Útgerðarfélagið 80 ára – stórmerk saga

SÖFNIN OKKAR – 70
Frá Iðnaðarsafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega.
Eitt af megin markmiðum Iðnaðarsafnsins á Akureyri er að halda utan um sögu iðnaðar í bænum og gera þeim þætti sem best skil með varðveislu og miðlun. Nú vill svo til að eitt helsta iðnaðarfyrirtæki bæjarins í áratugi, Útgerðarfélag Akureyringa, stendur á merkum tímamótum en það fagnar 80 ára afmæli í ár. ÚA var stofnað árið 1945 og stofnfundur þess haldin 26. maí sama ár. Í tilefni stórafmælisins verður sett upp sýning á neðri hæð Iðnaðarsafnsins á Akureyri. Opnunardagur sýningarinnar er Sjómannadagurinn, 1. júní næstkomandi.
Kaldbakur EA 1 leggst að Torfunefsbryggju 17. maí 1947.
Margs er að minnast í langri og merkilegri sögu ÚA. Um tveimur árum eftir stofnfund félagsins, 17. maí 1947 lagðist togarinn Kaldbakur EA 1 að Torfunefsbryggju við mikinn fögnuð bæjarbúa. Félagið hafði eignast sinn fyrsta togara og stórt skref tekið í útgerðarsögu bæjarins. Kaldbakur var síðutogari og eignaðist félagið á næstu árum fleiri slíka en þeir voru fimm þegar mest var. Árið 1951 var ný fiskverkunarstöð á Oddeyri tekin í notkun og fiskurinn í fyrsta skipti unninn í landi. Sex árum síðar var hraðfrystihús á Oddeyrartanga tekið í notkun sem síðan hefur verið byggt við og stækkað í tímans rás.
Hraðfrystihús ÚA í byggingu árið 1957.
Árið 1972 hófst í fyrsta sinn endurnýjun skipaflotans og viku þá síðutogarar fyrir skuttogurum. Þetta ár eignaðist félagið sinn fyrsta skuttogara, Sólbak EA 5 og á næstu þremur árum bættust við fjórir til viðbótar. Stuttu áður hafði Gísli Konráðsson, sem var annar framkvæmdastjóri félagsins í áratugi, teiknað upp firmamerki sem samanstendur af fangamerki félagsins og akkeri innan í skildi. Voru skuttogararnir merktir þessu nýja merki en það hefur síðan þá verið eitt helsta kennileiti ÚA.
Áhöfnin á Sólbak EA 5, fyrsta skuttogara ÚA sem félagið keypti árið 1972.
Í upphafi var deilt um hvort fyrirhugað útgerðarfélag ætti að verða bæjarútgerð eða hlutafélag en hið síðara varð þó raunin. Var félagið því eign Akureyringa líkt og nafnið gefur til kynna en bærinn átti þó lengst af stóran hlut í félaginu og studdi það fjárhagslega. Árið 2002 urðu töluverðar breytingar á eignahlut ÚA þegar Eimskip eignaðist svo gott sem allt félagið. Útgerðarfélagið Brim keypti ÚA af Eimskip tveimur árum síðar og bar félagið þá ekki lengur nafnið Útgerðarfélag Akureyringa. Árið 2011 keypti Samherji síðan eignir Brims á Akureyri og fékk félagið þá aftur sitt gamla nafn. Fyrir tveimur árum sameinaðist ÚA alfarið Samherja.
Úr vinnslusal hraðfrystihússins. Á bæði vinnufatnaði starfsfólks og fiskikössum sést firmamerkið greinilega, en það er eitt helsta kennileiti félagsins.
Iðnaðarsafnið á Akureyri á í fórum sínum ýmsa gripi og muni er tengjast félaginu með einum eða öðrum hætti og verða þeir til sýnis á sýningunni. Þrátt fyrir það þá er eins og gengur og gerist ýmislegt sem ekki hefur ratað inn á Iðnaðarsafnið eða Minjasafnið á Akureyri.
Nú leitum við því til ykkar og óskum eftir gripum eða munum til láns fyrir fyrirhugaða sýningu. Átt þú eitthvað í fórum þínum sem tengist Útgerðarfélagi Akureyringa sem gaman gæti verið að hafa til sýnis á komandi afmælissýningu félagsins? Ef svo er, endilega hafðu samband við okkur í gegnum netfangið minjasafnid@minjasafnid.is, allar tillögur eru vel þegnar!
Landað úr skuttogaranum Svalbak EA 302.