Fara í efni
Hús dagsins

Hús dagsins: Strandgata 27

Þann 18. júní 1885 voru fulltrúar Bygginganefndar Akureyrar staddir á Oddeyrinni, þar sem risið hafði dágóð húsaþyrping. Að frátöldum Lundi og torfbæ á Eyrinni miðri var byggðin að mestu bundin við strandlengjuna, út frá höfuðstöðvum Gránufélagsins. Þó höfðu risið fáein hús utar á Eyrinni, m.a. mikið steinhús, sem og timburhús Snorra Jónssonar. En erindi bygginganefndar þennan daginn var einmitt að mæla út fyrir götu í átt að téðum húsum. Eða, að „[...] áætla götu frá Strandgötunni, upp og út eyrina fyrir austan hús Jóns Halldórssonar. Var fortaug ákveðin 3 álnir, 1 alin til rennusteins og 12 álnir til götu, þannig að 20 álnir verða milli húsa þvert yfir götuna“ (Bygg.nefnd. Ak: nr.65, 1885). Þessi gata, sem alls átti að verða 20 álna eða 12,6 m breið, var og er auðvitað Norðurgata. Það heiti kom þó ekki fyrr en nokkru síðar. En umrætt Hús Jóns Halldórssonar, sem notað var sem mið, við ákvörðun Norðurgötunnar, stendur enn þegar þetta ritað. Já, þegar þetta er ritað, því á næstunni gæti mögulega dregið til tíðinda hvað það varðar. Um er að ræða Strandgötu 27.

Strandgata 27 stendur á vesturhorni Strandgötu og Norðurgötu. Húsið reistu þeir Jón Halldórsson og Hans Guðjónsson árið 1876. En það var 25. apríl það ár sem þeir fengu lóðina útmælda. Ekki var minnst einu orði á byggingarleyfi en ljóst að húsið hefur risið það ár, því árið 1877 fékk Sigurður nokkur Jónsson leyfi til að reisa hús, áfast húsi þeirra. Ekki liggja fyrir neinar lýsingar á húsum þessum en á gömlum ljósmyndum má sjá, að hús Sigurðar, þ.e. austurhlutinn, hefur verið einlyft með háu risi. Byggingarárið 1876 gerir húsið það annað elsta, sem enn stendur á Oddeyrarsvæðinu. Það má jafnvel velta því upp, að þar sem ekki er rætt sérstaklega um byggingu hússins sem slíka í bókunum Bygginganefndar, að húsið gæti verið flutt annars staðar að. (Árið áður, 1875, var t.d. flutt hús úr Fjörunni á lóðina sunnan við). Þá væri húsið eldra, og það sem meira er, gæti jafnvel verið eldra en Gránufélagshúsin (1873). Það myndi gera húsið það elsta á Oddeyri! En þetta eru auðvitað getgátur. Ekki liggur fyrir hvort þetta hús hefur verið tvílyft í upphafi, en árið 1894 fékk Jón leyfi til að byggja ris á húsið (skúr). Mun það hafa verið tvílyft með flötu eða aflíðandi þaki fram að því. Árið 1895 var húsið þannig komið með það lag sem það enn hefur, en það sést á einni af elstu ljósmyndum, sem til eru af Oddeyri. Á FB-hópnum Gamlar ljósmyndir hafa einnig birst eldri ljósmyndir, þar sem sést, að flatt þak hefur verið á húsinu. (ATH: tengillinn hér að framan vísar á Facebook-síðu og ekki víst, að hann sé öllum opinn) Austurhlutinn, nr. 27a var rifin á fyrri hluta 20. aldar.

Strandgata 27 er tvílyft timburhús með háu risi, tveimur smáum kvistum á framhlið og einum slíkum á bakhlið. Inngönguskúr eða stigabygging er á bakhlið. Á þeirri byggingu er steinblikk, sem og á framhlið en á vesturstafni er lóðrétt timburklæðning; listasúð. Sú hlið hefur verið endurnýjuð og eru þar nýlegir sexrúðupóstar. Slíkir póstar eru einnig á austurstafni en sá hefur ekki verið klæddur og blasir þar við tjörupappi. Víða hefur hann rofnað og innra byrði opið fyrir veðri og vindum. Á óendurnýjuðum hliðum hússins eru þverpóstar en á neðri hæð stór póstlaus gluggi. Grunnflötur hússins mun nærri 6x8m en bakbygging er um 2x4m.

