Fara í efni
Hrísey

Líst vel á hugmynd um hæglætisbæ

Ljósmynd: Gestur Leo Gíslasson.

Oddvitar flokkanna í bæjarstjórn Akureyrar eru býsna hrifnir af hugmynd Hríseyinga um að verða hluti alþjóðlegu Cittaslow samtakanna, og teljast þar með formlega hæglætisbær. Akureyri.net greindi frá vinnu Hríseyinga í þessa veru á dögunum, og lék forvitni á að vita hug bæjarfulltrúa til málsins – og hvort þeir gætu jafnvel hugsað sér að Akureyri öll tæki þetta skref, eins og hverfið Hrísey. Allir eru hrifnir af hugmynd Hríseyinga en skoðanir eru skiptar varðandi bæjarfélagið í heild.

„Áfram Hrísey!“

Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG, er mjög fylgjandi því að Hríseyingar taki skrefið og vill ganga lengra í framhaldinu. „Mér líst mjög vel á þessa hugmynd og finnst alveg frábært hjá Hríseyingum að skoða þetta. Mér líst vel á að íbúar í Hrísey byrji og restin af íbúum Akureyrar getur svo fylgt í kjölfarið. Það er ágætis leið að mínu mati, og ákveðin hæglætisstefna í því fólgin, að vinna svona hluti skref fyrir skref. Það er mikilvægt að íbúar séu nokkuð sammála um að fara svona leið og því þarf að undirbúa þetta með góðri og ígrundaðri umræðu sem getur einmitt byggt á reynslu Hríseyinga. Áfram Hrísey!“ segir Sóley Björk við Akureyri.net.

Hrísey í raun hæglætisbær

Hlynur Jóhannsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins er ánægður með stöðu mála. „Í þau skipti sem ég kem útí Hrísey finnst mér hún alltaf vera hæglætisbær og veit ekki hvort þurfi að breyta miklu þar, svo hún geti talist hæglætisbær. En hvort hún þurfi að vera hluti af þessum samtökum er nú örugglega bara persónubundið hvað hverjum og einum finnst um það,“ segir Hlynur. Spurður hvort hann gæti hugsað sér að Akureyrarbær allur yrði hæglætisbær svaraði Hlynur: „Mér finnst Akureyri góður bær eins og hann er.“

Fagna umræðunni

„Ég hef alltaf verið hrifin af hugmyndafræðinni um Cittaslow og fagna því mjög að Hríseyingar séu að ræða hana af fullri alvöru. Ég tel að slík hugmyndafræði verði aðeins að veruleika með vilja íbúa, ekki boðvaldi stjórnvalda,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar. „Stóra spurningin er því hvort að Akureyringar hafi almennt áhuga hugmyndafræðinni og ef svo er hvernig við innleiðum hana í stjórnkerfi og þjónustu sveitarfélagsins. Á tímum lífsgæðakapphlaups, hraða, samkeppni og kulnunar er rík ástæða til þess að ræða í hverju raunveruleg lífsgæði felast og hvernig við getum sem best notið lífsins í sátt við náttúru og samfélag,“ segir Hilda Jana.

Hrifin af hugmyndafræðinni

„Ég er mjög hrifin af þeirri hugmyndafræði sem samtök Cittaslow leggja áherslu á og má að mörgu leyti segja að samfélagið hér í Akureyrarbæ falli vel að þeim. Undirbúningur er hafinn í Hrísey um umsókn að samtökunum, sem ég tel að gæti styrkt stöðu Hríseyjar til muna og að mínu mati þurfum við að setja kraft í þá vinnu og sjá síðan hvert það leiðir okkur,“ segir Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-listans

Eyjan kjörið í verkefnið

„Hugmyndin að Hrísey verði hæglætiseyja hugnast mér ágætlega og greinilegur vilji eyjaskeggja að fara í þá vegferð. Þetta hefur verið í umræðunni um nokkurn tíma og eyjan að mörgu leyti kjörin í slíkt verkefni. Það er hins vegar að mörgu að hyggja á þeirri vegferð og afar mikilvægt að frumkvæðið sé hjá íbúum eyjarinnar,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins.

„Sú hugmynd hins vegar, sem skotið hefur upp kollinum öðru hvoru, um að Akureyri verði hæglætisbær er að mínu mati ekki raunhæf og mörg brýnni verkefni á borði okkar um vöxt og þróun bæjarins. Ég sé því enga sérstaka ástæðu til að taka upp alvöru umræðu um Akureyri sem hæglætisbæ,“ segir Guðmundur Baldvin.

Skotinn í hugmyndinni

„Ég man vel eftir umræðu frá því fyrir 15 árum og ef ég man rétt var Hólmkell Hreinsson að einhverju leyti upphafsmaður þeirrar umræðu. Ég kynnti mér þessa hugmyndafræði þá að nokkru marki og fannst mér hún allrar athygli verð,“ segir Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins. „Ég sat í verkefnastjórn byggðaþróunarverkefnisins Hrísey, perla Eyjafjarðar. Í því verkefni var leitað eftir hugmyndum íbúanna sjálfra um leiðir til að efla byggð í Hrísey. Þegar hugmyndin um að gera samfélagið að hæglætis samfélagi kom fram, líkt og Djúpivogur var að innleiða, fannst mér einboðið að fara þá leið og skapa eyjasamfélginu ákveðna sérstöðu sem samfélag. Þá rifjaði ég upp umræðuna um að gera Akureyrarbæ að hæglætis samfélagi. Ég er enn mjög skotinn í þeirri hugmynd og væri til í að leggja hönd á plóg við að skoða ítarlega hvort og þá hvernig það væri framkvæmanlegt. Við þurfum á því að halda að skapa mótvægi við þann hraða sem einkennir alla samfélagsþróun okkar tíma,“ segir Gunnar Gíslason.