Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Ætla ekki að standa við samkomulagið frá 2016

VMA, MA og Hof, þar sem Tónlistarskólinn á Akureyri er til húsa. Myndir: Þorgeir Baldursson, Skapti Hallgrímsson, Auðunn Níelsson

„Ég er mjög hissa. Mér finnst þetta vera staðfesting á því að þau ætli ekki að standa við samkomulagið sem var undirritað árið 2016,“ segir Hanna Dóra Markúsdóttir, formaður BKNE, Bandalags kennara á Norðurlandi eystra. Blaðamaður Akureyri.net sló á þráðinn til Hönnu Dóru, skömmu eftir að fréttir bárust af því að Samband íslenskra sveitarfélaga ætlaði ekki að samþykkja innanhússtillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í gær í kjaradeilu kennara við ríki og sveitarfélög.

Verkfall hófst á miðnætti í nokkrum skólum, m.a. báðum framhaldsskólunum á Akureyri, Menntaskólanum og Verkmenntaskólanum, og Tónlistarskólanum á Akureyri.

„Ég veit náttúrulega ekkert nákvæmlega hvað fólst í akkúrat þessu tilboði, en miðað við það sem hefur komið í fjölmiðlum og það sem hefur lekið út, að þá lítur þetta þannig út,“ segir Hanna Dóra. „Það er bara mjög sárt að gera samkomulag og undirrita það, en standa svo ekki við það. Það er bara galið.“

Ekki í boði að funda með bæjaryfirvöldum

„Það er svolítið síðan að ég hafði samband við bæjaryfirvöld og óskaði eftir opnum fundi með þeim,“ segir Hanna Dóra. „Mér var bara tjáð að það væri ekki boði, að þau mættu það ekki.“

Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs Akureyrar og fyrrverandi kennari, staðfestir það og segir að það hafi einfaldlega verið vegna þess að sveitarfélögin skrifuðu undir samning þess efnis að funda ekki með kennurum. „Það var enginn að neita neinu, við erum bara að fara eftir samkomulaginu, og leyfa samninganefndinni að sjá um þetta. Það myndi flækja málið ef að allir færu að funda.“ 

„Eins og staðan er núna er bara best að tjá sig sem minnst,“ segir Heimir við blaðamann Akureyri.net. „Það kemur bara fljótlega, við erum að ræða þetta og semja svar, eins og flest sveitarfélög eru eflaust að gera akkúrat núna. Ég hef náttúrulega líka verið hinu megin við borðið, starfað sem kennari og ég veit alveg um hvað þetta snýst, allar tilfinningarnar sem fylgja þessu. Ég hef samt auðvitað heyrt í fullt af fólki, persónulega. Ég vona bara, eins og örugglega allir, að þetta leysist sem fyrst.“ 

Ekki gengið út úr skólum á Akureyri

Í einhverjum skólum á landinu hafa kennarar gengið út í kjölfar þess, að SÍS ákvað að samþykkja ekki. Hanna Dóra segir að það hafi ekki átt sér stað á Akureyri, að því er hún best veit. Á vef RÚV er listi yfir þá skóla, þar sem kennarar hafa gengið frá störfum, og enginn þeirra er á Norðurlandi.