Fara í efni
Íshokkí

Enn og aftur sigur hjá karlaliði SA

Akureyringar fagna fjórða marki sínu sem kom eftir aðeins 20 sekúndna leik í öðrum leikhluta. Skjáskot úr útsendingu á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands.

Liðin sem börðust um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí síðastliðið vor, Skautafélag Reykjavíkur og Skautafélag Akureyrar, mættust í Skautahöllinni í Laugardal í dag. SA vann eins marks sigur og situr enn ósigrað á toppi Hertz-deildarinnar.

SA-menn byrjuðu leikinn af krafti og náðu tveggja marka forystu, en gáfu svo aðeins eftir og heimamenn í SR náðu að jafna í 2-2. SA náði forystunni fljótlega aftur og staðan 2-3 eftir fyrsta leikhluta.

SR-ingar vissu varla hvaðan á þá stóð norðanveðrið þegar annar leikhluti hófst því eftir aðeins 20 sekúndur skoraði Uni Steinn Sigurðarson Blöndal fjórða mark SA og 17 leiksekúndum síðar bætti Andri Freyr Sverrisson fimmta markinu við. SA með 5-2 forystu fyrir síðasta þriðjunginn.

Fljótlega í þriðja leikhluta kom sjötta mark SA og útlit fyrir öruggan sigur, en hlutirnir eru fljótir að gerast í íshokkí. SR-ingar bættu við tveimur mörkum á næstu mínútum og svo einu enn þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Munurinn skyndilega orðinn eitt mark, 5-6, en nær komust þeir ekki. SA hélt út og vann að lokum.

  • Leikurinn í tölum: SR - SA 5-6 (2-3, 0-2, 3-1).
  • Upptaka af leiknum á YouTube-rás ÍHÍ.
  • Til að sjá gang leiksins - smellið hér.

SR
Mörk/stoðsendingar: Gunnlaugur Þorsteinsson 3/0, Davids Krumins 1/3, Petr Stepanek 1/0, Sölvi Atlason 0/3, Kári Arnarsson 0/2, Bjarki Jóhannesson 0/2.
Varin skot: 14 (73,68%).
Refsingar: 12 mínútur.

SA
Mörk/stoðsendingar: Hafþór Andri Sigrúnarson 1/0, Unnar Hafberg Rúnarsson 1/0, Ormur Karl Jónsson 1/0, Uni Steinn Sigurðarson Blöndal 1/0, Andri Freyr Sverrisson 1/0, Róbert Máni Hafberg 1/0, Jóhann Már Leifsson 0/3, Ingvar Þór Jónsson 0/1, Orri Blöndal 0/2, Arnar Helgi Kristjánsson 0/1.
Varin skot: 19 (76%)
Refsingar: 14 mínútur.