Fara í efni
Heilsugæslan

Meiddur dómari og markaveisla í sigri SA

SA-menn fagna fimmta marki liðsins í 5-2 sigri á Fjölni í kvöld. Til vinstri er Guðni Helgason, sem tók við hlutverki aðaldómara eftir að Sæmundur Leifsson meiddist. Skjáskot úr YouTube-streymi.

Karlalið SA í íshokkí vann lið Fjölnis með þriggja marka mun í leik sem var þó jafnari en lokatölurnar gefa til kynna. Akureyringar eru þar með komnir í efsta sæti Toppdeildarinnar, eru með 24 stig eftir 11 leiki, en SR er í 2. sæti með 22 leiki og hafa leikið tveimur leikjum meira en SA. 

Fjölnismenn tóku forystuna tvívegis í fyrsta og öðrum leikhluta, en SA-menn jöfnuðu tvisvar með mörkum Heiðars Gauta Jóhannssonar og Péturs Sigurðssonar og komust yfir seint í öðrum leikhlutanum með marki Gunnars Arasonar. Staðan 3-2 SA í vil áður en lokaþriðjungurinn hófst.

Fljótlega í þriðju lotunni komu tvö mörk á stuttum tíma frá Andra Sverrissyni og Una Blöndal og SA-menn komnir með þriggja marka forystu, 5-2. Fimmta markið var Blöndal-mark því móðurbróðir Una, Orri Blöndal, átti stoðsendinguna. Leikurinn var þó áfram kröftugur og spennandi, gestirnir reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn, en tókst ekki og sigur SA í höfn að lokum.

Spilaði leik og dæmdi annan

Nokkur töf varð á leiknum í upphafi annars leikhluta þegar Sæmundur Leifsson, aðaldómari leiksins, missti fótanna og meiddist við það að lenda á svellinu, virtist hafa rotast eða vankast við byltuna. Heilbrigðisteymið sem er á öllum heimaleikjum SA og Akureyri.net hefur áður sagt frá var að sjálfsögðu á leiknum og fékk Sæmundur því skjóta aðstoð og leiknum síðan fram haldið eftir 10-15 mínútna töf. Lýsandi leiksins nefndi í þriðja leikhluta að honum hafi borist skilaboð um að Sæmundur væri uppi á sjúkrahúsi en væri ferskur, eins og það var orðað. 


Sæmundur Leifsson tilkynnir um dóm á leikmann í fyrsta leikhluta. Þegar innan við mínúta var liðin af öðrum leikhluta féll hann á svellið og var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar, en síðar í leiknum bárust fréttir af því að hann væri „ferskur“.

Áfram voru þó þrír dómarar sem dæmdu leikinn því leikmaður kvennaliðs Fjölnis, Sigrún Agata Árnadóttir, tók við hlutverki Sæmundar, en hún hafði sjálf spilað í fyrri leik dagsins, hörkuleik sem fór í framlengingu og vítakeppni. 

SA

Mörk/stoðsendingar: Andri Freyr Sverrisson 1/1, Uni Steinn Blöndal 1/1, Heiðar Gauti Jóhannsson 1/0, Pétur Sigurðsson 1/0, Gunnar Arason 1/0, Dagur Jónasson 0/1, Ágúst Ágústsson 1/0, Jóhann Már Leifsson 0/1, Orri Blöndal 0/1. 
Varin skot: Róbert Steingrímsson 25 (92,59%).
Refsimínútur: 18.

Fjölnir

Mörk/stoðsendingar: Viggó Hlynsson 1/1, Emil Alengaard 0/2, Viktor Svavarsson 1/0
Varin skot: Nikita Montvids 38 (88,37%).
Refsimínútur: 8.

Leikurinn var í beinu streymi á YouTube-rás ÍHÍ þar sem einnig má finna upptöku af leiknum: