Fara í efni
Heilsugæslan

Báðum yfirlæknum HSN á Akureyri sagt upp

Jón Torfi Halldórsson yfirlæknir, Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN og Valur Helgi Kristinsson yfirlæknir. Sunnuhlíð í bakgrunni, þar sem ný heilsugæslustöð verður opnuð í byrjun næsta árs.

Báðum yfirlæknum Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, Jóni Torfa Halldórssyni og Val Helga Kristinssyni, hefur verið sagt upp störfum vegna skipulagsbreytinga.

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir uppsagnirnar tengjast því að með flutningi heilsugæslustöðvarinnar á nýjan stað í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð hafi verið talið betra að hafa eina stöðu yfirlæknis í stað tveggja. Ástæðan sé sú að ekki standi til að kljúfa upp starfsemina eins og áform voru um og því hafi verið talið best að hafa aðeins eina stöðu yfirlæknis.

Hann segir hafa virkað prýðilega í kringum heimsfaraldurinn að vera með tvær stöður yfirlækna, en nú hafi verið ákveðið að vera aðeins með eina stöðu yfirlæknis á einni starfsstöð. Þessi breyting gangi einnig út á að minnka deildamúra á milli eininga á heilsugæslustöðinni og auka sveigjanleika á milli mismunandi starfssviða.

Uppsagnirnar taka gildi um áramótin og hefur staða yfirlæknis á nýrri stöð í Sunnuhlíð nú þegar verið auglýst. Ráðið verður í starfið frá og með 1. janúar 2024. Jón Helgi segir að Jóni Torfa og Val Helga hafi verið boðið að starfa sem heimilislæknar, en það sé ákvörðun hvors fyrir sig hvort þeir sæki um stöðuna sem nú hefur verið auglýst.