Fara í efni
Íshokkí

„Þetta er alltaf jafn frábært!“

Ragnhildur Kjartansdóttir hampar sigurlaununum sigri hrósandi í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ragnhildur Kjartansdóttir, fyrirliði íshokkíliðs Skautafélags Akureyrar, var vitaskuld himinlifandi eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli í gærkvöldi. „Þetta er alltaf jafn frábært!“ sagði hún skælbrosandi við Akureyri.net.

„Já, við erum langbestar!“ sagði fyrirliðinn. „Við höfum verið með sterkasta liðið í allan vetur. Mér fannst Fjölnisstelpurnar reyndar mjög góðar í þessum síðustu tveimur leikjum en þegar horft er á stóru myndina erum við búnar að standa okkur best í vetur.“

Þrátt fyrir tap í öðrum úrslitaleiknum sagðist Ragnhildur ekki hafa fundið fyrir neinu stressi. „Nei, alls ekki. Við vorum með yfirhöndina allan tímann, það var erfitt að koma pekkinum inn lengi vel en við héldum bara áfram að skjóta og skjóta og eftir að fyrsta markið kom vissi ég að þau yrðu fleiri.“

Hún segir liðið vissulega mjög gott í íshokkí en þakkar glæsilegan árangur ekki síst því hve stelpurnar eru allar góðar vinkonur. „Við lyftum hver annarri upp ef þarf – það er það sem gerir liðið svona gott. Stundum gerist það að leikmenn eru dregnir niður þegar þeir gera mistök en það er alls ekki þannig hjá okkur; liðsheildin er mjög, bæði innan vallar og utan. Við hvetjum hver aðra í leikjum og ekki síður til að mæta vel á æfingar.“

Ragnhildur lék í Svíþjóð um tíma en kom heim snemma árs 2020. Tók sér frí frá námi í einn vetur eftir að hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri, fresta gæfunnar ytra og hafði mjög gaman af. Fleiri hafa leikið erlendis, Sunna Björgvinsdóttir og Berglind Leifsdóttur voru á mála hjá liði í næstu deild í Svíþjóð fyrri hluta þessa vetrar, komu heim í jólafrí og urðu um kyrrt þar sem ljóst var að ekki yrði leikið áfram ytra vegna Covid.

„Það er ekki planið hjá mér að fara út, bæði er að ég stefni að því að fara í læknisfræði – helst hér heima, því ég er mjög heimakær – en ég myndi auðvitað fara út ef sú staða kæmi upp.“

Fyrirliðinn segir marga liðsfélaga hennar nógu góða til að leika erlendis og reiknar með að nokkrar þeirri eigi eftir að gera það. „Þótt liðið sé ekki gamalt eru margar stelpurnar komnar með mikla reynslu; þær eru æðislegar!“

Ragnhildur stundar nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri í vetur og hyggst vera þar áfram næsta vetur. „Ég vil búa mig sem best undir að taka inntökupróf í læknisfræðina. Ég verð því með SA næsta vetur en fer vonandi suður þar næsta vetur og spila með öðru liði – því miður!“ sagði fyrirliðinn og hló.

Smellu hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum í gær.