Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

„Alvöru“ kuldatíð fyrir 142 árum – MYNDIR

Mynd: Minjasafnið á Akureyri/Anna Schiöth

Það hefur oft verið kaldara í Eyjafirði en í sumar. Fyrir nákvæmlega 142 árum, 28. ágúst 1882, kom ljósmyndarinn Anna Schiöth sér fyrir á ísjaka til að taka mynd af heimilisfólkinu í Hafnarstræti 23a, íbúðarhúsi bakarans Hendriks og Önnu Schiöth ljósmyndara. Á neðri hæðinni var bakaríið sem Hendrik rak fyrir Höepfnersverslun.

Klukkan var á milli 11 og 12 þegar Anna stillti upp þrífætinum með myndavélinni á ísjakanum. Það er kalt, stíf norðanátt en sól og bjart. Það var búið að vera kalt allt þetta sumar. Fyrir framan myndavélina stendur til vinstri Henrik Schiöth, eiginmaður Önnu, börn þeirra fyrir miðju og aðstoðarmaður bakarans lengst til hægri. Uppi í glugganum lítur vinnukonan út um gluggann. Fjölskyldan bjó á efri hæðum en bakaríið var á neðstu hæð. Ljósmyndastofa Önnu var að líkindum í húsinu til vinstri.

Hún hafði 10 mínútur í allt ferlið; búa til glerplötuna, taka myndina og framkalla. Sjálf myndatakan tók aðeins sex sekundur. Myndin er tekin með votplötutækni. Takið eftir fingrafari Önnu efst upp í vinstra horninu.

Þetta var kannski tækifæri til að taka óvenjulega fjölskyldumynd af ísjakanum en ekki síður til að festa á filmu kuldann sem hafði ríkt um sumarið. Sprettan var léleg og kartöflugrösin lítil. Anna lét ekki við svo búið að mynda fjölskylduna heldur rölti upp á Höfðann og kom sér fyrir til að ná mynd norður Eyjafjörð. Kannski hefur hún eða einhver á hennar vegum sett Akureyrarmet í spretthlaupi við að koma blautri glerplötunni upp á Höfðann. Ferlið tók jú 10 mínútur frá upphafi til enda.

Þessar ómetanlegu myndir sýna hins vegar vel kuldann sem ríkti sumarið 1882 og hafísinn frá Grænlandi sem lá á firðinum allt sumarið. Anna hefur séð ástæðu til að rispa dagsetninguna og ártalið í glerplötuna svo það yrði tryggt um ókomin ár að þetta sumar gleymdist aldrei.