Hafa miklar áhyggjur af Iðnaðarsafninu
Iðnaðar- og tækjadeild Einingar-Iðju lýsir yfir miklum áhyggjum af framtíð Iðnaðarsafnsins og skorar á bæjaryfirvöld að tryggja safninu þann fjárstuðning sem þarf til að halda því opnu. Þetta kemur fram á vef verkalýðsfélagsins.
Þar segir í morgun: „Á aðalfundi Iðnaðar- og tækjadeildar Einingar-Iðju sem fram fór í gær urðu umræður um stöðu Iðnaðarsafnsins á Akureyri, en stjórn safnsins segist munu loka safninu í síðasta lagi 1. mars nk. komi ekki til fjárframlags frá Akureyrarbæ.“
Undir liðnum önnur mál var lögð fram eftirfarandi ályktun sem var samþykkt samhljóða:
„Iðnaðar og tækjadeild Einingar-Iðju lýsir yfir miklum áhyggjum af framtíð Iðnaðarsafnsins á Akureyri og skorar á bæjaryfirvöld á Akureyri að tryggja safninu þann fjárstuðning sem þarf til að halda þessu merka safni opnu á ársgrundvelli.
Iðnaðarsafnið á Akureyri hefur nú í 25 ár safnað og varðveitt sögu iðnfyrirtækja og starfsmanna þeirra og er ómetanlegur gagnagrunnur fyrir sögu iðnaðarbæjarins Akureyri sem okkur ber að varðveita og styðja.
Það var iðnaður sem skóp Akureyri og gerði bæinn okkar að því sem hann er, því megum við aldrei gleyma.“
Smellið hér til að lesa umfjöllun Akureyri.net um málefni safnsins á dögunum.