Fara í efni
Heilsugæslan

Stórvirkið Stormur – Eigum við að gera klukkutíma heimildarmynd um Covid?

Jóhannes Kr. Kristjánsson og Sævar Guðmundsson. Hugmynd Jóhannesar um klukkutímaþátt varð að Stormi - heimildaþáttaröð um baráttuna við Covid-19.

Akureyringurinn Sævar Guðmundsson er leikstjóri og einn af aðalmönnunum á bakvið þáttaröðina Storm sem sýnd er í Sjónvarpinu á sunnudagskvöldum þessar vikurnar. Hann og félagi hans, Jóhannes Kr. Kristjánsson, hófu að fylgja þríeykinu svokallaða nánast frá því að heimsfaraldur covid-19 barst til Íslands. Fyrsti tökudagur var 11. mars 2020. Um 400 tökudögum síðar og eftir gríðarlega vinnu við klippingu og aðra eftirvinnslu kemur um einn hundraðshluti af því efni sem tekið var upp nú fyrir sjónir almennings í þáttaröðinni.

Akureyri.net lék forvitni á hvernig þetta verkefni – Stormur – varð til, hvenær hugmyndin kviknaði, hverjar áskoranirnar voru og hvernig vinnsla þáttanna fór fram. Hvernig hafa viðbrögðin verið? Við heyrðum í Sævari í liðinni viku, þegar tveir fyrstu þættirnir hafa verið sýndir í Sjónvarpinu og landsmenn bíða spenntir – sumir ef til vill eilítið kvíðnir – eftir næsta þætti sem er á dagskrá í kvöld.

Jóhannes Kr. Kristjánsson, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Sævar Guðmundsson.

Sævar hefur starfað lengi í kvikmyndabransanum, komið að gerð sjónvarpsþátta, kvikmynda, auglýsinga og alls konar. Hann stofnaði eigið fyrirtæki 2010 og nýjasta ævintýrið er átta þátta röð með sögum úr heimsfaraldri. Hann var þó örlítið tregur til í fyrstu þegar Jóhannes félagi hans kynnti fyrir honum hugmynd að klukkutíma heimildamynd um heimsfaraldur.

Magnaðar sögur á fyrstu metrunum

Jóhannes Kr. Kristjánsson nefndi hugmynd að klukkutíma heimildamynd um heimsfaraldurinn við Sævar, en þá voru þeir nýbúnir að ljúka við verkefni. „Við erum að vinna og þróa annað verkefni og þá kemur þessi faraldur upp og hann kemur með hugmyndina. Eigum við ekki að gera heimildamynd um þetta? Mér leist ekkert á það fyrst, sá bara fyrir mér einhverjar sýkingar og þannig, en ég segi svona með semingi: Jú, jú, prófum þetta, prófum og sjáum hvort þetta sé eitthvað. Við förum af stað í einhverjar tökur og bara sögurnar sem við náum strax inn á fyrstu metrunum, þær voru svo magnaðar að það varð ekki aftur snúið. Þá sá maður að við vorum með eitthvað í höndunum. Þetta verður eitthvað.“

Þegar þeir fóru af stað var þetta hálfgerð óvissuferð. Fyrsta fjármagnið kom inn í verkefnið þegar þeir höfðu þegar unnið í tvo mánuði. Þeir fengu þá styrk, einmitt vegna áhrifa faraldursins á starfsemina, fengu fimm milljónir króna í bætur eða styrk vegna stöðvunar verkefna.

Heimir Bjarnason og Sævar Guðmundsson, með myndavélina á lofti á lögreglustöðinni á Ísafirði.

