Fara í efni
Heilsugæslan

Ríkið samþykkir að borga bílakjallara

Heilbrigðisráðuneytið hefur samþykkt að greiða fyrir 18 bíla kjallara undir heilsugæslustöð sem byggð verður við Þingvallastræti, vestast á bílastæðinu við Berjaya hótelið, sem áður hét Icelandair hótel.

„Ég vona að nú getum við hafist handa og boðið verkið út í desember,“ sagði Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands við Akureyri.net í dag.

Allt virtist klappað og klárt á sínum tíma en Framkvæmdasýsla – Ríkiseignir (FSRE) sendi Akureyrarbæ þau óvæntu skilaboð í bréfi snemma þessa árs að ekki hefði verið gert ráð fyrir kostnaði við bílakjallara, í heildarkostnaði við bygginguna. Fór FSRE fram á að ekki yrði gert ráð fyrir bílakjallara undir húsinu en bæjaryfirvöld svöruðu því afdráttarlaust neitandi.

Nú gæti lausn verið í sjónmáli; ráðuneytið kveðst reiðubúið að greiða fyrir bílakjallara með 18 stæðum.

Þess má geta að upphaflega var gert ráð fyrir 40 stæðum í bílakjallara að því er Þórhallur Jónsson, þáverandi formaður skipulagsráðs Akureyrar, greindi Akureyri.net frá í mars og ekki liggur fyrir hver viðbrögð bæjaryfirvalda verða við því að ríkið sé tilbúið að greiða fyrir kjallara sem rúmi 18 stæði.

Bílakjallaramálið: Beiðnin er út í hött

Ríkið gerir ekki ráð fyrir bílakjallara