Fara í efni
Hrísey

Mjög ósáttir við boðaða fækkun ferða

Hríseyjarferjan Sævar. Ljósmynd: Unnur Sæmundsdóttir

Hríseyingar eru afar ósáttir við að í útboði fyrir rekstur Hríseyjarferjunnar frá 2023 til 2025 sé boðuð fækkun ferða og að ferjuáætlun sé ekki skilgreind í útboðsgögnum heldur skuli hún unnin af rekstraraðila og samþykkt af Vegagerðinni. Einnig að ekki komi fram í útboðsgögnum að ferjan sé sjúkrabíll íbúa eyjarinnar og því þurfi áhöfnin að vera á bakvakt vegna sjúkraflutninga allan sólarhringinn. Hríseyingar hafa nú leitað til þingmanna kjördæmisins vegna málsins.

Hverfisráð lýsti áhyggjum sínum vegna útboðsins á fundi 1. nóvember, bæjarráð Akureyrar tók undir þær tveimur dögum síðar og fór fram á að „ferjuáætlun muni standa óbreytt með möguleika á upphringiferðum líkt og verið hefur og að réttur Vegagerðarinnar til að fækka ferðum um allt að 20% á samningstíma verði tekinn úr útboðinu.“

Bæjarstjóra var falið að fylgja málinu eftir en „fundur bæjarstjóra með Vegagerðinni virðist hafa litlu skilað og leitum við því til þingmanna kjördæmisins til að beita sér fyrir því að fallið verði frá fyrirhuguðum niðurskurði á þjónustu Hríseyjarferjunnar sem við teljum vera þvert gegn fyrri velvilja ríkisins varðandi uppbyggingu í Hrísey,“ segir í erindi Hríseytinga til þingmanna.

Smellið hér til að sjá bréfið í heild.