúnar Eff þjálfari Íslands greip þá til þess ráðs að taka markvörðinn Þóri Aspar af velli til að bæta í sóknina en rúmri mínútu fyrir leikslok náðu Ísraelsmenn pekkinum og Liran Kon skoraði í tómt markið. Þar með voru úrslitin ráðin og fimmta markið kom á síðustu sekúndunni.

Þrátt fyrir tapið léku íslensku strákarnir að mörgu leyti vel og tölurnar gefa varla raunsanna mynd af leiknum. Hann var mun jafnari en halda mætti af úrslitunum. 

Mörkin:

  • 0:1 Yonatan Melnikov (01:16)
  • 0:2 Guy Aharonovich (17:24)
  • 1:2 Viktor Mojzyszek (52:42)
  • 1:3 Adi Rigler (55:38)
  • 1:4 Liran Kon (59:06)
  • 1:5 Itay Kerner (60:00)

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Smellið hér til að sjá upptöku af leiknum