Fara í efni
Hús dagsins

Stelpurnar í KA/Þór hampa bikarnum í dag

Það verður nóg um ferðalög hjá íþróttaliðum Akureyrar í dag. Sex lið í fjórum greinum spila á útivöllum í dag, allt frá Laugardalnum til Ísafjarðar, en eini heimaleikur dagsins verður í KA-heimilinu kl. 15 og þar fer bikar á loft í leikslok!

Tvö Akureyrarlið sem eiga leiki í dag urðu deildarmeistarar um liðna helgi. Bikar fer á loft síðdegis eftir leik KA/Þórs þar sem liðið hefur þegar tryggt sér sigur í Grill 66 deildinni í handknattleik, en væntanlega bíður það heimaleiks hjá karlaliði SA í íshokkí að fá afhentan bikar sem deildarmeistarar Toppdeildarinnar. Í dag er líka fótbolti, blak og handbolti á dagskránni.

LAUGARDAGUR - blak, fótbolti, handbolti, íshokkí

Blakboltinn flýgur fyrstur af stað í boltaleikjum dagsins þegar kvennalið KA sækir Álftnesinga heim. Liðin hafa mæst tvisvar í deildinni í vetur og KA haft betur í bæði skiptin, fyrst 3-0 á Álftanesi og svo 3-1 á Akureyri.

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    Álftanes kl. 12
    Álftanes - KA

Að öllu jöfnu má búast við öruggum sigri KA sem þar með myndi endurheimta toppsæti Unbroken-deildarinnar af Völsungi. Fyrir leikinn í dag er KA í 2. sæti með 38 stig og á leik til góða á Völsung sem er með 40 stig. Álftnesingar eru hins vegar á botni deildarinnar með þrjú stig úr 15 leikjum.

- - -

Karlalið KA í knattspyrnu leikur fjórða leik sinn í riðli 2 í A-deild Lengjubikars karla í dag þegar þeir sækja Fylki heim í Árbæinn. KA hefur unnið einn leik, gert eitt jafntefli og tapað einum, er með fjögur stig eins og Breiðablik og Fylkir, en Fylkismenn eiga leik til góða. Fram ef efst í riðlinum með sex stig.

  • A-deild Lengjubikars karla, riðill 2
    Würth-völlurinn í Árbæ kl. 15
    Fylkir - KA

- - -

Það verður væntanlega veisla í KA-heimilinu síðdegis í dag því stelpurnar í KA/Þór tryggðu sér sigur í Grill 66 deildinni með sigri um síðastliðna helgi og fá bikarinn afhentan að leik loknum í dag.

  • Grill 66 deild kvenna í handknattleik
    KA-heimilið kl. 15
    KA/Þór - Víkingur

Leikur dagsins er gegn Víkingi sem er í 4. sæti deildarinnar með 19 stig. KA/Þór er í efsta sætinu með 18 stig, HK er með 22 og Afturelding 21 stig. KA/Þór vann fyrri viðureign þessara liða í nóvember með fjögurra marka mun, 19-15.

- - -

Baráttan á toppi Grill 66 deildar karla í handknattleik heldur áfram. Þórsarar eiga erfiðan útileik fyrir höndum í dag þegar þeir liði Harðar á Ísafirði. Helstu keppinautarnir, Selfoss og Víkingur, gerðu jafntefli í gærkvöld sem léttir Þórsurum róðurinn örlítið. 

  • Grill 66 deild karla í handknattleik
    Ísafjörður kl. 16
    Hörður - Þór

Þórsarar unnu stórsigur, 33-19, í fyrri leiknum gegn Herði sem fram fór á Akureyri í október. Þór er sem stendur í 2. sæti deildarinnar með 20 stig, þremur stigum á eftir Selfyssingum, en eiga leikinn í dag og annan til inni. Hörður er í 4. sæti deildarinnar með 14 stig. Baráttan á toppnum á milli Þórs og Selfoss snýst um það hvort liðið fer beint upp í Olísdeildina í stað þess að fara í umspil um seinna lausa sætið.

- - -

Karlalið KA í blaki sækir Íslandsmeistara Hamars heim til Hveragerðis í 19. umferð Íslandsmótsins, Unbroken-deildarinnar. Hamar hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn þrisvar á síðastliðnum fjórum árum. KA er hins vegar á toppi deildarinnar núna þegar liðin eiga þremur leikjum ólokið.

  • Unbroken-deild karla í blaki
    Íþróttahúsið í Hveragerði kl. 17
    Hamar - KA

KA er með 42 stig í efsta sæti deildarinnar, Þróttur R. í 2. sæti með 40 stig og Hamar með 39. Það er því hörð og spennandi barátta fram undan um deildarmeistaratitilinn og ekki síður röðina sem ræður heimaleikjaréttinum í úrslitakeppninni. Með góðum sigri í dag gæti KA reyndar farið langleiðina með að tryggja sér efsta sætið.

- - -

Íslandsmót karla og kvenna í íshokkí hafa í vetur verið skipulögð með það í huga að samnýta ferðir beggja liða frá hverju félagi og spila svokallaða tvíhöfða. Einn þannig er á dagskrá í dag þegar bæði SA-liðin fara suður og mæta liðum Skautafélags Reykjavíkur.

  • Toppdeild kvenna í íshokkí
    Skautahöllin í Laugardal kl. 16:30
    SR - SA

Liðin þrjú í Toppdeild kvenna spila áttfalda umferð og hafa SA og SR mæst sex sinnum það sem af er tímabili. SA hefur unnið fjóra leiki í venjulegum leiktíma, en liðin hafa unnið hvort sinn leikinn eftir framlengingu og vítakeppni.

Karlalið SA hefur þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og oddaleiksréttinn í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Það varð reyndar ljóst fyrir rúmri viku án þess að SA væri að spila þann daginn því Fjölnir vann SR og skaust upp í 2. sætið, en fyrir þann leik var SR eina liðið sem gat náð SA að stigum.

  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin í Laugardal kl. 19:30
    SR - SA

SA er á toppnum með 35 stig og á þrjá leiki eftir, Fjölnir er með 27 stig og á einn leik eftir og SR í 3. sæti með 26 stig og tvo leiki eftir. Liðin fjögur í Toppdeild karla spila sexfalda umferð. SA og SR hafa þegar mæst fjórum sinnum og SA haft betur í þremur leikjum.