Fara í efni
Íshokkí

Fjórir ungir SA-ingar snúa heim til Akureyrar

Berglind Leifsdóttir, Unnar Hafberg Rúnarsson, Gunnar Arason og Axel Orongan.

Gengið hefur verið frá félagaskiptum fyrir fjóra unga íshokkíleikmenn, sem uppaldir eru í Skautafélagi Akureyrar, en snúa nú heim frá félagsliðum í Svþjóð og ætla að taka slaginn með Skautafélagi Akureyrar í vetur. Þetta eru Axel Orongan, Gunnar Arason, Unnar Hafberg Rúnarson og Berglind Leifsdóttir. Frá þessu var greint á heimasíðu SA í gær. „Þetta er vissulega mikill hvalreki fyrir SA enda öll mjög efnilegir íshokkíleikmenn,“ segir þar.

Ástæða heimkomu leikmannanna er kórónuveirufaldurinn og sóttvarnarráðstafanir í Svíþjóð. Eins og fram kemur á heimasíðu SA er ástandið ekki gott í Svíþjóð og óvíst hvort og þá hve margir leikir verða spilaðir þar í vetur. „Leikmennirnir okkar sem snúa nú heim eru þrátt fyrir ungan aldur orðnir mjög öflugir leikmenn sem koma til með að styrkja meistaraflokka félagsins og verður spennandi að fylgjast með þeim í komandi leikjum.“

Axel Orongan er 19 ára sóknarmaður sem hefur spilað fyrir Nyköpings SKJ20 í Svíþjóð i vetur. Axel hefur spilað erlendis frá 15 ára aldri með liðum bæði í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Axel hefur staðið sig vel með A-landsliði Íslands á síðustu mótum og var á meðal stigahæstu leikmanna liðsins á síðasta heimsmeistaramóti, segir á heimasíðu SA. Hann hefur einnig verið öflugur með unglingalandsliðum Íslands og var stigahæsti leikmaður heimsmeistaramóts U20 liða í 3. deild á síðasta ári, þar sem hann var valinn besti sóknarmaður mótsins.

Gunnar Arason er 19 ára varnarmaður sem einnig spilaði fyrir Nyköpings SKJ20 í Svíþjóð í vetur. „Gunnar er einn allra efnilegasti varnarmaður landsins en hann var fyrirliði U20 landsliðs Íslands sem vann gull í III deild í janúar 2020 og hefur einnig spilað 8 leiki með karlalandsliði Íslands,“ segir á SA-síðunni. Gunnar lék með framhaldsskólaliði í Kanada síðastliðinn vetur en hafði þar áður spilað þrjú tímabil í meistaraflokki með SA Víkingum.

Unnar Hafberg Rúnarson er 18 ára sóknarmaður sem kemur frá Sollentuna U20 í Svíþjóð en hann hefur spilað fyrir félagslið í Svíþjóð síðastliðin þrjú tímabil. Unnar er öflugur sóknarmaður og spilaði með U20 landsliði Íslands á síðasta tímabili. Unnar á ekki langt að sækja hæfileikana því hann er sonur Rúnars Freys Rúnarssonar, yfirþjálfara SA og margfalds Íslandsmeistara.

Berglind Leifsdóttir er 20 ára sóknarmaður sem kemur frá Troja/Ljungby í næst efstu deild í Svíþjóð. Berglind var á sínu fyrsta tímabili í Svíþjóð í vetur en hafði áður verið einn öflugasti sóknarleikmaður Hertz-deildarinnar, að því er segir á heimasíðu SA. Hún hefur spilað 15 A-landsleiki fyrir Ísland.