Fara í efni
Heilsugæslan

Umfangsmikil greining er nauðsynleg

Næsta heilsugæslustöð verður hér, á horni Þingvallastrætis og Byggðavegar. Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, leggur áherslu á að bygging og rekstur heilsugæslustöðvar séu aðskilin verkefni. Fyrst þurfi að byggja nýja heilsugæslustöð, ef skoða eigi einkarekstur kalli það einfaldlega á umfangsmikla greiningu og vandað útboð svo starfað sé á jafnréttisgrundvelli og af sanngirni. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Fyrirtækið Heilsuvernd hefur lýst yfir áhuga á að starfrækja heilsugæslustöð á Akureyri og það að fyrirtækið hefur ráðið lækna sem eru að hætta hjá HSN til starfa með sérstaka áherslu á Akureyri bendir í sömu átt. Akureyri.net lýkur yfirferð um málefni heilsugæslu á Akureyri með þessum fimmta hluta viðtals við Jón Helga Björnsson, forstjóra HSN, þar sem rætt er um rekstrarform.

Þegar heilsugæslustöðvarnar verða orðnar tvær mun sá hluti starfseminnar sem nú er í leiguhúsnæði í Linduhúsinu við Hvannavelli og við Skarðshlíð flytjast inn á heilsugæslustöðvarnar, en ef framtíðin leiðir í ljós að önnur stöðin verði einkarekin þarf að gera ýmsar ráðstafanir varðandi það hvað fer hvert.

Mikilvægt að þessi uppbygging verði

Jón Helgi leggur áherslu á að þetta séu aðskilin verkefni og að fyrst þurfi að byggja nýja heilsugæslustöð, ef skoða eigi einkarekstur kalli það einfaldlega á umfangsmikla greiningu og vandað útboð svo starfað sé á jafnréttisgrundvelli og af sanngirni.

„Um leið og ný stöð kemur er ætlunin að fara með allt sem er hér inn á sitthvora stöðina. Það var planið. En auðvitað, ef menn eru með annað rekstrarform þá þarf alls konar aðlaganir að því og það er bara hluti af greiningunni, hvað er skynsamlegt að gera,“ segir Jón Helgi.

„Það er mikilvægt að menn klári að byggja nýja heilsugæslustöð, nr. 2, á Akureyri. Þetta hefur verið óþolandi fyrir Akureyringa, að sitja með heilsugæsluna í eldgömlu verslunarhúsnæði sem var alls ekki byggt fyrir þessa starfsemi. Það er bara algjörlega nauðsynlegt að menn standi í lappirnar og passi það að þessi uppbygging verði, burtséð frá því hvað menn telja á endanum skynsamlegt með rekstrarformið. Á því er hægt að finna skynsamlega lausn og verður að vera byggt á einhverri hagsmunagreiningu,“ segir Jón Helgi. Hann kveðst leggja mikla áherslu á að klárað verði að byggja heilsugæslustöð númer tvö á Akureyri óháð því hvert rekstrarform hennar verður þegar þar að kemur.

Vanda þarf greiningarvinnu og forsendur

Það er einmitt að ýmsu að hyggja ef valið verður annað rekstrarform á næstu stöð, þessa sem rísa mun á næstu þremur árum. Í því tilfelli þyrfti að fara fram útboð. Jón Helgi segir að ef sú leið verði valin þurfi að vanda alla greiningarvinnu og forsendur útboðsins.

„Fyrir um tveimur til þremur árum var sett upp nýtt greiðslulíkan fyrir heilsugæslu á landsbyggðinni. Það var í anda þess greiðslulíkans sem var sett á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Jón Helgi þegar rætt er um rekstrarforsendur og hugsanleg önnur rekstrarform. „Í grunninn er það þannig að það er greitt fyrir heilsugæsluþjónustu til stofnana eftir ákveðnum reglum. Megindrifkrafturinn í því er að það er greitt með hverjum íbúa sem er skráður á heilsugæsluna. Það er annars vegar lýðfræðileg aðferð út frá aldri, sjúkdómastöðu og fleiru, sem er skráð og vigtað saman, og svo íbúafjöldi á því svæði sem stöðin nær yfir.“

Með þessu komu talsvert meiri fjármunir inn og þýddi í grunninn að sögn Jóns Helga að Heilbrigðisstofnun Norðurlands kom vel út úr þessu, fékk talsvert mikla fjármuni og yfirgnæfandi meirihluti þess kom til Akureyrar, einfaldlega vegna þess að þar búa flestir þeirra sem tilheyra starfssvæði HSN, frá Þórshöfn vestur að Blönduósi.

