Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Ráðstefna: gæðastarf í leik- og grunnskólum

Ráðstefna um menntamál; „Hvað er góður skóli?“ Gæðastarf í leik- og grunnskólum á mannamáli verður haldin þann 12. apríl næstkomandi í Hofi á Akureyri. Ráðstefnan er ætluð sveitarstjórnarfólki, kennurum, starfsfólki skóla, áhugafólki um skólastarf, foreldrum og nemendum. 

Skólaráðgjafaþjónustan Ásgarður stendur fyrir ráðstefnunni, og í fréttatilkynningu segir að á ráðstefnunni komi fram kennarar, skólastjórnendur, ráðgjafar og stjórnendur sveitarfélaga sem þekkja vel notkun gæðaviðmiða til þess að efla gæði skólastarfs. Kristrún Lind Birgisdóttir eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðs heldur utan um ráðstefnuna.

Kristrún Lind Birgisdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðs. Mynd: Facebook

„Þetta er einstakt tækifæri fyrir sérfræðinga, kennara, skólastjórnendur, foreldra og nemendur til að koma saman og ræða gæði og mikilvægi menntunar í nútíma samfélagi,“ segir Kristrún. „Við hvetjum alla áhugasama um gott skólastarf í leik- og grunnskólum á Íslandi til að mæta og taka þátt í þessum mikilvægu samræðum.“

Takmarkið er að það séu margir sem viti og skilji til hvers er ætlast í góðum skóla og að við vinnum að því saman, nemendur, foreldrar, allt starfsfólk skólanna, ráðgjafar og sveitastjórnarfólk

„Það hefur mikla þýðingu að koma saman og deila reynslu af innleiðingu gæðaviðmiða í skólastarfi,“ segir Kristrún við blaðamann Akureyri.net. „Það er svo mikilvægt að við séum ekki að láta tilfinningu eða einstaka einstaklinga leiða gæði skólastarfs án þess að við vegum og metum hvað er heppilegt að gera útfrá rannsóknum.

Mér finnst titillinn á fyrirlestri Helgu Maríu og Inga Jóhanns vera mjög lýsandi; Gæðaviðmiðin segja það sem liggur í loftinu - það er það sem við viljum koma til skila. Okkur finnst mikilvægt að reynsla af gæðastarfi og innleiðingu á góðu innra mati fari á milli fólks og að það séu margir sem viti og skilji til hvers er ætlast í góðum skóla og að við vinnum að því saman, nemendur, foreldrar, allt starfsfólk skólanna, ráðgjafar og sveitastjórnarfólk.“

Við erum í einstakri aðstöðu hér á Akureyri til dæmis þar sem við erum með eitt mátulega stórt og öruggt samfélag sem börn og ungmenni geta æft sig með öruggu móti við verk fullorðinna

Með því að halda ráðstefnuna vonast Kristrún meðal annars til þess að fólk kynnist og deili mikilvægi reynslu sín á milli. „Við erum búin að selja hátt í 200 miða nú þegar og við búumst við fullu húsi, kosturinn við ráðstefnuna er að hún er opin öllum - það er svo mikilvægt að við fjölgum þeim sem hafa þekkingu á góðu nútíma skólastarfi. Það er samstarfsverkefni að breyta skólum og gera skólasamfélagið enn betra. Við erum í einstakri aðstöðu hér á Akureyri til dæmis þar sem við erum með eitt mátulega stórt og öruggt samfélag sem börn og ungmenni geta æft sig með öruggu móti við verk fullorðinna,“ segir Kristrún að lokum. 

Dagskrá ráðstefnunnar

  • Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, fjármálaráðherra. Gæðastarfshættir í skólum, fjárfesting til framtíðar.
  • Nemendur úr Ásgarðsskóla - skóla í skýjunum - Hvað er góður skóli?
  • Ásta Bjarney Elíasdóttir skólastjóri Breiðholtsskóla Að breyta orðræðu um og við nemendur.
  • Arndís Anna Jakobsdóttir aðstoðarskólastjóri í Auðarskóla. Námsvísar í leikskólastarfi. Að hafa yfirsýn yfir gæðastarf með aðstoð námsvísa.
  • Heimir Árnason formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar ávarpar ráðstefnuna og fjallar um innleiðingu menntastefnu Akureyrarbæjar með gæðaráðum leik- og grunnskóla. Skólaprófíll vísar veginn til umbóta.
  • Gunnþór E. Gunnþórsson ráðgjafi í Ásgarði. Skoðunarvottorð leik- og grunnskóla á mannamáli
  • Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá Samtökum iðnaðarins. Nýsköpun í grunnskólum. Samþætting nýsköpunar, samfélags og atvinnulífs.
  • Jóhanna María Agnarsdóttir skólastjóri Brekkuskóla. Að koma á skilvirku gæðaráði og ná árangri með gæðastarfi með skipulögðum hætti.
  • Héðinn Svarfdal. Fyrirmyndarsamstarf við foreldra í leik- og grunnskólum.
  • Aðalheiður Skúladóttir skólastjóri Giljaskóla. Að finna leiðir til þess að gæðarýna skipulag læsis og bregðast við niðurstöðum PISA
  • Esther Ösp Valdimarsdóttir skólastjóri Ásgarðsskóla - skóla í skýjunum. Námsmat með nemendum og foreldrum.
  • Helga María Þórarinsdóttir leikskólastjóri og Ingi Jóhann Friðjónsson aðstoðarleikskólastjóri í Lundarseli/Pálmholti. Þegar gæðaviðmið segja það sem liggur í loftinu.
  • Kristrún Lind Birgisdóttir eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðs. Persónumiðað skólastarf fyrir öll börn - það er góður skóli!
  • Karítas Sigurlaug Ingimarsdóttir og Steinunn Ragnarsdóttir. Gæðastarf með 5 ára nemendum við Grunnskóla Bolungarvíkur
  • Arna Vilhjálmsdóttir og Maggý Hjördís Keransdóttir kennarar. Valda í Skjalda. Kvikmyndahátíð grunnskólanema á Patreksfirði. Gæðavottað nýsköpunarverkefni.

Miða á ráðstefnuna er hægt að fá á heimasíðu Ásgarðs.