Fara í efni
Íshokkí

Akureyringar deildarmeistarar

Orri Blöndal, fyrirliði SA, hampar deildarmeistarabikarnum eftir leikinn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Karlalið Skautafélags Akureyrar varð deildarmeistari í íshokkí í kvöld, þegar það sigraði Skautafélag Reykavíkur 8:3 á Akureyri. Titillinn er í höfn þótt SA eigi þrjá leiki eftir, en fögnuður kvöldsins var þó látlaus; sá stóri, Íslandsbikarinn, er alltaf markmiðið og ekki verður fagnað af neinum krafti fyrr en hann fer á loft.

Aldrei er svo sem hægt að slá neinu föstu en óhætt að fullyrða að ástæða er til mikillar bjartsýni; telja verður mjög  líklegt að Akureyringar verði Íslandsmeistarar í vor. 

Staðan var 4:2 eftir fyrsta leikhluta, liðin gerðu sitt hvort markið í þeim næsta og í þriðja og síðasta leikhluta gerðu heimamenn þrjú mörk.

Jóhann Leifsson gerði 2 mörk fyrir SA í leiknum, og eitt hver þeir Unnar Rúnarsson, Baltasar Hjálmarsson, Orri Blöndal, Halldór Skúlason,  Heiðar Jóhannesson og Róbert Hafberg.

SA og SR mætast aftur á Akureyri síðdegis á morgun. Leikurinn hefst klukkan 17.45.

Lið SA Víkinga, deildarmeistari í íshokkí, eftir sigurinn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.