Fara í efni
Hjólreiðar

SA vann Fjölni og fór aftur á toppinn

Dómarar og leikmenn skeggræða reglur og dóma eftir annað mark SA. Leikurinn var stopp í meira en fimm mínútur á meðan dómarar réðu ráðum sínum og ákváðu niðurstöðuna, sem var að markið stæði, en leikmaður SA fékk fimm mínútna refsingu. Skjáskot úr útsendingu SA TV.

SA Víkingar tylltu sér á topp Toppdeildar karla í íshokkí í kvöld með 3-1 sigri á liði Fjölnis. Þetta var síðasti leikur liðsins fyrir áramót, en þessi sömu lið mætast aftur á Akureyri 4. janúar. Íslandsmeistarar SR gætu hrifsað toppsætið til sín aftur fyrir jól því þeir mæta SFH 20. desember.

Unnar Hafberg Rúnarsson náði forystunni fyrir SA með eina marki fyrsta leikhlutans. Fjölnismenn jöfnuðu í öðrum leikhluta, en Atli Sveinsson og Marek Vybostok svöruðu með tveimur mörkum. Ekkert var skorað í þriðja leikhlutann og 3-1 sigur SA niðurstaðan.

SA

Mörk/stoðsendingar: Atli Sveinsson 1/1, Unnar Hafberg Rúnarsson 1/0, Marek Vybostok 1/0, Ólafur Baldvin Björgvinsson 0/1, Róbert Steingrímsson 0/1, Matthías Már Stefánsson 0/1, Uni Blöndal 0/1.
Varin skot: 20 (96,24%).
Refsimínútur: 17.

Fjölnir

Mörk/stoðsendingar: Viktor Mojzyszek 1/0, Freyr Waage 0/1.
Varin skot: 27 (90%).
Refsimínútur: 10.

Stoðsending með því að stöðva pökkinn

Eins og sjá má á þessari upptalningu fékk markvörður SA, Róbert Steingrímsson, skráða stoðsendingu. Ekki er langt síðan að hinn markvörðurinn, Tyler Szturm, átti glæsilega stoðsendingu á Gunnar Arason í leik.

Báðir markverðirnir komnir með stoðsendingu, en ólíkar þó. Stoðsending Róberts fólst í því að stöðva pökkinn aftan við eigið mark þar sem Atli Sveinsson kom og hóf sókn SA. Atli gerði sér reyndar lítið fyrir og skautaði með pökkinn upp allan völlinn og skoraði. Löng bið varð síðan eftir markið því Fjölnismenn voru afar ósáttir við dómgæsluna vegna brots Andra Más Mikaelssonar á sama tíma og Atli skautaði að markinu.

Hér má sjá stoðsendingu Róberts og mark Atla. Þarna má einnig sjá brot Andra Más þegar Atli skautar með pökkinn inn í sóknarsvæðið.

Eftir langa umhugsun og spjall varð niðurstaðan rúmum fimm mínútum síðar að markið stæði, en Andri Már fékk að dúsa í fimm mínútur í refsiboxinu. Sá sem þetta skrifar þekkir ekki reglurnar í íshokkí nema að mjög litlu leyti, en mögulega má álykta sem svo að eftir á hafi niðurstaðan verið svokallaður biðdómur, þó dómarinn hafi reyndar ekki rétt um hönd eins og gert er í tilfelli biðdóms, það er þegar dæmt er á brot án þess að stöðva leikinn. Refsingin kemur hins vegar næst þegar leikurinn stöðvast, til dæmis vegna marks eða þegar markvörður frystir pökkinn (heldur honum).

Markið stóð og heimamenn spiluðu einum færri í fimm mínútur. Fjölnismenn náðu ekki að nýta sér liðsmuninn.

Á toppnum um jólin?

Með sigrinum eru SA Víkingar komnir í efsta sæti Toppdeildarinnar með 21 stig úr tíu leikjum. SR er með 19 stig úr 12 leikjum, Fjölnir 16 stig og SFH tíu stig, bæði eftir 11 leiki. SR og SFH mætast 20. desember og þá kemur í ljós hvort SA Víkingar halda toppsætinu þar til á næsta ári.

Leiknum var streymt á YouTube-rás SA og hægt að horfa á upptökuna í spilaranum hér að neðan.