Fara í efni
Íshokkí

Axel gerði fjögur mörk í öruggum sigri SA

Axel Orongan horfir á eftir pekkinum á leið í netið snemma leiks í kvöld; markvörðurinn kom engum vörnum við og fyrsta mark Axels af fjórum staðreynd. Ljósmynd: Ásgrímur Ágústsson.

Axel Orongan snéri á svellið á nýjan leik í kvöld og gerði fjögur mörk þegar Víkingar Skautafélags Akureyrar sigruðu Fjölni 5:0 í Hertz-deild Íslandsmóts karla í íshokkí.

Axel fékk heilahristing eftir höfuðhögg í stórsigri á SR (12:4) í Laugardalnum í síðasta mánuði, og tók ekki þátt í síðustu tveimur leikjum. Hann gerði sex mörk gegn SR og hefur því skoraði 10 mörk í tveimur leikjum!

Leikurinn í kvöld var á Akureyri, þar sem SA og Fjölnir mættust einnig fyrir hálfum mánuði. Þá unnu heimamenn fyrri viðureignina mjög örugglega en gestirnir þá seinni afar óvænt. Það er eina tap SA í vetur.

Heimamenn voru greinilega ákveðnir í því í kvöld að láta slysið ekki endurtaka sig í kvöld og komu mjög ákveðnir til leiks. Léku reyndar gríðarlega vel allan tímann og sigurinn var sanngjarn, en þess verður þó að geta að leikmenn Fjölnis léku líka vel; vörn liðsins var góð, þeir sýndu ágæt sóknartilþrif en Jakob Jóhannesson var frábær í marki SA og kom í veg fyrir að gestirnir kæmu pekkinum í markið.

Axel Orongan um það bil að slá pökkinn sem söng í netinu andartaki síðar - staðan orðin í 1:0 í leik kvöldsins. Ljósmynd: Ásgrímur Ágústsson.