Fara í efni
Íshokkí

Hressileg hokkírimma á svellinu! – MYNDIR

Oft er hraustlega tekist á þegar bestu íshokkílið landsins mætast á svellinu og sú var að sjálfsögðu raunin í kvöld, eins og vænta mátti, þegar fyrsti úrslitaleikur um Íslandsmeistararatitilinn fór fram. Skautafélag Reykjavíkur sigraði Skautafélag Akureyrar eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í kvöld. 

Mönnum verður oft heitt í hamsi í svellkaldri skautahöll; þráðurinn á það til að verða stuttur, telji menn sig órétti beitta! Reykvíkingnum Bjarka Jóhannessyni var til dæmis ekki skemmt í kvöld þegar honum þótti Orri Blöndal hafa gengið full hart fram; stökk upp af svellinu og þakkaði pent fyrir trakteringarnar! Vissi auðvitað hverjar afleiðingarnar yrðu og renndi sér glaður útaf að því er virtist; sat næstu tvær mínútur í skammarkróknum.

Á svona augnablikum er gaman að vera ljósmyndari!