„Þetta var fyrsti peningurinn sem kom inn í þetta verkefni og fleytti okkur aðeins áfram,“ segir Sævar, en hann er ekki í vafa hvað kom verkefninu virkilega í gírinn í upphafi. „Lykillinn að þessu er að við fengum leyfi hjá þríeykinu til að fylgja þeim eftir. Það tók reyndar aðeins lengri tíma en við hefðum viljað, það tók einhverjar tvær vikur. En við byrjuðum samt að mynda, fyrsti tökudagurinn okkar var 11. mars 2020.“ Þeir Sævar og Jóhannes suðuðu í þríeykinu og fengu loks leyfi, en Sævar segir að þeim hafi ekkert litist á þetta til að byrja með, að hleypa fólki með tökuvélar inn á fundi og elta þau þar sem þau voru að taka alvarlegar ákvarðanir sem höfðu áhrif á alla þjóðina. „En Víðir var náttúrlega þarna innsti koppur í búri. Ég hafði gert mynd sem heitir Jökullinn logar um íslenska landsliðið í fótbolta. Þar var hann öryggisfulltrúi. Hann fór á alla leiki með þeim og ég var mikið búinn að vinna með honum. Hann bæði sá hvernig við nálguðumst það verkefni, þar vorum við inni á herbergjum hjá leikmönnum og inni á fundum og um allt þar sem myndavélar máttu að öllu jöfnu ekki vera. Svo sá hann niðurstöðuna úr því og ég held að hann hafi treyst því að þetta yrði allt í lagi. Fyrir utan það, þá vildi hann að þetta tímabil yrði documentað.“

Kenndu hjúkrunarfólki á myndavélarnar

En var þá ekki líka flókið og mikil vinna að fá leyfi hjá fólkinu sem er í myndinni, sjúklingunum, aðstandendum og þannig?

„Já, það var annar handleggur, en til að komast inn á þessar hjúkrunarstofnanir, gjörgæsluna og alls staðar þar sem enginn má vera, þá hjálpaði mikið að þríeykið var búið að gefa leyfi. Við vorum komin með grænt ljós frá þeim og þegar þessar stofnanir heyra að æðsta fólkið er búið að gefa þessum mönnum grænt ljós þá varð þessi eftirleikur auðveldari. En ekkert einfaldur, alls ekki einfaldur, en auðveldari.“ Hann segir síðan að allur gangur hafi verið á því hvernig þeir fengu leyfi hjá til dæmis sjúklingum og aðstandendum. Stundum fyrir fram, stundum eftir á. En fengu þeir þá hvergi þvert nei við því að fá að mynda? „Landspítalinn var mjög erfiður. Við fengum nei frá Landspítalanum og það tók okkur eitt og hálft ár að komast þar inn. Við komumst samt inn á hann, inn á gjörgæslu og víðar, en við fengum aldrei að fara inn á A7. Það er engin saga til innan úr því. Það er eiginlega eini staðurinn sem við komumst ekki inn á. Og ég held að Landspítalinn hljóti að sjá eftir því í dag. Það er ekkert um það í þáttunum.“ Deildin sem Sævar vísar hér til, A7, er auðvitað sjálf covid-deildin.

Sævar Guðmundsson, leikstjóri Storms, ávarpar gesti þegar fyrsti þátturinn var frumsýndur í kvikmyndahúsi við hátíðlega athöfn á dögunum.

En þeir fengu þó víðast hvar mjög jákvæðar viðtökur og hjúkrunarfólk og sjúkraliðar voru oft hjálpleg við tökurnar. Þeir voru mikið á ferðinni sjálfir með myndavélarnar, en skiptu aðeins með sér verkefnum. Það var allur gangur á því. Jóhannes var mikið í því að elta þríeykið og ég var kannski á öðrum stað, eða var í stærri tökum. Síðan fengum við stundum hjúkrunarfólk til að mynda fyrir okkur, kenndum því bara á tækin, helst þar sem við máttum ekki fara inn en vissum að við yrðum að fá þetta myndefni. Það voru allir mjög hjálplegir hvað það varðaði. Þetta var langmest skotið af okkur, en við nutum aðstoðar frá öllum. Það er alls konar hjúkrunarfólk og sjúkraliðar sem eiga skot hingað og þangað í þessum þáttum.“

Yfir 400 tökudagar

Það er ekki hlaupið að því að gera átta raða heimildaseríu um svona víðtækt efni og á þetta löngum tíma. „Ég held að ég geti sagt að þetta sé stærsta heimildamyndaverkefni sem gert hefur verið á Íslandi,“ segir Sævar. „Þetta eru meira en 400 tökudagar, við erum ekki alveg komnir með endanlega tölu á því, en þeir eru fjögur hundruð og eitthvað. Viðmælendur eru 160, sem koma fram í seríunni. Jafnmargir eða fleiri hafa því miður endað á klippigólfinu. Við erum búin að vera tvö og hálft ár að klippa þetta. Eiginlega frá því að við byrjuðum að taka, eða frá sumrinu 2020 er þetta búið að vera stanslaust í klippingu.”

