Fara í efni
Íshokkí

Heilbrigðisteymi á öllum íshokkíleikjum

Jóhann Þór Jónsson á vaktinni á leik kvennaliðs SA síðastliðinn laugardag. Mynd: SAsport.is.

Öryggismál í íshokkí hafa verið í brennidepli að undanförnu, meðal annars eftir hörmulegt atvik sem varð í hokkíleik erlendis. Aukin áhersla hefur verið lögð á notkun öryggisbúnaðar og nú hefur hokkídeild Skautafélags Akureyrar komið á fót heilbrigðisteymi og gengið svo frá hnútunum að á öllum hokkíleikjum, bæði í meistaraflokki og yngri flokkum, er alltaf einhver úr þessu heilbrigðisteymi á staðnum. Frá þessu er sagt á vef félagsins, sasport.is.

Það var hokkípabbinn Jóhann Þór Jónsson sem átti frumkvæðið að þessu verkefni og stóð einmitt vaktina sjálfur í síðasta heimaleik kvennaliðs SA þegar þær rauðu og hvítu mættu liði Skautafélags Reykjavíkur. „Jóhann hefur starfað sem sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður í rúm 30 ár og margoft staðið vaktina á hokkíleikjum og m.a. á heimsmeistaramótunum sem haldin hafa verið hér. Þetta er jákvæð og mikilvæg þróun sem vonandi á eftir að festa sig í sessi hjá okkur,“ segir á heimasíðu Skautafélagsins. 


Jóhann Þór Jónsson, vel græjaður frumkvöðull að stofnun heilbrigðisteymis á heimaleikjum í íshokkí hjá Skautafélagi Akureyrar. Mynd: SAsport.is.

Í heilbrigðisteyminu eru samtals 14 einstaklingar sem eiga það sameiginlegt að starfa eða hafa starfað með einum eða öðrum hætti í heilbrigðisgeiranum og vera tengd Skautafélaginu. Í teyminu eru hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraliðar og sjúkraflutningafólk. Á öllum heimaleikjum eru eitt til þrjú úr teyminu í merktum gulum vestum og tilbúin að bregðast við ef eitthvað kemur upp á. „Hér er um ómetanlega aðstoð að ræða sem unnin er í sjálfboðavinnu til þess að auka öryggi þeirra sem íþróttina stunda,“ segir í frétt SA. 

Banaslys á Englandi vakti óhug

Ekki er langt síðan öryggismál voru tekin sérstaklega upp hér á landi og víðar eftir banaslys sem átti sér stað í íshokkíleik á Englandi og var mikið áfall fyrir alla íshokkíhreyfinguna. Umræðan hafði reyndar átt sér stað hér fyrir þetta hörmulega atvik á Englandi, eins og fram kemur í tilkynningu frá Guðlaugu Ingibjörgu Þorsteinsdóttur, formanni dómaranefndar ÍHÍ, sem birtist á vef sambandsins í lok október. 

„Frá upphafi tímabils hefur búnaður leikmanna oft verið ræddur með tilliti til þess hve ábótavant er að leikmenn yngri flokka uppfylli kröfur leikreglna Alþjóða íshokkísambandsins (IIHF). Þá sérstaklega með tilliti til hálshlífa og hjálma sem oft hafa verið lausir á höfðum leikmanna eða stilltir þannig að þeir geta auðveldlega farið af leikmönnum,“ skrifaði Guðlaug meðal annars.

Guðlaug vísaði í reglur íþróttarinnar og kallaði eftir sameiginlegu átaki þjálfara, foreldra, leikmanna og ekki síst dómara varðandi búnað leikmanna þar sem öll sem að íþróttinni koma þurfi að vera samstíga.