Fara í efni
Hjólreiðar

Hafdís og Nökkvi íþróttafólk ársins

Hafdís Sigurðardóttir og Nökkvi Þeyr Þórisson - íþróttafólk Akureyrar 2022. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Nökkvi Þeyr Þórisson knattspyrnumaður úr KA var kjörinn íþróttakarl Akureyrar 2022 og Hafdís Sigurðardóttir hjólreiðakona úr Hjólreiðafélagi Akureyrar íþróttakona Akureyrar 2022. Kjöri þeirra var lýst í hófi sem Íþróttabandalag Akureyrar og Akureyrarbær héldu í Hofi síðdegis.

Bæði stóðu sig framúrskarandi vel á nýliðnu ári og eru vel að nafnbótinni komin.

  • Nökkvi Þeyr sló rækilega í gegn með KA-liðinu í sumar, gerði hvorki meira né minna en 17 mörk í 20 leikjum í Bestu deildinni og fimm í bikarkeppninni. Hann varð markakóngur Íslandsmótsins þrátt fyrir að missa af síðustu sjö leikjunum eftir að hann hélt í atvinnumennsku; samdi við KV Beerschot í Belgíu í byrjun september.
  • Í haust var Nökkvi Þeyr kosinn besti leikmaður Íslandsmótsins í árlegu kjöri leikmanna deildarinnar og var valinn í lið ársins af sérfræðingum eins og nærri má geta. Nökkvi hefur farið afar vel af stað með liði sínu í Belgíu og með framgöngu sinni vann hann sér sæti í A landsliðinu og spilaði fyrsta landsleikinn í byrjun þessa árs. Nökkvi Þeyr var á dögunum valinn Íþróttakarl KA árið 2022.
  • Hafdís Sigurðardóttir er fremsta hjólreiðakona Íslands í dag. Hún hefur aldrei átt betra keppnistímabil en á nýliðnu ári; varð tvöfaldur Íslandsmeistari og bikarmeistari, bæði í götuhjólreiðum og tímatöku í A flokki.
  • Hafdís var valin til að keppa fyrir Íslands hönd á EM í Þýskalandi, bæði í götuhjólreiðum og tímatöku. Þar náði hún sérlega góðum árangri í tímatökunni og hjólaði síðan tæpa 90 km við mjög erfiðar aðstæður, í hraðri keppni götuhjólreiða. Hafdís er farin að reyna fyrir sér í öðrum greinum hjólreiða og árangurinn þar lofar góðu.
  • Hafdís varð í fjórða sæti á móti í Svíþjóð í júlí,  Postnord U6. Hún var í lok tímabilsins valin hjólreiðakona ársins hjá Hjólreiðasambandi Íslands og var vitaskuld hjólreiðakona Hjólreiðafélags Akureyrar 2022.

Baldvin Þór Magnússon hlaupari úr Ungmennafélagi Akureyrar og Aldís Kara Bergsdóttir listhlaupari úr Skautafélagi Akureyrar urðu í öðru sæti í kjörinu og í þriðja sæti urðu Óðinn Þór Ríkharðsson handboltamaður úr KA og Rut Jónsdóttir handboltakona úr KA/Þór. Í fjórða sæti urðu Ívar Örn Árnason knattspyrnumaður úr KA og Jóna Margrét Arnarsdóttir blakkona úr KA og í fimmta sæti þau Jóhann Már Leifsson íshokkíleikmaður úr Skautafélagi Akureyrar og Anna María Alfreðsdóttir bogfimikona úr Akri.

Þau sem lentu í fimm efstu sætum í kjörinu voru leyst út með ýmsum gjöfum og fengu peningaverðlaunum úr Afrekssjóði Akureyrar. Íþróttafólk ársins fékk hvort um sig 500.000 krónur, þau sem urðu í 2. sæti fengu 350.000 kr hvort, 250.000 kr. voru greiddar fyrir 3. sæti og þau fjögur sem lentu í 4. og 5. sæti fengu 200.000 kr. hvert.

Ungir afreksmenn hlutu fjárstyrki í hófinu í dag auk þess sem fjögur hlutu heiðursviðurkenningar Fræðslu og lýðheilsuráðs Akureyrar. Nánar um það síðar í kvöld.

Hafdís Sigurðardóttir og Hugrún Felixdóttir, móðir Nökkva Þeys Þórissonar, með verðlaunagripina í Hofi í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson