Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Akademíur Þorvaldar Þorsteinssonar

SÖFNIN OKKAR – XVIII
Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Þorvaldur Þorsteinsson
Akademíur – Hólabúðin, 1996
Ljósmyndir, blönduð tækni

Þorvaldur Þorsteinsson (1960-2013) var afkastamikill listamaður og kennari sem nýtti sér flesta miðla í sinni listsköpun. Hann ólst upp á Akureyri, en var búsettur í Belgíu síðustu æviárin. Þorvaldur nam myndlist í Reykjavík og Hollandi og starfaði sem myndlistarmaður og rithöfundur. Hann varð landsþekktur fyrir Vasaleikhúsið, sem flutt var í Ríkisútvarpinu 1991, og fyrir bækurnar Skilaboðaskjóðan og Blíðfinnur, sem þýddar hafa verið á mörg tungumál. Hann hélt myndlistarsýningar víða um heim og var eftirsóttur fyrirlesari og kennari. Þorvaldur hafði einstakt skopskyn, var orðheppinn og djúpt hugsandi. Myndlist hans var frásagnarkennd, byggði á ígrunduðum hugmyndum og hann var jafnvígur á myndlist og ritlist. Þorvaldur hafði einstakt lag á knöppum texta í myndlistinni og í titlum verka sinna. Um þessar mundir má sjá eitt verka hans, And Björk, of Course…, á fjölum Samkomuhússins.

© Þorvaldur Þorsteinsson, Akademíur, 1966

Verkið Akademíur vann Þorvaldur á Akureyri árið 1996. Þá dvaldi hann í gestavinnustofu Gilfélagsins í Listagilinu og undirbjó sýninguna Eilíft líf í Listasafninu á Akureyri, en með þeirri sýningu markaði hann sér sérstöðu sem myndlistarmaður á Íslandi. Í Grikklandi til forna voru akademíur samkomustaðir þar sem menn skiptust á upplýsingum og efldu andann, en ekki hefðbundnar menntastofnanir eins og í dag. Fyrir verkið valdi Þorvaldur fjögur fyrirtæki í bænum sem höfðu verið starfandi alla hans ævi og haft áhrif á hann og ímynd hans af Akureyri. Verslunareigendurnir, sem gjarnan sinntu afgreiðslu, fengu myndavél í hendurnar og mynduðu viðskiptavini þar til filman kláraðist. Síðan raðaði Þorvaldur myndunum upp líkt og á hefðbundnum skólaspjöldum. Allt voru þetta staðir þar sem fólk dvaldi gjarnan í lengri tíma, enda þurfti það ekki endilega að versla heldur að hitta aðra og leita eða miðla fréttum.