Fara í efni
Hús dagsins

Bið á að stígurinn við Leiruveg klárist að fullu

Rennisléttur og nýmalbikaður. Búið er að leggja nýjan hjóla- og göngustíg frá Akureyri og að brúnni yfir Eyjafjarðará. Verið er að vinna í lýsingu við stíginni og öðrum frágangi.

Malbikaður göngu- og hjólastígur hefur nú verið lagður meðfram Leiruveginum frá Akureyri og að brúnni yfir Eyjafjarðará. Bið virðist hins vegar verða á framhaldinu.

Göngu- og hjólastígurinn er samvinnuverkefni Svalbarðsstrandarhrepps, Akureyrarbæjar og Eyjafjarðarsveitar. Akureyrarbær er að ljúka sínum hluta sem liggur að brúnni yfir Eyjafjarðará. Hinu megin við brúna mun Eyjafjarðarsveit halda stígagerðinni áfram að Skógarböðunum en Svalbarðsstrandarhreppur hefur nú þegar lagt sinn stíg frá Skógarböðunum að hringtorginu við Vaðlaheiðargöng.

Núverandi göngu- og hjólaleið yfir brúna á Leiruvegi er of mjó og því hefur Vegagerðin verið að skoða lausnir. Þá mun Vegagerðin einnig setja upp hringtorg við Eyjafjarðarbraut. Bið verður eftir hvorutveggja sem veldur því göngu- og hjólastígurinn fullklárast ekki strax.  

Brúin breikkuð til norðurs

Það er hins vegar Vegagerðin sem á brúna yfir Eyjafjarðará og allar breytingar á henni eru því á könnu Vegagerðarinnar. Núverandi göngu- og hjólaleið yfir brúna er of mjó miðað við nútíma staðla og kantsteinn sem afmarkar hana auk þess ónýtur. Því höfum við verið að skoða hvaða möguleika við höfum til að breikka hana án þess að mjókka akbraut of mikið og/eða hafa neikvæð áhrif á burðarvirki brúarinnar, segir Rúna Ásmundsdóttir, deildarstjóri tæknideildar hjá Vegagerðinni á Norðursvæði. Burðarþol brúarinnar býður ekki upp á steypta útkrögun til að breikka hana en það eru til aðrar lausnir, eins og t.d. léttari plasteiningar sem hægt er að nota til breikkunar. Það er ekki búið að hanna þessa lausn en við sjáum fyrir okkur að með þessu móti verði hægt að breikka brúna til norðurs þannig að hægt verði að koma fyrir góðri göngu- og hjólaleið sem verður varin fyrir umferð með vegriði. Að sögn Rúnu hafa framkvæmdir við breikkun brúarinnar ekki verið fjármagnaðar og því ekki hægt að segja til um tímarammann á verkefninu að svo stöddu.

Burðarþol brúarinnar býður ekki upp á steypta útkrögun til að breikka hana en það eru til aðrar lausnir, eins og t.d. léttari plasteiningar sem hægt er að nota til breikkunar. Það er ekki búið að hanna þessa lausn en við sjáum fyrir okkur að með þessu móti verði hægt að breikka brúna til norðurs þannig að hægt verði að koma fyrir góðri göngu- og hjólaleið sem verður varin fyrir umferð með vegriði.

Hringtorg við Eyjafjarðarbraut

Eins og áður segir er það Eyjafjarðarsveit sem á að sjá um áframhaldandi stígagerð hinu megin við brúna. Að sögn sveitastjóra Eyjafjarðarsveitar, Finns Yngva Kristinssonar, hefur stígurinn verið á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins undanfarin tvö ár en sveitarfélagið hefur verið að bíða eftir lausnum frá Vegagerðinni varðandi það hvernig vegurinn verður þveraður. Við ætluðum að vera komin miklu lengra með okkar hluta en höfum verið að bíða eftir ákvörðun Vegagerðarinnar á lausn á þverun vegarins. Nýlega var tekin ákvörðun um að það yrði sett upp hringtorg á gatnamótum Eyjafjarðarbrautar og komast þá hjólandi og gangandi vegfarendur yfir veginn á gangbrautum. Við hefðum helst viljað fá hringtorgið áður en við hefjumst handa við stíginn, segir Finnur sem reiknar þó með því að þó með því að sveitarfélagið fari í sína stígagerð á næsta ári.

Að sögn Rúnu hjá Vegagerðinni er hringtorgið í hönnun en hönnunin er ekki það langt komin að búið sé að negla niður alla hönnunarþætti og meta kostnað. Við gerum ráð fyrir því að göngu- og hjólaleiðin muni halda áfram norðan megin við veg frá brúnni og að fyrirhuguðu hringtorgi þar sem hún myndi þvera í plani austan við hringtorgið. Í drögum að nýrri samgönguáætlun 2024-2038 er gert ráð fyrir 300 milljóna króna fjárveitingu á ári í stærri öryggisaðgerðir utan höfuðborgarsvæðisins. Framkvæmd við þetta hringtorg er á þeirri áætlun en gert er ráð fyrir að hægt verði að fara í hana 2027-2028, segir Rúna.

Slysahætta við veginn

Það er því ljóst að bið verður á því í ein þrjú til fjögur ár að hjólaleiðin verði samfelld. Finnur segist hafa áhyggjur af ástandinu því eins og aðstæður eru núna er stórhættulegt að þvera Leiruveginn til að komast yfir í Skógarböðin. Þá hafi umferð hopphjóla aukist mjög frá Akureyri og að Skógarböðunum sem sé ekki gott því mikil og hröð bílaumferð sé á þessum kafla. Ég verð ekki rólegur fyrr en þessar framkvæmdir klárast að fullu, segir Finnur .

Eftir að Skógarböðin komu hefur umferð gangandi og hjólandi vegfarenda aukist við Leiruveg en þeir þurfa að þvera veginn til þess að komast í böðin. Sveitastjóri Eyjafjarðarsveitar segist ekki verða í rónni fyrr en framkvæmdir klárist að fullu. Mynd: SNÆ

Framkvæmdir við göngu - og hjólastíginn hafa staðið yfir um tíma.  Þessi mynd er tekin 19. júní 2023. Mynd: Haraldur Ingólfsson