„En af því að þessu er skipt öllu samkvæmt höfðatölu þá gerði módelið ráð fyrir því að menn ættu að nota miklu minna fjármagn í dreifðum byggðum heldur en er raunverulega notað og jafnframt að menn ættu að nota miklu meira á Akureyri en sambærilegar stöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru að nýta sér. Þarna munar á þessum módelum 30-40%, hvað meira er borgað eftir dreifbýlismódelinu en höfuðborgarmódelinu. Þetta þýðir að við erum ekki fær um að hagræða á þessum litlu stöðvum og það er í rauninni ekki markmið stjórnvalda heldur. Ef ég tek dæmi þá þyrfti að hagræða í Norður-Þingeyjarsýslu, sem sagt á Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn, um 30-35 milljónir. Það nemur allri hjúkrunarþjónustunni, væri eins og að leggja af alla hjúkrunarþjónustuna þarna, heimahjúkrun, hjúkrunarmóttöku - og það er ekki framkvæmanlegt.“

Óbreytt rekstrarmódel gæfi óeðlilegan hagnað

Jón Helgi segir jafnframt að þetta myndi þýða að ef komið yrði með einkarekna heilsugæslustöð á Akureyri inn í þetta módel og hún myndi til dæmis taka helminginn, 11 þúsund íbúa, þá fengi sú heilsugæslustöð í raun greitt 30-40% meira en sambærileg heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu. Þar væri komið rekstrarmódel sem byði upp á mjög mikinn hagnað, mögulega allt að 100 milljónum króna í hreinan hagnað umfram það sem menn hafa í arð af slíkri starfsemi á höfuðborgarsvæðinu.

„Við myndum svo, ef við misstum þetta út, þurfa að hagræða fyrir þessum 100 milljónum í rekstri allra litlu heilsugæslustöðvanna á Norðurlandi. Þetta eru í rauninni þeir aflvakar sem eru að valda þessum átökum sem eru um heilsugæsluna á Akureyri,“ segir Jón Helgi.

Hann er sjálfur alinn upp á sveitabæ þar sem foreldrar hans voru í einkarekstri með sitt bú og kveðst því alveg skilja þá tilfinningu að vilja vera í eigin rekstri og að hugsa betur um það sem rekið er þannig, það sé öðruvísi tilfinning. Hann segir vel mega íhuga að reka aðra stöðina á Akureyri í einkarekstri, „en þá þurfa menn að bjóða það út á forsendum ríkisins eða okkar íbúanna, þannig að öruggt sé að verið sé að kaupa það sem er verið að borga fyrir. Módelið sem núna er ófært í þetta af því að það myndi skapa hagnað sem er óeðlilegur.“

Minni stöðvarnar áfram hjá HSN

HSN myndi eftir sem áður þurfa að reka minni stöðvarnar í hinum dreifðu byggðum og sitja uppi með vaktþjónustuna nema þá að samið væri um einhverja skiptingu á henni. HSN þyrfti þannig að taka af þeim fjármunum sem stofnunin fengi fyrir helming íbúanna á Akureyri og nýta til að reka þjónustu á öllu svæðinu á meðan einkarekin stöð væri eingöngu með hin 11 þúsundin, ef við gefum okkur að íbúarnir myndu skiptast jafnt á milli stöðvanna.

„Auðvitað eru svona módel mannanna verk, það er auðvitað í þróun. Menn mega ekki vera alveg bláeygðir þegar þeir horfa á þetta, þurfa að vera með vel opin augun fyrir því hvað verður gert í þessu. Svona hluti þarf að undirbúa með hagsmuni íbúanna, hagsmuni ríkisins, hagsmuni okkar sem borgum þetta, í huga. Það er einfaldlega þannig að ef þú getur fengið þennan samning fyrir svona þjónustu til að veita það sama og gert er hjá HSN þá er það gríðarlega arðsamt og langt umfram það sem ég held að sé eðlilegt.“

Bæði kostir og ókostir við tvö rekstrarform

Jón Helgi segist sjá bæði kosti og ókosti við að vera með fleiri en eitt rekstrarform, en ef ákveðið verði að bjóða hluta af heilsugæslunni út þurfi einfaldlega að vanda það mjög og gera það á forsendum þeirrar þjónustu sem ætlunin er að kaupa. Með mismunandi valkosti hafi starfsfólk möguleika á að skipta um vinnuveitanda, vera ekki alltaf hjá þeim sama, en á móti séu áskoranir í því hvernig þjónustan er stillt saman. Ef rekstur beggja stöðvanna er á sömu hendi séu líka kostir við það.

„Þú getur skipt vaktþjónustunni án þess að vera alltaf að semja um það, það eru alls konar hlutir sem þú getur fært eftir því hver hefur hæfni einhvers staðar. Þannig að það eru líka kostir við að vera með báðar stöðvarnar inni hjá HSN. Þetta er samt eitthvað sem þarf að greina af heilbrigðisyfirvöldum og taka ákvörðun byggða á slíkri greiningu. Það er það sem við erum að leggja fram,“ segir Jón Helgi og bendir um leið á annað atriði sem hann telur gríðarlega mikilvægt.

„Ég legg rosalega áherslu á það að menn klári að byggja heilsugæslustöð nr. 2 á Akureyri. Það hefur verið óþolandi fyrir Akureyringa að sitja með heilsugæsluna í eldgömlu verslunarhúsnæði sem var alls ekki byggt fyrir þessa starfsemi. Það er bara algjörlega nauðsynlegt að menn standi í lappirnar og passi að þessi uppbygging verði, burtséð frá því hvað menn telja á endanum skynsamlegast með rekstrarformið. Því það er hægt að finna skynsamlega lausn á því og verður að vera byggt á einhverri hagsmunagreiningu. Þarna er rosalega stór þáttur sem er nauðsynlegt fyrir Akureyringa að standa vörð um, að það verði af þessari fjárfestingu.“