Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Listasafnið: Frelsi Sigurðar Atla

SÖFNIN OKKAR – XXII
Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Sigurður Atli Sigurðsson
Frelsi
2023

Sigurður Atli Sigurðsson býr og starfar í Reykjavík. Verk hans takast á við byggingarefni samfélagsins, með því að skoða þau kerfi sem við búum okkur til og lifum eftir. Í verkum sínum vinnur Sigurður Atli með ýmiss konar prentefni, útgáfu og bókverk, auk þess að notast við grafíktækni til að vinna stórar myndaraðir. Sérþekking hans á þessu sviði hefur leitt hann til að halda sýningar, kenna og stýra sýningum víða um heim, nú nýlega á samtímalistasafninu í Tókýó og Listasafni Íslands.

Verkið Frelsi má sjá á sýningu Sigurðar Atla, Sena, sem nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri og er unnið sérstaklega fyrir sýninguna. Verkið er eitt af þeim sem Listasafnið festi kaup á nýlega fyrir styrk úr Listaverkasafni Valtýs Péturssonar. Einnig voru keypt verk eftir Heiðdísi Hólm, Salóme Hollanders og Söru Björgu Bjarnadóttur og verður fjallað um þau og listakonurnar í næstu pistlum.

Orðið scenography þýðir bókstaflega að skrifa í rými og var upphaflega notað til að lýsa því þegar tvívíð teikning er yfirfærð í þrívíddarteikningu; senan er teiknuð upp. Frelsi sýnir viðmiðunarpunkta hugrænnar kortlagningar og hvernig manneskjan gerir tilraun til að skipuleggja umhverfi sitt bæði út frá hugmyndafræði og líkamlegum þörfum. Með verkinu skoðar Sigurður Atli skúlptúrísk kerfi úr almenningsrými sem bjóða upp á ákveðna gagnvirkni. Í þessum skilningi tengist verkið konkret ljóðlist eða myndljóðum og hvernig afar takmarkaðar upplýsingar á blaði geta staðið fyrir rými, líkama eða hlut. Hið gagnstæða á einnig við að því leyti að hlutur sem við þekkjum er tekinn úr samhengi í þeim tilgangi að sýna teikningu eða mynd innan sýningarrýmisins. Verkið skoðar hvernig fólk reynir að skipuleggja sitt nánasta umhverfi bæði hugmyndafræðilega og út frá líkamlegri rýmisþörf.