Fara í efni
Hrísey

Meirihluti líklegur til að búa í lífsgæðakjarna

Greining vinnuhóps vegna uppbyggingar lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara á stöðu mála, þörf og möguleikum á byggingu lífsgæðakjarna byggði meðal annars á niðurstöðum könnunar sem Félag eldri borgara á Akureyri (EBAK) gerði meðal félagsmanna á stöðu mála og húsnæðisþörf þessa hóps á næstu þremur árum. Þar kemur meðal annars fram að um 55% þeirra sem svöruðu könnuninni telja frekar eða mjög líklegt að viðkomandi myndi vilja búa í lífsgæðakjarna.

Akureyri.net fjallaði í gær um greiningu vinnuhóps á möguleikum varðandi uppbyggingu lífsgæðakjarna fyrir eldri íbúa Akureyrar. Greiningin byggði að hluta á könnun EBAK sem gerð voru skil í greinargerð hópsins.

Hugmynd að útfærslu á byggingu lífsgæðakjarna við Þursaholt, teiknuð af Fanneyju Hauksdóttur hjá AVH arkitektum. Um er að ræða græna svæðið á ljósmyndinni.

Stækkandi hópur í samfélaginu

Hlutfall eldri borgara af íbúafjölda Akureyrar, eins og annars staðar, hækkar stöðugt. Vinnuhópurinn vísaði meðal annars í þessa þróun í vinnu sinni við greiningu á þörf fyrir uppbyggingu lífsgæðakjarna á Akureyri. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan hefur íbúum 60 ára og eldri fjölgað um nálægt því 50% frá 2010 til 2024, eða úr ríflega 3.000 í um 4.500.

Íbúar á Akureyri sem komnir eru á eftirlaunaaldur, 67 ára og eldri, eru 2.744 samkvæmt tölum frá ágústmánuði. Íbúar sem eru 60 ára og eldri eru 4.486. Yfir landið allt voru íbúar 67 ára og eldri 51.840 í ársbyrjun, sem er um 12% af landsmönnum og hefur fjölgað um 36% frá árinu 2015. Vinnuhópurinn vitnar hér í samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem birt var 12. júní. 

Svæðið vestan Kjarnagötu í Hagahverfi, það rauðmerkta, er annað tveggja í bænum þar sem bæjaryfirvöld vilja byggja upp svokallaðan lífsgæðakjarna – hitt svæðið er í Holtahverfinu nýja norðan Glerár, eins og fram kom í frétt Akureyri.net í gær. Mynd: Þorgeir Baldursson

Flest vilja eigið húsnæði áfram

Könnun EBAK meðal félagsfólks síns lauk í byrjun maí. Sendar voru spurningar á 1.922 netföng félagsmanna og svöruðu 673. Í könnuninni var spurt um hvaða íbúðarform fólk myndi helst velja ef það myndi hugsa sér að breyta íbúðarformi á næstunni. 

  • Tæplega 90% þeirra sem svöruðu búa núna í eigin húsnæði.
  • Tæplega fjórðungur svarenda taldi mjög eða frekar líklegt að viðkomandi muni skipta um húsnæði á næstu þremur árum.
  • Langflestir, eða 121, sögðust vilja minnka við sig, en búa áfram í eigin húsnæði.
  • Næstflestir, eða 44, sögðust myndu velja þjónustuíbúð fyrir 60 ára og eldri.

Spurning: Ef þú myndir hugsa þér að breyta íbúðaforminu þínu á næstunni, hvaða form myndir þú velja helst?


Myndirnar eru skjáskot úr skýrslu vinnuhópsins. 

Spurt var um óskastærð og þar bentu flestir svarenda á möguleika á bilinu 71-120 fermetrar.

Spurning: Ef þú værir að skipta um húsnæði í dag, hversu stórt í fermetrum talið, telur þú æskilegt að það væri?
Spurning: Ef þú værir að skipta um húsnæði í dag, hversu mörg svefnherbergi teldir þú æskilegt að hafa í húsnæðinu sem þú myndir flytja í?

  • Flestir, eða 279, sögðu 71-90 femetrar.
  • Næstflestir, eða 203, sögðu 91-120 fermetrar
  • Langflestir, eða 437, nefndu að hafa tvö svefnherbergi í húsnæðinu, ef viðkomandi væri að skipta um húsnæði í dag.

Spurning: Hversu líklegt eða ólíklegt er að þú myndir vilja búa í „lífsgæðakjarna“?

  • Tæp 55% svarenda töldu mjög líklegt eða frekar líklegt að viðkomandi myndi vilja búa í lífsgæðakjarna. Samtals sögðu 108 svarendur það frekar eða mjög ólíklegt, en 147 sögðu hvorki líklegt né ólíklegt.
  • Samanlagt söðu 515 af 673 svarendum mjög líklegt, frekar líklegt eða hvorki líklegt né ólíklegt að viðkomandi myndi vilja búa í lífsgæðakjarna, eða um þrír af hverjum fjórum svarendum.