Fara í efni
Hús dagsins

Þórsarar töpuðu eftir hrun í seinni hálfleik

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar máttu þola 22ja stiga tap fyrir Ármenningum í 11. umferð 1. deildar karla í körfubolta í kvöld. Eftir að hafa leitt lengst af fyrri hálfleiknum hrundi leikur liðsins í þeim seinni og Ármenningar gengu á lagið og sveifluðu leiknum um 25 stig á 20 mínútum, frá því að vera þremur stigum undir og yfir í 22ja stiga sigur.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur og leiddu lengst af fyrsta leikhluta á meðan Ármenningum gekk afar illa að hitta úr tveggja stiga skotunum. Báðum liðum gekk reyndar brösuglega að koma þristunum ofan í. Tim Dalger var í stuði og skoraði 14 stig í fyrsta leikhlutanum og 11 af fyrstu 12 stigum Þórs, Baldur með eitt úr víti. Næstum sjö mínútur voru liðnar þegar Andrius Globys bættist á skortöfluna ásamt Dalger og Baldri. Þórsarar með sjö stiga forskot. Ármenningar gerðu sig líklega til að éta upp forskotið strax á fyrstu mínútu annars leikhluta, en Þórsarar héldu þó forskotinu út fyrri hálfleikinn, þriggja stiga munur eftir fyrri hálfleikinn, 42-39.

Seinni hálfleikurinn var hörmulegur af hálfu Þórsara, best að fara ekkert í grafgötur með það. Ármenningar jöfnuðu fljótlega og komust yfir um miðjan þriðja leikhluta, skoruðu tíu stig í röð, slitu sig aðeins frá Þórsurum og leiddu með sjö stigum fyrir lokafjórðunginn.

Fjórði leikhlutinn var sérstaklega slakur og Þórsurum gekk hreinlega ekkert að koma boltanum ofan í körfuna. Fyrsta stig liðsins í fjórða leikhluta kom úr víti eftir rúmlega þrjár mínútur, fyrsta karfan úr opnum leik kom eftir sex mínútur! Þegar þrjár mínútur voru eftir hafði Þórsliðið skorað fimm stig í leikhlutanum og þegar upp var staðið tapaðist leikhlutinn með 15 stigum og leikurinn með 22 stigum. Erfitt að átta sig á því hvað gerist þegar öllum eru mislagðar hendur og hitta ekki úr skotunum sínum, auk annarra mistaka sem gáfu gestunum auðveldar körfur.

Ef til vill segir það alla söguna að Þórsliðið var samtals með sjö stoðsendingar skráðar í leiknum. Tim Dalger var stigahæstur með 26 stig. Byrjunarlið Ármanns skipti stigunum nokkuð jafnt á milli sín, en Arnaldur Grímsson var stigahæstur með 19 stig.

  • Gangur leiksins: Þór - Ármann (23-16) (23-19) 42-39  (11-21) (10-25) 63-85
  • Byjunarlið Þórs: Andrius Globys, Baldur Örn Jóhannesson, Orri Már Svavarsson, Reynir Bjarkan Róbertsson, Tim Dalger.
  • Staðan í deildinni
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Eins skondið og það hljómar færðust Þórsarar upp um eitt sæti þrátt fyrir tap í kvöld. Þeir hafa unnið fjóra leiki af 11, eins og Fjölnir og KFG og raðast í 7. sætið, efstir þessara þriggja liða.

Helsta tölfræði leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar

  • Tim Dalger 26 - 8 - 2 - 23 framlagsstig
  • Reynir Bjarkan Róbertsson 8 - 4 - 0
  • Veigar Örn Svavarsson 7 - 6 - 0
  • Baldur Örn Jóhannesson 5 - 6 - 2
  • Andri Már Jóhannesson 5 - 1 - 0
  • Andrius Globys 4 - 6 - 0
  • Orri Már Svavarsson 4 - 5 - 0
  • Smári Jónsson 4 - 1 - 3
  • Páll Nóel Hjálmarsson 0 - 1 - 0