Í Manntali 1880 er Jón Halldórsson skráður til heimilis á Oddeyri, en Hans Ágúst Guðjónsson skráður í svokallaða Stóru Strandgötu. Einhverra hluta vegna finnst enginn Hans Guðjónsson í Manntali 1890 en þá er þrennt búsett í „Húsi Jóns Halldórssonar“; Jón Halldórsson, kona hans Margrét Sigurðardóttir og fósturdóttir þeirra, Margrét Jóhanna Eðvaldsdóttir. Jón er þá sagður hafnsögumaður og stunda fiskveiðar. Jón Halldórsson, sem fæddur var og uppalinn á Kjarna í Arnarneshreppi var síðustu ár ævi sinnar bóndi á Rangárvöllum í Kræklingahlíð, þar sem nú eru m.a. Norðurorka og framkvæmdamiðstöð Akureyrarbæjar. Það er hins vegar af Hans Guðjónssyni að segja, að hann er skráður í Manntali 1901 til heimilis að Aðalstræti 11, húsi sem líkast til eyddist í bæjarbrunanum undir lok sama árs. Hans lést árið 1910.

Hvenær Jón Halldórsson og Margrét Sigurðardóttir fluttu úr húsi sínu við Strandgötu er ekki alveg ljóst, líklega var það einhvern tíma á bilinu 1894-99. Samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar bjuggu þau að Rangárvöllum frá 1901 til 1907, er Jón lést. Árið 1894 fékk Jón Halldórsson leyfi til þess að byggja rishæð hússins en vorið 1900 er Jón Jónsson Borgfjörð söðlasmiður, orðinn eigandi hússins. Þá fékk hann leyfi til þess að byggja á baklóð sinni pakkhús, sem síðar var breytt í íbúðarhús og er nú Norðurgata 1. Á þessum tíma taldist húsið nr. 17 við Strandgötu.

Í árslok 1916 var húsið metið til brunabóta og lýst svo: „Íbúðarhús tvílyft með háu risi á lágum steingrunni. Á gólfi [neðri hæð] við framhlið eru 2 stofur og forstofa; bakhlið 1 stofa og eldhús. Á lofti við framhlið 2 stofur við bakhlið 1 stofa, eldhús og gangur. Á efra lofti 2 herbergi og geymsla“ (Brunabótafjelagið 1916, nr. 162). Húsið sagt timburklætt og þakið pappaklætt, 8,2x5,7m að grunnfleti og 7,5m á hæð og á því 20 gluggar og tveir skorsteinar. Þá kemur fram, að húsið sé áfast öðru húsi, nr. 27a. Því er lýst sem einlyftu timburhúsi með háu portbyggðu risi, 7,5x5,6m að grunnfleti og eigandi þess hluta Magnús Oddsson. Á þessum tíma eru eigendur hússins tveir, Sigurður B. Jónsson og Steingrímur Jónsson. Í manntali sama ár eru ellefu manns skráðir þar til heimilis í fimm rýmum.

