Slippferð ferjunnar áætluð á afleitum tíma
Íbúafundur í Grímsey kallar eftir aðstoð bæjaryfirvalda við að fá áformaðri tímasetningu á slippferð Grímseyjarferjunnar á komandi vori.
Stefnt er að því að ferjan fari í slipp í apríl 2025, að því er fram kemur í fundargerð hverfisráðs frá íbúafundi í byrjun október. Bent er á að það sé afleit tímasetning, bæði hvað varðar sjávarútveg og sérstaklega slæmt fyrir ferðaþjónustu í eynni. „Óskað er eftir aðstoð við að tímasetningunni verði breytt og að ferjan fari frekar í slipp í desember eða janúar í framtíðinni,“ segir í fundargerðinni. Þá er einnig bent á að ferðamönnum sem heimsækja eyjuna utan við sumartíman hafi fjölgað töluvert og því óskað eftir því að ferjan stoppi lengur í eynni ef ferðamenn eru um borð, þ.e. til kl. 15, þar sem tveir tímar séu ekki nægur tími því ferjan komi oft ekki fyrr en um 12:30 vegna veðurs og/eða sjólags.