Segir matsmenn ekki talið þörf á nýjum dúk
Matsmenn á vegum eiganda verslunarmiðstöðvarinnar Sunnuhlíðar og verkfræðistofunnar Eflu töldu ekki þörf á að skipta um þakdúk á eldri hluta hússins, þar sem leki kom upp um áramótin. Þetta segir verktaki sem sér um þakverkefnin.
Akureyri.net greindi frá því síðastliðið föstudagskvöld að flutningur Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri myndi tefjast um allt að þrjár vikur vegna leka sem kom upp í hlákunni um áramótin. Rétt er að vekja athygli á að í upphaflegum texta fréttarinnar var farið rangt með staðreyndir málsins og sagt að leki hafi komið upp í nýbyggingunni. Þessi mistök skrifast á misskilning blaðamanns eftir samtal við forstjóra HSN og eru hlutaðeigandi hér með beðnir afsökunar á þessum mistökum.
Hið rétta er að lekinn kom upp á þaki gangs á verslunarmiðstöðinni sjálfri, eldri hluta hússins. Arnór Páll Júlíusson, framkvæmdastjóri Þakverks - Þakpappalagna ehf., sem er undirverktaki hjá Lækjarseli ehf. í þakverkefnum við framkvæmdir í Sunnuhlíð, bendir á að á þessum gangi hafi verið gamall pvc-dúkur. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar þegar unnið var við þak byggingarinnar í sumar um að skipta þyrfti út þessum dúk hafi matsmenn frá Regin og Eflu hafi ekki talið þörf á að skipta um þakdúk.