Árið 1929 eignaðist Friðgeir H. Berg, smiður og rithöfundur, húsið. Hann fékk árið 1933 leyfi til breytinga á húsinu, glugga og dyraskipan á framhlið auk þess að setja á húsið þakglugga. Með breytingum á glugga- og dyraskipan er væntanlega átt við „búðargluggann” á framhlið og dyrnar við hliðina á honum en Friðgeir starfrækti verkstæði og verslun tengda því á jarðhæð hússins; fékkst m.a. við innrömmun. Um svipað leyti, kannski á sama tíma, hefur Strandgata 27a líkast til verið rifin en það hús kemur síðast fyrir í manntali árið 1932. Þá er KEA eigandi þess. Friðgeir og kona hans, Valgerður Guttormsdóttir, bjuggu hér til æviloka, hann lést 1956 og hún 1975. Sonur þeirra, Guttormur Berg (1918-1990) bjó hér áfram eftir þeirra dag. Hann var athafna- og verslunarmaður, auk þess sem hann var um árabil fréttaritari hjá Ríkisútvarpinu; „Margar fréttir, sem útvarpshlustendum bárust af norðlenskum málefnum, voru skrifaðar á gömlu svörtu ritvélina undir vesturglugganum í Strandgötu 27“ (Dagur 106. tbl. 1990: 13). Eftir daga Berg-fjölskyldunnar hafa margir átt og búið í húsinu um lengri og skemmri tíma, síðustu íbúar hússins voru farandverkamenn, er hér dvöldust jafnan um skamma hríð.

Árið 2014 hófust endurbætur á Strandgötu 27 og lofuðu þær mjög góðu, svo sem sjá má á vesturstafni hússins og nýjum gluggum á nokkrum stöðum. Eins lofsvert og það framtak er, virðist snurða hafa hlaupið á þráðinn og þeim endurbótum hætt. Fyrir vikið hefur húsið staðið hálfkarað um nokkurra ára skeið og veðurhjúpur þess opinn. Virðist t.d. austurstafn hanga saman á tjörupappanum einum saman- og hann götóttur, m.a. eftir ofsaveður í september 2022. Það væri óskandi, að endurbótum hússins yrði lokið, í samræmi við endurnýjaðan vesturstafn. Hugsanlega hafa veður og vindur leikið húsið svo illa, að viðgerð sé ekki möguleg. Sé svo, hlyti að vera æskilegt, að húsið yrði endurbyggt í upprunalegt horf, á sama hátt og t.d. Gamla Apótekið, Laxdalshús og Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði, svo dæmi séu nefnd um hús, sem margir hugðu að væru svo gjörónýt, að endurbætur væru með öllu óraunhæfar. Greinarhöfundur hefur hvorki forsendur né kunnáttu til þess að meta þessa hluti, en gefur sér, að einhverjir viðir hljóti að leynast í húsinu, sem nýtanlegir yrðu í endurbyggingu. Að ekki sé minnst á þá staðreynd, að á að giska 15 % hússins er nýlegur og stráheill (vesturstafn). Húsið gæti þannig orðið sannkölluð perla í götumynd Strandgötu, sem er sérlegt kennileiti Oddeyrar og á einum fjölförnustu slóðum bæjarins.

Það er kannski rétt að nefna það hér í lokin, að fyrir liggur tillaga um niðurrif hússins og byggingu húss eftir nýjum teikningum í staðinn. Að sjálfsögðu hefur greinarhöfundur skilning á því, að það sé einfaldara og hagkvæmara að reisa nýtt hús heldur en að endurbyggja 150 ára gamalt hús og aðlaga að kröfum nútímans. Sú tillaga sem liggur fyrir að nýju húsi á lóðinni er raunar mjög vel unnin og góðra gjalda verð og kæmi til með falla þokkalega að núverandi byggð, tvær hæðir, ris og kvistur. En það yrði að sjálfsögðu allt annað hús með allt annað yfirbragð. Þegar þetta er ritað, er beðið umsagnar Minjastofnunar. En lesendur geta svo sem getið sér þess til, hvaða álit greinarhöfundur myndi gefa ef leitað yrði til hans vegna niðurrifs á „Húsi Jóns Halldórssonar“, öðru elsta húsi Oddeyrar og hinu forna viðmiði við lagningu Norðurgötu...

Myndirnar eru teknar 8. desember 2021 og 14. nóvember 2022 en sú neðsta í janúar 2005 sem sýnir húsið eins og það var áður en endurbætur hófust.

Heimildir:

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 49, 25. apríl 1876. Fundur nr. 51, 24. mars 1877. Fundur nr. 65, 18. júní 1885. Fundur nr. 106, 19. Júlí 1894. Fundur nr. 185, 27. apríl 1900. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 49, 27. júlí 1933. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.