Fara í efni
Íshokkí

Eins marks ósigur SA í Laugardalnum

Úr leik SA og SR á Akureyri í úrslitakeppninni á síðasta tímabili. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Karlalið SA tapaði naumlega fyrir liði Skautafélags Reykjavíkur þegar liðin áttust við á Íslandsmótinu í íshokkí, Toppdeildinni, nú síðdegis. Eftir rólegan fyrsta leikhluta skiptust liðin á forystunni, en mark Kára Arnarssonar á lokamínútu leiksins tryggði heimamönnum í SR sigurinn og efsta sætið í deildinni. 

Leikmenn SA voru heldur aðgangsharðari við mark heimamanna í fyrsta leikhluta og skoraði Jóhann Már Leifsson eina markið eftir um rúmlega fimm mínútna leik. Það voru þó ekki liðnar nema innan við þrjár mínútur af öðrum leikhluta þegar heimamenn í SR jöfnuðu eftir góða sókn þar sem sóknarmaður SR fékk sendingu út þar sem hann var aleinn hægra megin og skoraði af öryggi. 

Ólafur Björgvinsson náði aftur forystunni fyrir SA undir miðjan annan leikhluta þegar hann var skyndilega einn á móti markmanni eftir dómarakast og sofandahátt í vörn SR. Aftur jöfnuðu SR-ingar þegar stutt var eftir af öðrum leikhluta. Alex Máni Sveinsson skoraði þá af stuttu færi, en skömmu áður höfðu SR-ingar komist í snögga sókn og Róbert Steingrímsson varði vel í markinu.

Fyrir þessa sókn SR átti sér stað skondið atvik þar sem Jóhann Már Leifsson var kominn einn upp að marki SR, en virtist felldur og hreinlega skaust sjálfur inn í markið, en pökkurinn ekki. Ekki var þó refsað í þessu tilviki, dómarakast og sókn SR-inga í framhaldinu sem endaði með jöfnunarmarkinu. Ekki löngu seinna kom þriðja mark SR þegar Kári Arnarsson fékk pökkinn fyrir utan eftir dómarakast og skoraði. Heimamenn leiddu því með einu marki fyrir lokaþriðjunginn.


Það er pökkurinn sem á að fara í markið, ekki sóknarmaðurinn. Jóhann Már Leifsson var kominn í ákjósanlega stöðu en virtist hafa verið felldur og rann sjálfur í markið í stað þess að pökkurinn færi þá leið. Ekki var það þó mat dómara leiksins að um brot hafi verið að ræða. Skjáskot úr útsendingu á YouTube-rás ÍHÍ.

SA sótti ákaft á fyrstu mínútum þriðja leikhluta enda einum fleiri í tvígang í tvær mínútur eftir refsingar SR-inga. Það skilaði að lokum marki eftir rúmlega fimm mínútna leik þegar Ormur Jónsson skaut utan frá rangstöðulínunni og pökkurinn í markið.

Bæði lið börðust ákaft fyrir því að ná inn fjórða markinu og það voru SR-ingar sem náðu því loksins þegar 55 sekúndur voru eftir af leiknum. Kári Arnarsson var þá fyrstur að átta sig eftir að Róbert í marki SA varði skot SR-inga og pökkurinn féll fyrir Kára sem skoraði af stuttu færi. SR-ingar gátu svo gert út um leikinn þegar þeir náðu skoti á tómt markið eftir að SA tók markvörðinn út af til að þyngja sóknina, en skotið framhjá. Andartaki síðar áttu SA-menn skot í slána á marki SR, en svo rann tíminn út og 4-3 sigur SR-inga staðreynd. 

SR

Mörk/stoðsendingar: Gunnlaugur Þorsteinsson 1/0, Alex Máni Sveinsson 1/0, Hákon Magnússon 1/0, Eduard Kascak 0/1, Haukur Steinsen 0/1, Markús Ólafarson 0/1, Kári Arnarsson 0/1. 
Varin skot: 26 (89,66%).
Refsimínútur: 8.

SA

Mörk/stoðsendingar: Jóhann Már Leifsson 1/1, Ólafur Björgvinsson 1/0, Ormur Jónsson 1/0, Marek Vybostok 0/1, Dagur Jónasson 0/1, Hafþór Andri Sigrúnarson 0/1, Ormur Jónsson 0/1.
Varin skot: 29 (87,88%).
Refsimínútur: 10.

Með sigrinum fóru Reykvíkingar fram úr SA á toppi Toppdeildarinnar. SR er með níu stig úr fjórum leikjum, en SA með sex stig úr þremur leikjum.

Upptöku af leiknum má sjá í spilaranum hér að neðan.