Fara í efni
Íshokkí

„Gífurlega stoltur af stelpunum“

Rúnar Eff Rúnarsson, þjálfari Íslandsmeistaranna, var ausinn vatni eftir að titillinn var í höfn eins og venjan er! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Ég er rosalega ánægður með stelpurnar – gífurlega stoltur af þeim,“ sagði Rúnar Eff Rúnarsson,“ þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara Skautafélags Akureyrar í  íshokkí, við Akureyri.net í gærkvöldi eftir að Íslandsbikarinn fór á loft á Skautahöllinni.

„Mig langar að byrja á að óska Fjölnisstelpunum til hamingju með árangurinn, þær hafa bætt sig alveg gríðarlega í vetur og Emil Alengaard þjálfari þeirra á stóran þátt í því,“ sagði Rúnar. Þjálfararnir þekkjast vel enda Alengaard, sem er hálfur Svíi og hálfur Íslendingur, fyrrverandi félagi Rúnars í landsliðinu.

Samþykktum að Fjölnir fengi lánaðan markmann

Athygli vakti að eftir að SA rótburstaði Fjölni í fyrst úrslitaleiknum, 13:1, á heimavelli töpuðu akureyrsku stelpurnar í Reykjavík eftir vítakeppni. Að loknum hefðbundnum leiktíma var staðan 3:3 en markvörður Fjölnis, Andrea Jóhannsdóttir, varði öll þrjú víti norðanstúlkna. Ekki er síður athyglisvert að Andrea er leikmaður Skautafélags Reykjavíkur en Fjölnir fékk hana lánaða eftir fyrsta úrslitaleikinn.

„Það voru veikindi hjá Fjölnisstelpunum og við vildum miklu heldur að þær væru með góðan markmann en að þurfa að nota útileikmann í markinu, svo við gáfum einfaldlega leyfi fyrir því að þær fengju Andreu lánaða,“ sagði Rúnar. „Hún var aftur með þeim í kvöld og varði frábærlega.“

Ekki síður andlegur sigur

SA hefur á að skipa lang besta liði landsins. „Þær hafa allar staðið sig mjög vel; þær eru allar svo góðar að ég get ekki gert upp á milli þeirra,“ sagði þjálfarinn.

„Við stilltum okkur aðeins af eftir tapið í Reykjavík og í kvöld spiluðu stelpurnar allan tímann eins og lagt var upp með. Það var engin taugaveiklun í liðinu þótt við næðum ekki að skora fyrr en í öðrum leikhluta. Stelpurnar voru miklu rólegri núna en fyrir sunnan; þær hafa alltaf verið lang bestar og aldrei lent í þeirri stöðu áður sem upp kom þar.“

Þjálfarinn segir liðið skipað mjög hæfileikaríkum leikmönnum en sigurinn hafi ekki síður unnist vegna andlegs styrks hópsins. „Þær voru ótrúlega staðfastar allan tímann og héldu skipulagi. Þegar leikmenn verða stressaðir er oft það fyrsta sem gerist að þeir hætta að fara eftir planinu sem sett er upp og reyna eitthvað annað; það gerðist einmitt í leiknum í Reykjavík, en ekki í kvöld. Þess vegna er ég rosalega ánægður með þær. Við vissum að það yrði erfitt að skora því Fjölnisstelpurnar pakka dálitið mikið í vörn, en ég vissi að eftir fyrsta markið myndu flóðgáttirnar opnast - og það gerðist.“