Vilja að Hrísey verði „hæglætisbær“
Stefnt er að því að Hrísey fái aðild að Cittaslow hreyfingunni, verði hæglætisbær, eins og það hefur verið nefnt. Hugmyndin kom fram fyrir nokkrum árum og eftir miklar vangaveltur er nú í augsýn að sótt verði formlega um.
Ingólfur Sigfússon, formaður hverfisráðs Hríseyjar, segir töluverða vinnu framundan því fara þurfi yfir alla mögulega þætti. „Skoða þarf hvar Hrísey stendur varðandi skilyrði til þátttöku í samtökunum, hvað vantar upp á og hvaða leiðir eru færar til að uppfylla þau skilyrði svo aðild sé möguleg. Vinna þarf með Akureyrarbæ, fyrirtækjum í eyjunni og íbúum til að fá sem flesta að borðinu,“ segir hann við Akureyri.net.
Sérstaða, vitund, sjálfbærni
Þessi alþjóðlegu samtök, Cittaslow, voru stofnuð á Ítalíu árið 1999. Segja má að í stórum dráttum sé markmið hreyfingarinnar að auka lífsgæði og ánægju fólks – og leiðin að því markmiði er veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám, en heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni. Eitt íslenskt sveitarfélag, Djúpivogur, er aðili að samtökunum og þar með formlega hæglætisbær.
Vorið 2019 stóð verkefnið Brothættar byggðir fyrir kynningarfundi í Hrísey, þar sem fulltrúar Djúpavogs, Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri og Gréta Mjöll Samúelsdóttir, atvinnu- og menningarmálafulltrúi, kynntu Cittaslow-hreyfinguna og hvað aðild að henni hefði gert fyrir Djúpavogshrepp. Fundarmönnum leist bersýnlega vel á: að fundi loknum var fólk beðið um að láta skoðun sína á framhaldinu í ljós með því að setja tannstöngul í glas. Tvö voru á borðinu, annað merkt já en hitt nei. Úrslit „kosningarinnar“ voru afgerandi því enginn setti tannstöngul í nei-glasið, allir í hitt.
Styrkir samfélagið
Ingólfur segir íbúa eðlilega hafa velt fyrir sér, eftir að umræddu verkefni lauk, hver næstu skref yrðu, „hvernig megi vinna að áframhaldandi uppbyggingu, skapa atvinnutækifæri og fjölga íbúum. Við teljum aðild að Cittaslow samtökunum muni styrkja samfélagið í Hrísey, styrkja stöðu eyjarinnar gagnvart Akureyrarbæ, gera íbúa meðvitaðri um sína eigin stöðu og áherslumál samfélagsins í eyjunni. Með þátttöku í Cittaslow teljum við að íbúar muni fá tækifæri til að vinna að sínum hagsmunamálum og að hægt verði að styrkja eyjuna enn frekar sem ákjósanlegan stað fyrir íbúa og fyrirtæki,“ segir Ingólfur.
„Eins og fram kemur á vef Djúpavogs leggja stefnumið Cittaslow áherslu á verndun náttúru og menningarminja, fegrun umhverfis, umhverfisgæði, notkun á nýjustu tækni í þágu samfélagsins, eflingu staðbundinnar matarmenningar og framleiðslu, öryggi og aðgengi, sem og gestrisni, kurteisi og vinsamlegt viðmót. Við teljum alla þessa þætti falla vel að Hrísey og verður spennandi að sjá hvert þetta verkefni leiðir okkur,“ segir hann.
CITTASLOW
Tilurð hreyfingarinnar er prýðilega útskýrð á vef Djúpavogs:
- „Undir lok síðustu aldar, sammæltust fjórir bæjarstjórar á Ítalíu um að nóg væri komið af hnattvæðingu og hraðaáráttu nútímans. Þeirra tilburða að vilja steypa ólíka menningarheima umhugsunarlaust í sama mót og skeyta lítið um áhrif þess á samfélög og umhverfi. Töldu þeir nauðsynlegt að sett væri fram stefna sem legði áherslu á hið gagnstæða; þar sem virðing fyrir fólki, staðbundinni menningu og umhverfi væri í heiðri höfð. Með þessa sýn og hugmyndafræði SlowFood-samtakanna að leiðarljósi varð Cittaslow-hreyfingunni hleypt af stokkunum árið 1999.“
Þegar Djúpivogur gerðist hluti af Cittaslow hreyfingunni 2013 höfðu 176 bæir og sveitarfélg í 27 löndum víðsvegar um heiminn gerst aðilar. Nú eru löndin orðin 30 og sveitarfélögin 272.
- Cittaslow-hreyfingin er afsprengi Hæglætishreyfingarinnar sem rekja má allt aftur til ársins 1986, þegar blaðamaðurinn Carlo Petrini mótmælti opnun veitingastaðar McDonald's skyndibitakeðjunnar á hinu fræga Piazza di Spagna-torgi í Róm, þeim fyrsta á gjörvallri Ítalíu. „Síðan þá hefur Hæglætishreyfingin með SlowFood-samtökin í fylkingarbrjósti unnið að því að upphefja manneskjuleg gildi og staðbundna menningu með virðingu og vitund fyrir umhverfi og uppruna í öndvegi,“ segir á vef Djúpavogs.