Nyrsta eyjaviskíið og gin úr hvönn og njóla
Björn Grétar Baldursson, flugumferðarstjóri á Akureyri, stefnir að því að framleiða viskí og gin í Hrísey áður en langt um líður. Hann fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra nýverið og undirbúningur er á fullu. Björn leggur þó áherslu á að verkefnið sé á byrjunarstigi, en vonast til þess að geta boðið upp á fyrsta sopann eftir tvö til þrjú ár.
Hrísey – eimingarhús verður hefbundið, en sérstaðan sú að framleiðslan verður á eyju. „Í viskíheiminum eru eyjaviskí frá vesturströnd Skotlands mjög þekkt og ég sá tækifæri fyrir þessari uppbyggingu í Hrísey; eyjan er fullkominn staður fyrir framleiðslu, þar er hitavatnsuppspretta og kalt vatn, og rafmagn flutt úr landi. Með tilliti til markaðssetningar er eyjan ekki síðri, því þetta verður nyrsta viskíframleiðsla á eyju í heiminum. Nú er nyrsta eimingarhúsið á Orkneyjum, Færeyingar eru langt komnir í undirbúningi og verða nyrstir um tíma áður en ég byrja,“ segir hann í samtali við Akureyri.net.
Ekkert eimingarhús er nú á Norðurlandi en nokkur annars staðar á landinu.
Tvisvar komið út í Hrísey!
Björn Grétar hefur engin tengsl við Hrísey. „Ég er frá Laugum í Reykjadal en hugmyndin kviknaði síðasta sumar þegar ég fór út í Hrísey í annað skipti á ævinni! Fór þá í skemmtiferð með strákinn minn og þá voru 15 eða 16 ár síðan ég fór fyrst. Ég hef grínast með þessa hugmynd í svolítinn tíma, hugsaði mér fyrst að fara út í þetta á Laugum en fannst vanta einhverja sérstöðu þar. Hana fann ég í Hrísey.“
Jurtir sem vaxa í Hrísey verða notaðar í framleiðsluna. „Hvönn verður klárlega notuð í ginið, hún er þegar þurrkuð og nýtt í eynni og ég fer örugglega í samstarf við fyrirtækið sem gerir það. Svo langar mig til að gera tilraunir með njóla eða kerfil, og blóðberg, sem er algengt í gin, vex líka í eynni. Það verður gaman að nýta þessar villtu jurtir.“
Hef séð þetta gert...
Björn Grétar er nýgræðingur á þessu sviði. „Ég er að læra! Við stofnuðum Maltviskífélag Norðurlands árið 2018 nokkrir vinir, eftir að við komumst ekki á viðburð fyrir sunnan. Ég, Elvar Freyr Pálsson, Bjarni Helgason og Daníel Starrason ákváðum að stofna félagið, hringdum í Snorra Guðvarðsson og spurðum hvort hann vildi vera með og Snorri var fljótur að segja já! Við fórum svo saman til Dublin 2019 og heimsóttum mörg eimingarhús; það er það næsta sem ég hef komist framleiðsu – að sjá hvernig þetta er gert! Þegar ég fer af stað mun ég því leita eftir sérfræðiaðstoð, eins og bruggsmiðjan Kaldi gerði á sínum tíma.“
Hann kveðst staddur á byrjunarreit eins og áður segir. Unnið sé að gerð viðskiptaáætlunar og ýmsum öðrum undirbúningi. „Menn úti í heimi hafa ráðlagt mér að gefa mér góðan tíma í undirbúning og hafa allt klárt þegar ég byrja, fjármögnun, markaðsmál og fleira. Ferlið sé langt en mikilvægast sé að gera allt vel.“
Mikil uppörvun
„Ég get vonandi boðið upp á fyrsta sopann eftir tvö til þrjú ár,“ segir Björn Grétar aðspurður. „Þetta ár mun einkennast af því að sækja um styrki og styrkurinn [frá Uppbyggingasjóði Norðurlands eystra] er mikil uppörvun, ákveðin viðurkenning á því að fólk sem hefur kynnt sér verkefnið telur að eitthvað sé varið í það sem ég er að gera og telur vert að leggja því lið.“
Björn Grétar tekur fram að þótt hann sé einn í pappírsvinnunni muni Guðrún Þorbjarnardóttir, sem búsett er í Hrísey, verða með honum þegar líða fer á uppbygginguna. „Hún verður minn helsti tengiliður í Hrísey og verður síðan að öllum líkindum samstarfsaðili í verkefninu.“