Sævar segir þá Jóhannes hafa unnið að verkefninu í fjóra til fimm mánuði þegar þeir sáu hve stórt það var orðið og svo mikið af efni að þeir yrðu að fá hjálp við vinnsluna. „Þá ráðum við Heimi Bjarnason, sem er bæði klippari og leikstjóri. Hann byrjar að klippa og var fastur í því í tvö og hálft ár. Þegar ég er ekki í tökum þá er ég að hjálpa honum að klippa. Þetta eru nánast búið að vera tveir menn að klippa í tvö og hálft ár.“

Heimir Bjarnason, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Sævar Guðmundsson og Jóhannes Kr. Kristjánsson.

„Þetta er satt að segja alveg á mörkunum. Þetta var bara það skipulagt hjá okkur alveg frá upphafi og af því að við byrjum að klippa eiginlega strax þá náðum við alltaf að vera með einhverja yfirsýn á þetta. Þetta varð aldrei alveg stjórnlaust þó þetta yrði algjört monster,“ segir Sævar þegar hann er spurður hvort þeim hafi aldrei fundist þeir verið komnir með of mikið og of víðtækt efni og væru hreinlega að drukkna í verkefninu. En skipulag og yfirsýn er svarið. Þeir byrjuðu snemma að klippa saman senur sem síðan fara hingað og þangað í þættina. „Við gerðum eiginlega söguörk í hverjum þætti. Fyrsti þáttur þarf alltaf að ganga upp innan í sjálfum sér. Þetta þarf alltaf að vera einhver saga með byrjun, miðju og endi og síðan þarf serían öll líka að ganga upp,“ segir Sævar. „Það einfaldar svo margt þegar maður er farinn að klippa senur, í staðinn fyrir að vera með kannski marga klukkutíma af einhverju þá ertu kominn niður í tvær mínútur. Þá ertu bara með þessa senu og svo ertu kannski með 30 aðrar senur sem komast fyrir í þættinum. Svo hendirðu kannski 150 senum sem fá ekkert að vera með þó það sé búið að klippa þær. Þetta er allt klippt og allt klárt. Þannig hjálpar þetta okkur að hafa yfirsýn,“ segir hann.

Sævar Guðmundsson við tökur á Stormi.

Hvenær er of stutt síðan, hvenær of langt?

En hvað með tilfinningarnar? Tíðindamaður Akureyri.net verður að viðurkenna að hann átti í erfiðleikum með að horfa á fyrstu tvo þættina, fannst óþægilegt að fara að endurupplifa þetta allt saman svona stuttu eftir að faraldrinum lauk, ef honum er þá lokið. Sævar er því spurður út í sýningartímann því á einhverjum tímapunkti eru þeir komnir með nánast fullunna afurð í hendurnar og þá er spurningin hvort þeir veltu sýningartímanum fyrir sér – hvenær væri of snemmt að rifja þetta upp með þjóðinni.

„Já, hvenær er þetta of stutt og hvenær er þetta of langt. Við veltum þessu svo sem alveg fyrir okkur, en við höfðum í sjálfu sér ekkert með það að gera. Rúv var búið að kaupa þetta af okkur og þeir höfðu endanlegt val um þetta. Það eina sem við þurftum að gera var bara að klára þættina og afhenda þeim þá,“ segir Sævar. Þeir fengu að vita fyrir um hálfu ári að ætlunin væri að hefja sýningar um mánaðamótin janúar-febrúar. Á þeim tíma voru þeir meira og minna búnir að klippa og eru „að læsa klippinu,“ eins og Sævar orðar það. Þeir unnu þættina alla í einu, ekki klára einn og svo næsta og svo áfram. Enda segir Sævar að þeir hafi verið með alls konar tilfærslur á senum á milli þátta til að láta söguna ganga upp.

Sævar Guðmundsson, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Eru þetta þá mest viðskiptaleg sjónarmið sem ráða sýningartímanum, frekar en að verið sé að velta fyrir sér tilfinningasjónarmiðinu út frá umfjöllunarefninu?

