Heilsugæslan
Geðþjónusta við börn og unglinga frá SAk til HSN
04.07.2024 kl. 09:34
Þjónusta sem barna- og unglingageðteymi (BUG) hefur veitt á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) færist til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) frá og með 1. október næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vefjum HSN og SAk í gær.
Þar segir að markmiðið með þessari tilfærslu sé að efla þjónustu og samfellu í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni á Norður- og Austurlandi undir hatti HSN.
Í tilkynningunni segir ennfremur:
- Á undanförnum árum hefur átt sér stað markviss uppbygging á sálfélagslegri þjónustu HSN. Þar er í dag rekið öflugt teymi fagfólks sem þjónustar bæði börn og fullorðna á Norðurlandi.
- Rétt er að árétta að áfram mun SAk sinna bráðaþjónustu fyrir börn og unglinga á svæðinu og munu SAk og HSN koma á verklagi um samvinnu vegna bráðamála sem koma beint til SAk.
- Undirbúningur að framkvæmd yfirfærslunnar er þegar hafinn og er með þeim hætti að ekki verði rof í geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á Norður- og Austurlandi.