Fara í efni
Íshokkí

Íshokkí: Sigurganga SA-kvenna heldur áfram

Markvörður SA, Shawlee Gaudreault, fékk á sig 14 skot í dag og varði 13 þeirra. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sigurganga kvennaliðs SA hélt áfram í dag þegar SA mætti liði SR í Skautahöllinni á Akureyri. Sjöundi sigurinn í átta leikjum staðreynd og SA með afgerandi forystu á toppi Hertz-deildarinnar.

Ragnhildur Kjartansdóttir skoraði fyrsta mark SA þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af leiknum, en þrátt fyrir þunga sókn var það eina markið í fyrsta leikhluta. Vörnin hjá SR var þétt og leikmönnum SA gekk erfiðlega að finna leið framhjá varnarmönnunum og markverðinum. Gestirnir jöfnuðu hins vegar með marki Friðriku Magnúsdóttur á lokamínútu annars leikhluta.

Ætla má að breiddin hafi skilað SA sigrinum þegar upp var staðið, 18 útileikmenn á skýrslu á móti 11 hjá SR og viðbúið að þreyta færi að segja til sín hjá gestunum þegar leið á leikinn. Vörn SR hafði þá haldið nokkuð lengi, en þegar upp var staðið átti SA 46 skot á mark á meðan leikmenn SA náðu 14 skotum á markið.

Bæði lið fengu reyndar góð færi í þriðja leikhlutanum, en það voru stelpurnar í SA sem nýttu þau og skoruðu mörkin. SA tók forystuna þegar Anna Sonja Ágústsdóttir skoraði eftir sendingu frá Silvíu Rán Björgvinsdóttur og rúmri mínútu síðar, um sex mínútum fyrir leikslok, kom þriðja mark SA þegar Amanda Bjarnadóttir skoraði af stuttu færi eftir langskot liðsfélaga.

SA - SR 3-1 (1-0, 0-1, 2-0)

  • 1-0 Ragnhildur Kjartansdóttir (2:07). Stoðsending: Silvía Rán Björgvinsdóttir.
  • 1-1 Friðrika Magnúsdóttir (39:33). Stoðsending: Alexandra Hafsteinsdóttir, Bríet Friðjónsdóttir.
  • 2-1 Anna Sonja Ágústsdóttir (52:38). Stoðsending: Silvía Rán Björgvinsdóttir.
  • 3-1 Amanda Bjarnadóttir (53:57). Stoðsending: Sólrún Assa Arnardóttir, Silvía Rán Björgvinsdóttir.

SA
Mörk/stoðsendingar: Ragnhildur Kjartansdóttir 1/0, Anna Sonja Ágústsdóttir 1/0, Amanda Bjarnadóttir 1/0, Silvía Rán Björgvinsdóttir 0/3, Sólrún Assa Arnardóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 13 (92,86%).
Refsingar: 4 mínútur.

SR
Mörk/stoðsendingar: Friðrika Magnúsdóttir 1/0, Alexandra Hafsteinsdóttir 0/1, Bríet Friðjónsdóttir 0/1.
Varin skot: Andrea Bachmann 43 (93,48%).
Refsingar: 2 mínútur.

SA er á toppi Hertz-deildarinnar með 21 stig úr átta leikjum, Fjölnir er með níu stig úr sex leikjum og SR án stiga eftir sex leiki. Næsti leikur SA er gegn Fjölni laugardaginn 18. nóvember.

Leikurinn var í beinni útsendingu á YouTube-rás SA TV. Hér að neðan er hægt að fara beint inn í upptöku af leiknum þegar mörkin voru skoruð, en neðst er leikurinn frá byrjun.

  • 1-0 Ragnhildur Kjartansdóttir (2:07).

´

  • 1-1 Friðrika Magnúsdóttir (39:33).

  • 2-1 Anna Sonja Ágústsdóttir (52:38).

  • 3-1 Amanda Bjarnadóttir (53:57). 

Leikurinn var í beinni útsendingu á YouTube-rás SA TV og þar má finna upptöku af öllum leiknum.