Fara í efni
Heilsugæslan

Myglan breytir skipulagi flutninga HSN

Lengi hefur verið vitað að húsnæði heilsugæslunnar í Hafnarstræti 99 henti ekki þeirri starfsem sem þar fer fram. Nú líður senn að brottflutningi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Ákveðið hefur verið að flytja meginhluta starfsemi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) á Akureyri í Sunnuhlíð um áramótin. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar. Mygla hefur hrellt starfsmenn HSN í húsnæðinu að Hafnarstræti 99 og flutningum þaðan hefur því verið flýtt með hagsmuni starfsfólks og þjónustuþegar heilsugæslunnar í huga, eins og það er orðað.
 
Heimahjúkrun verður áfram í núverandi húsnæði í eigu Hvítasunnukirkjunnar, sálfélagsleg þjónusta og geðheilsuteymi flytja í Hvannavelli 14 og unnið er að því að finna húsnæði fyrir þann hluta yfirstjórnar sem er á Akureyri.
 

Framkvæmdir standa nú yfir bæði innan dyra í Verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð og í viðbyggingu norðan við húsið vegna flutnings heilsugæslustöðvarinnar þangað. Upphaflega markmiðið var að kljúfa starfsemi heilsugæslunnar í tvær einingar þegar húsnæðið í Sunnuhlíð yrði tilbúið í desember 2023, en ástand húsnæðisins í Hafnarstræti 99 hefur sett strik í reikninginn og ýtt undir flutninga á aðra staði þar til ný heilsugæslustöð verður tilbúin við Þórunnarstræti.

Eftir að mygla greindist í nokkrum rýmum í núverandi húsnæði í Hafnarstrætinu í vetur var niðurstaðan að ekkert vit væri í að leggja í kostnað við endurbætur á því húsnæði þar sem ætlunin væri að flytja þaðan út í lok árs 2025 í nýja stöð við Þórunnarstræti. Slíkar endurbætur þyrfti að gera síðar, þegar framtíðarnotkun húsnæðisins liggur fyrir.

Þegar myglan kom í ljós var leigt húsnæði í Hvannavöllum 14, þar sem N4 var til húsa. Sálfélagsleg þjónusta og geðheilsuteymi fluttu í Hvannavellina og starfsfólk gat þá flutt úr rýmunum með mygluna í húsnæðið þar sem sálfélagslega þjónustan var áður. Vegna þessa var tekin sú ákvörðun að fresta því að kljúfa upp starfsemina og flytja þess í stað stærsta hluta af klínískri starfsemi í Sunnuhlíð um áramótin. Þá verði öll læknisþjónusta, hjúkrunarmóttaka, mæðravernd, ungbarnavernd og önnur þjónusta í Sunnuhlíð.