Fara í efni
Hús dagsins

Frábær Þórssigur í æsilegum grannaslag

Amandine Toi með boltann í kvöld. Hún var stigahæst í Þórsliðinu með 25 stig. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór vann Tindastól í frábærum leik í fimmtu umferð efstu deildar kvenna í körfuknattleik, Bónusdeildinni, í kvöld, 102-95. Leikurinn var hin besta skemmtun og spennandi frá upphafi til enda þó svo Þórsliðið hafi haldið forystunni allan leikinn. Yfir 200 stuðningsmenn skemmtu sér konunglega og stemningin frábær í Höllinni.

Þórsliðið byrjaði á að raða niður þristum, en gestunum tókst fljótlega að jafna í 9-9. Þá kom góður kafli hjá Þórsliðinu og forysta sem liðið lét aldrei af hendi út leikinn. Vel studdar af áhorfendum héldu Þórsstelpurnar ávallt haus þegar gestirnir náðu að draga á þær og hleyptu þeim ekki of nálægt. Munurinn varð minnstur fjögur stig um miðjan þriðja leikhluta, en þá kom góður kafli hjá Þórsliðinu og forystan aukin á ný. Tindastólsliðið neitaði þó að játa sig sigrað fyrr en í fulla hnefana og reyndu Stólastelpur hvað þær gátu til að brúa bilið og mátti stundum ekki miklu muna, en þá komu alltaf einhver tromp út úr erminni á Þórsstelpunum og þjálfurunum og sjö stiga sigur þegar upp var staðið. 

Maddie Sutten í baráttu undir körfunni í kvöld. Hún er engri lík; var með flotta þrennu, gerði 14 stig, átti 10 stoðsendingar og tók 23 fráköst!

Heimastelpurnar mikilvægar

Sanngjarn sigur í skemmtilegum og miklum baráttuleik þar sem ekkert var gefið eftir. Eins og oft áður var Amandine Toi stigahæst í Þórsliðinu, skoraði 25 stig, en Maddie Sutton er engri lík og tók 23 fráköst, auk þess að skora 14 stig og eiga tíu stoðsendingar. Frábær frammistaða og flott þrenna hjá Maddie, 37 framlagsstig og langhæst í Þórsliðinu í þeirri tölfræði. 

Það var líka ánægjulegt fyrir Þórsliðið að íslensku leikmennirnir skoruðu 34 stig (Eva 16, Emma 15, Hrefna 3) á meðan næstum öll stig Tindastóls komu frá erlendu leikmönnunum fimm. Emma Karólína kom fersk inn af bekknum og skoraði grimmt á köflum og nýi leikmaðurinn, Natalia Lalic, bætti við breiddina í liðinu, en á klárlega eftir að komast betur í takt við liðið og liðsfélagana.

Daníel Andri Halldórsson þjálfari Þórs, Heiða Hlín Björnsdóttir aðstoðarþjálfari og Hrefna Ottósdóttir.

Þórsliðið þokaðist ofar í töflunni með sigrinum í kvöld, er komið með tvo sigra í fimm leikjum, eins og Valur, Tindastóll og Stjarnan, en þessi lið eru í 6.-9. sæti deildarinnar.

  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Hrefna Ottósdóttir og Maddie Sutton.
  • Gangur leiksins: Þór - Tindastóll (32-24) (20-22) 52-46 (27-22) (23-27) 102-95 
  • Staðan í deildinni (kki.is)

Tölfræði leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Amandine Toi 25 - 1 - 5
  • Esther Fokke 19 - 3 - 0
  • Eva Wium Elíasdóttir 16 - 2 - 3
  • Maddie Sutton 14 - 23 - 10 - 37 framlagspunktar 
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 15 - 2 - 2
  • Hrefna Ottósdóttir 3 - 2 - 4
  • Natalia Lalic 10 - 3 - 0

Helstu tölfræðiþætti liðanna má sjá á myndinni hér að neðan, en ítarlega tölfræði með því að smella á myndina.