Íshokkí
Íshokkí: Karlalið SA mætir SR í kvöld
02.11.2023 kl. 14:45
SA og SR áttust við í úrslitarimmunni á síðasliðnu tímabili. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Karlalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí, SA Víkingar, tekur á móti Íslandsmeisturunum í Skautafélagi Reykjavíkur í Hertz-deildinni í kvöld.
Þessi lið mættust fyrir sunnan síðastliðið föstudagskvöld og hafði SA betur þar sem óvænt spenna hljóp í leikinn á lokamínútunum eftir að SA komst í 6-2, en heimamenn í Laugardalnum skoruðu þrjú mörk í þriðja leikhlutanum, minnkuðu muninn í eitt mark þegar þrjár mínútur voru eftir og gerðu atlögu að því að jafna leikinn, sem heppnaðist ekki.
SA hefur byrjað tímabilið af krafti og er með fullt hús á toppi deildarinnar, fimm sigra, 15 stig. SR er með sex stig og Fjölnir þrjú.
Leikur liðanna fer fram í Skautahöllinni á Akureyri og hefst kl. 19:30.