Íshokkí
Akureyrsk hokkísveifla í Istanbúl
15.03.2024 kl. 06:00
Landsliðshópurinn allur, U18 landslið Íslands í íshokkí.
Akureyringar voru eins og oft áður áberandi í U18 landsliði Íslands í íshokkí sem náði fínum árangri á HM, III. deild, í Tyrklandi í liðinni viku. Skautafélag Akureyrar átti 12 fulltrúa í 20 manna hópi U18 landsliðsins. Fimm SA-drengir spiluðu sína fyrstu landsleiki með U18 á mótinu. Tveir af þremur úr þjálfarateyminu koma frá SA, Axel Orongan, fyrrverandi leikmaður SA, og Atli Þór Sveinsson, núverandi leikmaður karlaliðs SA og aðstoðarþjálfari kvennaliðsins. Auk þeirra var svo Akureyringurinn Kristján Sturluson liðsstjóri.
Fjallað er um árangur liðsins í frétt Íshokkísambands Íslands, en liðið vann tvo leiki og tapaði þremur, endaði í 4. sæti af sex liðum. Það mun vera mjög góður árangur þegar mið er tekið af aldurssamsetningu liðsins þar sem fjölmargir í leikmannahópnum spila með U16 liðum hér heima og öttu því kappi við sér eldri drengi í Istanbúl þar sem mótið fór fram.
Fyrirliðinn og SA-maðurinn Ólafur Baldvin Björgvinsson skoraði tvö mörk á mótinu, eins og reyndar fleiri frá Skautafélagi Akureyrar. Stefán Guðnason, Alex Ingason, Bjarmi Kristjánsson og Askur Reynisson skoruðu allir tvö mörk. Askur þurfti aðeins fjögur markskot til að skora sín tvö mörk.
Tólf leikmenn í 20 manna hópi koma frá SA eins og áður sagði.
- Alex Máni Ingason (2008/nýliði)
- Aron Gunnar Ingason (2008)
- Askur Reynisson (2009/nýliði)
- Bjarki Jóhannsson (2007/nýliði)
- Bjarmi Kristjánsson (2007/aðstoðarfyrirliði)
- Bjartur Westin (2008/nýliði)
- Daníel Ryan (2006)
- Elvar Skúlason (2008/nýlíði)
- Sigurgeir Söruson (2007)
- Stefán Guðnason (2007/nýliði)
- Ólafur Baldvin Björgvinsson (2006/fyrirliði)
- Þorleifur Rúnar Sigvaldason (2007)
SA-hluti U18 landsliðsins. Efri röð frá vinstri: Atli Þór Sveinsson aðstoðarþjálfari, Þorleifur Rúnar Sigvaldason, Bjarki Jóhannsson, Bjarmi Kristjánsson, Alex Máni Ingason, Aron Gunnar Ingason, Ólafur Baldvin Björgvinsson, Daníel Snær Ryan og Kristján Sturluson, liðsstjóri. Neðri röð frá vinstri: Elfar Skúlason, Bjartur Westin, Stefán Guðnason, Askur Reynisson og Sigurgeir Bjarki Söruson.
Fimm SA-strákar voru nýliðar með U18 landsliðinu í þessu verkefni og spiluðu sína fyrstu landsleiki með U18 landsliðinu. Frá vinstri: Askur Reynisson, Bjartur Westin, Stefán Guðnason, Alex Máni Ingason, Bjarki Jóhannsson og Elfar Skúlason.
Tveir af þremur í fyrirliðateyminu eru frá SA. Bjarmi Kristjánsson (SA, aðstoðarfyrirliði), Ólafur Baldvin Björgvinsson (SA, fyrirliði) og Viktor Mojzyszek (Fjölnir, aðstoðarfyrirliði).