Átta heimaleikir á dagskrá næstu daga

Eins og flestar aðrar helgar er ýmislegt fram undan hjá Akureyrarliðunum í fótbolta, körfubolta, blaki, íhokkí og handbolta. Akureyri.net fer yfir leikjadagskrána um helgina og fram á þriðjudag. Átta heimaleikir og þrír útileikir eru á dagskránni frá fimmtudegi til þriðjudags.
FIMMTUDAGUR – fótbolti
Karlalið KA í knattspyrnu leikur fimmta leik sinn í Lengjubikarnum í kvöld þegar liði tekur á móti Fram í Boganum. Breiðablik er efst í riðlinum með sjö stig, þá Fram með sex stig, síðan Fylkir og KA með fimm. KA á veika von um vinna riðilinn, ef liðið sigrar í kvöld, en þá þurfa úrslit allra leikja sem eftir eru í riðlinum að falla með þeim.
- A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu, riðill 2
Boginn kl. 17:15
KA - Fram
FÖSTUDAGUR – körfubolti
Karlalið Þórs í körfuknattleik á heimaleik þessa helgina og fær lið Breiðabliks í heimsókn. Þórsarar hafa verið í 5. sæti deildarinnar í nokkurn tíma, hafa unnið tíu leiki. Breiðablik kemur í humátt á eftir, situr í 7. sætinu með átta sigra. Þór vann fyrri leik liðanna í Smáranum í nóvember með sex stiga mun, 88-82.
- 1. deild karla í körfuknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15*
Þór - Breiðablik
LAUGARDAGUR – blak, fótbolti, íshokkí
Það verður svokallaður tvíhöfði í KA-heimililnu á laugardag þegar karla- og kvennalið KA í blaki taka á móti liðum HK úr Kópavogi. Karlalið KA er á toppi deildarinnar þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. KA er með 45 stig og Þróttur R. með 43 stig.
- Unbroken-deild karla í blaki
KA-heimilið kl. 15
KA - HK
Kvennalið KA á í harðri baráttu við Völsung frá Húsavík um deildarmeistaratitilinn. Völsungur er í efsta sætinu með 42 stig og á einn leik eftir, en KA fylgir fast á hæla þeirra með 41 stig og á tvo leiki eftir.
- Unbroken-deild kvenna í blaki
KA-heimilið kl. 17
KA - HK
- - -
Þórsarar taka á móti liði ÍR í þriðja leik sínum í A-deild Lengjubikars karla í Boganum á laugardag. Þór hefur unnið einn leik og tapað einum, er í 3.-4. sæti með þrjú stig eins og FH. Fyrir ofan þau eru Afturelding og ÍR með sex stig. Aðeins fimm lið eru í riðlinum þar sem Víkingur dró lið sitt úr keppni. Efsta lið riðilsins fer áfram í undanúrslit mótsins og því ljóst að Þórsarar þurfa á sigri að halda til að komast inn í þá baráttu.
- A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu, riðill 3
Boginn kl. 17:45
Þór - ÍR
- - -
Tvíhöfði svokallaður er einnig á dagskrá í íshokkí því bæði lið SA fara í Egilshöllina og mæta liðum Fjölnis.
Fyrri hokkíleikur laugardagsins er viðureign karlaliða Fjölnis og SA. Akureyringar hafa þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn í Toppdeild karla, en SR og Fjölnir berjast um 2. sætið. SR stendur betur að vígi, er með 29 stig, Fjölnir er með 27 stig. Bæði lið eiga aðeins eftir að mæta SA.
- Toppdeild karla í íshokkí
Egilshöllin kl. 16:45
Fjölnir - SA
Kvennalið sömu félaga mætast á sama stað kl. 19:30. Eina von SA til að skjótast í efsta sætið og vinna deildarmeistaratitilinn er að vinna báða leikina sem liðið á eftir og treysta einnig á að Fjölnir tapi fyrir SR, en Fjölni nægir hins vegar eitt stig úr leiknum á laugardag til að tryggja sér efsta sætið og oddaleiksréttinn í úrslitaeinvíginu, sem löngu er ljóst að verður á milli þessara tveggja liða eins og undanfarin ár. Öll liðin eiga eftir tvo leiki. Fjölnir er með 28 stig, SA með 23 stig og SR með 12.
- Toppdeild kvenna í íshokkí
Egilshöll kl. 19:30
Fjölnir - SA
SUNNUDAGUR – fótbolti, körfubolti
Þór/KA leikur fjórða leik sinn í A-deild Lengjubikarsins á sunnudag þegar liðið mætir Fylki á útivelli. Þrjú lið eru jöfn með sex stig, Þór/KA, Þróttur og Valur, en Þór/KA hefur leikið einum leik meira en hin tvö. Þróttur mætir Fram á laugardag og Valur mætir Tindastóli á sunnudag. Tvö efstu liðin í riðlinum fara áfram í undanúrslit.
- A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu, riðill 1
Würth-völlurinn í Árbæ kl. 15
Fylkir - Þór/KA
- - -
Kvennalið Þórs í körfuknattleik fær Val í heimsókn í Íþróttahöllina á sunnudag í A-hluta Bónusdeildarinnar, í harðri baráttu liðanna um endanlega röð í deildinni áður en kemur að úrslitakeppni mótsins. Þór hefur nú tapað þremur leikjum í röð í deildinni eftir langa sigurhrinu þar á undan í deild og bikar og þarfnast sigurs í deildinni sem og í aðdraganda þess að liðið fer í undanúrslit bikarkeppninnar, VÍS-bikarsins, um miðjan mars.
- Bónusdeild kvenna í körfuknattleik, A-hluti
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 17
Þór - Valur
ÞRIÐJUDAGUR – handbolti
Karlalið KA og Þórs eiga bæði heimaleiki gegn liðum frá Vestmannaeyjum á þriðjudaginn í komandi viku. Þór og HBH mætast í Grill 66 deild karla kl. 17:30 í Íþróttahöllinni og KA mætir ÍBV í Olísdeildinni í KA-heimilinu kl. 19.