Fara í efni
Íshokkí

Fyrsta tap SA Víkinga í hörkuleik við Fjölni

Andri Mikaelsson, fyrirliði SA, og Viktor Svavarsson berjast hatrammlega um pökkinn í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Því var haldið fram hér á föstudagskvöldið að karlalið Skautafélags Akureyrar væri óstöðvandi, enda hafði það unnið fyrstu fimm leiki Íslandsmótsins mjög örugglega. Það var auðvitað eins og við manninn mælt að liðið tapaði fyrsta leiknum í gærkvöldi! Liðið mætti þá Fjölni aftur í Skautahöllinni á Akureyri, þar sem SA-strákarnir unnu 8:2 á föstudagskvöldið, eftir að hafa komist í 8:0, en þeir urðu að gera sér 4:2 tap að góðu í gærkvöldi.

Ekkert var skorað í fyrstu lotunni, en heldur færðist fjör í leikinn í annari lotu. Jóhann Leifsson kom SA yfir snemma en Aron Knútsson jafnaði skömmu síðar. Andri Mikaelsson, fyrirliði SA, var svo rekinn út af í 10 mínútur og undir lok lotunnar fékk Orri Blöndal sömu refsingu! Einar Guðnason og Thomas Vidal gerðu annað og þriðja mark Fjölnis í öðrum leikhluta og Einar kom gestunum í 4:1 snemma í þriðju og síðustu lotu, á meðan þeir voru einum færri. Fjölnismaðurinn Andri Sverrisson fékk nefnilega 25 mínútna brottrekstur strax á fyrstu mínútu lotunnar, en þar sem hver lota er aðeins 20 mínútur var hann í raun rekinn í sturtu!

Gestirnir vörðust eins og brjálaðir menn það sem eftir var leiksins, Jóhann Leifsson gerði annað mark sitt og SA þegar rúmar 10 mínútur voru eftir en nær komust SA-strákarnir ekki.