„Ég veit það nú ekki. Auðvitað eigum við samræður við Rúv og segjum hvað okkur finnst og þeir segja hvað þeim finnst. Þeir þurfa líka að vega og meta líka hvað hafa þeir annað sem þeir geta sýnt á sunnudagskvöldum. Þetta er bara samtal sem á sér stað. Okkar persónulega skoðun var að þetta mátti ekki vera of langt frá og ekki of stutt frá, vegna þess að þú þarft eiginlega að muna svolítið eftir þessu, en helst ekki alveg vera búin að gleyma öllu. Okkur finnst í rauninni að það hefði ekki verið of snemmt að sýna þetta á meðan á faraldrinum stóð. Það er allt í lagi fyrir fólk að vita hvað er að gerast eða hvað var að gerast fyrir mánuði síðan eða tveimur mánuðum. Okkur fannst þetta eiga erindi við almenning, alveg sama hvenær það er. Það er ekkert verra að horfa á þetta núna eða eftir tíu ár. Mér finnst að minnsta kosti að fólk eigi að vita hvað er að gerast í kringum það. Á meðan fólk er inni bara í Playstation eða horfa á Netflix þá eru þessir hlutir að gerast bara í næsta húsi.“

Þjóðin að útskrifast úr faraldrinum

Faraldurinn kom líklega flestum á óvart aftur og aftur þegar það leit út fyrir að hann væri farinn, en svo kom hann aftur. Á einhverjum tímapunkti þurftu þeir samt að ákveða að kominn væri tími til að hætta tökum. Það tengist á ýmsan hátt stöðu faraldursins og afléttingum takmarkana.

„Já, við ákváðum í byrjun árs 2022, þá vorum við hættir að taka. En serían okkar endar samt sumarið 2021. Við eigum alveg efni í tvo, þrjá þætti í viðbót ef við viljum. Okkur fannst bara þegar við vorum komin með þessa beinagrind að það væri gott að enda seríuna þegar öll þjóðin er bólusett og allir eru tilbúnir.“ Þeir voru þá komnir með seríuna upp í átta þætti. „Þetta átti fyrst að vera klukkutíma heimildamynd. Síðan bara hélt faraldurinn aðeins áfram og við vorum komnir með endi á hann. Sumarið 2020, í júníbyrjun, er Víðir að fara að útskrifa lögregluskólanema og við hugsum að þetta sé frábær endir. Hann er að fara að útskrifa lögregluskólanema á sama tíma og Ísland er að útskrifast frá þessari veiru, þannig að við blöndum þessu saman og það verður endirinn á þessu.“

Heimir Bjarnason og Sævar Guðmundsson.

„Þá er allt orðið vitlaust

„Víðir er að útskrifa lögregluskólanema og þá er ég að elta Víði. Á sama tíma er Jóhannes með Þórólfi úti á Keflavíkurflugvelli. Þórólfur er að kíkja á skimunarstöðvarnar, þetta var 13. júní. Þeir voru að skoða aðstöðuna þar,“ segir Sævar. En þá kom upp mál við landamærin. Yfirvöld stöðvuðu hóp erlendra ferðamanna sem grunaðir voru um að vera með eitthvað misjafnt á prjónunum og allir voru þeir með Covid.

„Víðir fær bara símtal á meðan ég er að mynda á þessari útskrift. Þá er allt orðið vitlaust. Á sama tíma er Þórólfur að reyna að fá lögbann á þessa menn og setja þá í fangelsi en það vill ekkert fangelsi taka við þeim af því að þeir eru allir smitaðir og það er allt í upplausn. Síðan finna þeir út úr þessu og við erum að mynda þetta allt. Jóhannes er með Þórólf og það sem hann er að gera í kringum þetta og ég er að mynda Víði og það sem hann er að gera. Þetta er mjög skemmtileg sena í fjórða þættinum. Endirinn á þessari sextíu mínútna pælingu um heimildamynd sem átti að vera, hann fór bara út um gluggann þegar við sáum að allt fór af stað aftur,“ segir Akureyringurinn Sævar Guðmundsson, leikstjóri, kvikmyndagerðarmaður og einn af framleiðendum þáttaraðarinnar Storms.