Fara í efni
Heilsugæslan

Mikil ánægja með nýju heilsugæsluna

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands þegar heilsugæslan í Sunnuhlíð var formlega tekin í notkun í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Nýja heilsugæslustöðin í verslunarkjarnanum Sunnuhlíð á Akureyri var formlega tekin í notkun í dag að Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra viðstöddum, bæjarfulltrúum á Akureyri og fleiri gestum.

Læknar tóku á móti fyrstu sjúklingunum á nýja staðnum 19. febrúar síðastliðinn og er mikil ánægja með allar aðstæður. Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) sagði reyndar í léttum dúr í dag að hann hefði ekki sofið vel í nokkrar nætur þegar ákveðið var á sínum tíma að flytja heilsugæslustöðina úr gamalli verslunarmiðstöð (Amaro-húsinu í miðbænum) í aðra gamla verslunarmiðstöð (Sunnuhlíð í Glerárhverfi) – en sannarlega hefði frábærlega tekist til.

Hissa á þolinmæðinni

Willum Þór lýsti einnig mikilli ánægju með hvernig til hefði tekist og hrósaði í leiðinni starfsfólki stöðvarinnar fyrir ótrúlega þolinmæði.

„Ég skal viðurkenna að þegar ég kom inn á heilsugæslustöðina þar sem þið voruð þá var ég alveg hissa á þolinmæðinni sem þið höfðuð sýnt, og ég er afar þakklátur fyrir það að við höfum haft hugrekki til að fara í þessa vegferð og gera það hratt af því að það var ekki hægt að bjóða upp á að dvelja þar mikið lengur,“ sagði ráðherrann í dag.

Heilsugæslustöðvarnar á Akureyri verða tvær því önnur mun rísa sunnan Glerár. Ráðherra sagði reyndar að stöðin í Sunnuhlíð væri svo flott að hann hefði hugsað sér að spyrja í dag, hvort ekki væri bara komið gott! Rétt er að taka fram að þau ummæli voru á léttum nótum, og Willum sagði að í dag væri fyrst og síðast tími til að „fagna þessum áfanga, sem er svo kær, sem er svo nauðsynlegur fyrir fólkið á svæðinu og ykkur sem hér starfið.“

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, og Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar.

Frá vinstri: Þórhallur Harðarson, framkvæmdastjóri fjármála hjá HSN, Halldór Benjamín Þorbergsson forstjóri Regins, eiganda húsnæðisins við Sunnuhlíð, Páll V. Bjarnason, framkvæmdastjóri hjá Regin og Óskar Jósefsson forstjóri Framkvæmdasýslunnar.

Frá vinstri: Jón Torfi Halldórsson yfirlæknir HSN á Akureyri, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN, Ingibjörg Lára Símonardóttir, yfirhjúkrunarfræðingur og Þorgerður P. Kristinsdóttir deildarstjóri.

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Kristján Kristjánsson yfirlögregluþjónn á Akureyri og Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson