Fara í efni
Heilsugæslan

Ætla að vinna að bættu samstarfi og starfsanda

Nokkur úlfúð skapaðist meðal starfsfólks Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri vegna skipulagsbreytinga sem áttu sér stað í haust þegar tveimur yfirlæknum var sagt upp og auglýst ein staða yfirlæknis í staðinn. Báðum fráfarandi yfirlæknum var boðið starf sem heimilislæknar og að sjálfsögðu frjálst að sækja um auglýsta stöðu yfirlæknis.

Akureyri.net heldur áfram að fjalla um málefni Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri. Í umfjöllun dagsins er staða í mönnun skoðuð, einkum hvað varðar læknastöður og þá sérstaklega sérfræðinga í heimilislækningum og horfurnar í þeim málum.

  • Á MORGUN Krefjandi fjárlög fram undan

Læknaráð sendi framkvæmdastjórn HSN harðorða ályktun í framhaldinu og annar yfirlæknanna sem sagt var upp ákvað að sækja hvorki um yfirlæknisstöðuna né þiggja áframhaldandi starf sem læknir á stöðinni. Hann hefur nú ráðið sig til starfa hjá Heilsuvernd með sérstaka áherslu á vinnu tengda heilsugæslu á Akureyri. Hinn reyndist síðan eini umsækjandinn um yfirlæknisstöðuna og hefur verið ráðinn í hana frá og með áramótum.

Læknamönnun á Akureyri án verktöku sem er um eitt stöðugildi.

Ekki löngu eftir uppsagnir yfirlæknanna bárust fréttir af því að tveir læknar hefðu sagt upp störfum og annar þegar ráðið sig til starfa hjá Heilsuvernd, einnig með sérstaka áherslu á Akureyri eins og yfirlæknirinn fráfarandi.

Gefst ekki vel að hafa tvo jafnsetta yfirmenn

Þó utanaðkomandi hafi ef til vill þótt liggja beinast við að skipulagsbreytingarnar sem gerðar voru í haust tengdust kröfu frá ráðuneytinu um hagræðingu og sparnað segir Jón Helgi ekki svo vera.

„Það voru þarna á læknasviði tveir góðir yfirmenn, í rauninni að stýra sömu einingunni, sem svínvirkaði þegar við vorum í covid því þá var bara svo mikið að gera að það var mjög gott að vera með tvo í því. Ætlunin var svo að kljúfa það upp þegar við fengjum Sunnuhlíð, við yrðum áfram með helminginn af stöðinni í Hafnarstræti og hinn helmingurinn færi í Sunnuhlíð. Þá værum við með tvo yfirlækna sem færu á sitthvora stöðina.“

Jón Helgi segir að engu að síður hafi verið grá svæði á milli manna, hver bæri ábyrgð á hverju og segir að almennt gefist það ekki vel að vera með tvo jafnsetta yfirmenn yfir sömu einingunni.

Það sem breyttist einnig var að starfsemin verður alfarið flutt úr Hafnarstrætinu í janúar og því í raun áfram starfandi ein heilsugæslustöð á Akureyri þar til byggð hefur verið ný heilsugæslustöð sem áformað er að verði tilbúin eftir um þrjú ár. Niðurstaðan þar til hún kemur til sögunnar varð því sú að betra væri að færa starfið í eina stöðu.

Getum bara lært af þessu

„Það er kristalljóst að fólki fannst þetta ekki vel unnið og starfsmönnum fannst ekki vel að þessu staðið þó þeir væru kannski í grunninn ekki ósammála um að skynsamlegt væri að vera með einn yfirmann. Við getum ekki annað en bara lært af því. Það er engin leið að taka það til baka sem búið er,“ segir Jón Helgi um framkvæmd þessarar skipulagsbreytingar og viðbrögð innan stofnunarinnar.

Hann segir skiljanlegt að í svona breytingum hugsi fólk hlutina upp á nýtt og því miður hafi stöðin misst góða lækna annað, auk annars læknis sem hafi ákveðið að hætta á stöðinni, að hluta út af þessum breytingum.

„Þannig að þetta eru þrír fastir heimilislæknar sem eru að fara frá okkur, sem er auðvitað áfall fyrir stöðina og eitthvað sem við þurfum að glíma við,“ segir Jón Helgi.

Eins og áður sagði komu fram hörð viðbrögð við skipulagsbreytingunum í haust. Jón Helgi segir að síðan þá hafi samtal átt sér stað innan stofnunarinnar. „Við höfum verið að funda um leiðir til að bæta samstarf og starfsandann innan HAk og ætlum að vinna saman með okkar ágæta starfsfólki, hvað við getum gert betur. Það eru ákveðin tækifæri þegar við förum yfir í Sunnuhlíð, til að gera betur. Vissulega er það gott og flott hús, en ekki til mikils ef það er enginn starfsmaður þar,“ segir Jón Helgi.

Brotthvarf þriggja lækna í framhaldi af skipulagsbreytingum og uppsögnum lækna sem hafa ákveðið að fara annað kemur sér auðvitað ekki vel í rekstri heilsugæslustöðvar þar sem nú þegar er skortur á slíkum.

„Það er flókið að finna nýja heimilislækna þannig að við munum lenda í tímabili þar sem við munum þurfa að manna með aðkomulæknum að einhverju leyti,“ segir Jón Helgi um þá stöðu sem heilsugæslan á Akureyri hefur staðið frammi fyrir og verður verkefni yfirstjórnarinnar áfram, að halda sjó og sækja fram í þeim tilgangi að fjölga aftur heimilislæknum á Akureyri.

Það að manna stöður með aðkomulæknum að einhverju leyti er reyndar ekki nýtt því eins og sjá má á súluritinu hér að neðan hafa fimm til sjö stöðugildi lækna hjá HSN verið í verktöku, það er stöður sem mannaðar eru tímabundið með aðkomulæknum. Jón Helgi tekur fram að það sé ekki dýrara að ráða lækna með þeim hætti, en vissulega sé kostur að hafa lækna í starfi sem búa á staðnum og eru hluti af samfélaginu.

Mönnun með aðkomulæknum í verktöku á einkum við um stöður á minni stöðunum þar sem læknar koma tímabundið og leysa af og til dæmis er stöðin á Blönduósi alfarið mönnuð þannig. Á árinu 2022 voru alls 39 stöðugildi lækna hjá HSN í föstu starfi og 6,1 stöðugildi í verktöku.

Almennt er skortur á heimilislæknum í landinu, en Jón Helgi segir Norðurland vera almennt betur sett en sum önnur svæði. „Það er bara skortur á læknum alls staðar, en heilsugæslulækningar hafa heldur verið að styrkjast sem sérgrein. Það sem er þó vandamál er að hér voru 12 sérfræðingar og þegar þrír fara út erum við komin niður í níu sérfræðinga. Það er það sem er takmarkandi til þess að fólk fái heimilislækni,“ segir Jón Helgi. Eins og staðan er núna hefur fjöldi Akureyringa ekki sinn eigin heimilislækni.

Kjörstaða að hafa 17-20 heimilislækna

Miðað við undanfarin ár hefur staðan á þessu ári verið með besta móti eins og sjá má á súluritinu hér að neðan yfir fjölda sérfræðilækna á Heilsugæslustöðinni á Akureyri. Verst var hún árið 2018 þegar stöðugildin voru tæplega níu. Með brotthvarfi lækna núna er staðan aftur orðin svipuð og á árunum 2017 og 2018 hvað þetta varðar.

Í samlaginu sem tilheyrir Heilsugæslustöðinni á Akureyri eru um 23 þúsund manns og nokkuð innan við helmingur þess hefur sinn eigin heimilislækni. Augljóslega er það ekki góð staða, hvorki fyrir stofnunina né skjólstæðinga hennar.

En hve marga lækna þarf til að þjónustan verði eins og best verður á kosið? Viðmið Læknafélagsins og Félags heimilislækna er að best sé að hafa um 1.200 manns á hvern heimilislækni. Jón Helgi segir hina opinberu tölu í þéttbýli vera 1.500 manns. Stofnunin sé þó ekki alveg í færi til þess fjárhagslega að komast í þá óskastöðu að vera með heimilislækni fyrir hverja 1.200 íbúa, en miðað við þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar gætum við fjármagnað 16-17 stöður heimilislækna á Akureyri. Ef heimilislæknarnir væru 16 væru 1.375 manns á hvern heimilislækni. Með 12 heimilislækna eins og verið hefur er talan komin nokkuð yfir 1.800 og með níu heimilislækna, eftir brotthvarf þriggja, er talan komin nálægt 2.450 á hvern heimilislækni.

Fjölgun sérnámslækna vekur vonir til framtíðar

Jón Helgi segir að staðan verði áfram sú að manna þurfi stöður tímabundið með aðkomulæknum í verktöku, „þangað til að vonandi að það fólk sem er að læra hjá okkur getur komið til starfa og vonandi verðum við þá með vinnustað sem fólk vill vinna á.“

Fjölgun sérnámslækna i í heimilislækningum vekur vonir um betri tíð hvað varðar fjölda heimilislækna.

„Þegar stofnunin byrjaði voru þrír og þar af einn á Akureyri,“ segir Jón Helgi þegar talið berst að fjölda þeirra sem eru í sérnámi í heimilislækningum. „Núna á árinu 2023 eru 14 í þessu námi hjá okkur þannig að við höfum verið að stórfjölga þeim og þarna hefur Heilsugæslustöðin á Akureyri verið fremst í flokki. Við höfum séð það sem leið til að fá fleiri heimilislækna, það er að mennta það fólk sem er héðan og vill búa hér. En vissulega þarf maður að vera með vinnustað sem fólk vill vinna á. Það er auðvitað það sem verður okkar verkefni, að búa svo um hnútana.“

Um stöðuna sem upp er komin og viðbrögð við henni segir Jón Helgi: „Varðandi viðbrögð þá er í sjálfu sér ekki önnur leið en að ráða inn tímabundið lækna til að létta undir með þeim og búa til starfsaðstæður þar sem þetta góða unga fólk sem er að læra hjá okkur vill setjast að hjá okkur og halda áfram störfum. Það er lausnin að því að manna til lengri tíma.“

Tíminn nýttur í óþarfa verkefni?

Jón Helgi kemur inn á annað mál sem varðar starf heimilislækna og nefnir að þörfin fari einnig eftir annarri mönnun á viðkomandi stöð. „Það fer auðvitað eftir því hver er stuðningurinn, hvað höfum við af öðrum mannskap og hvað tekur hann mikið af verkefnum?“

Hann segir það líka liðna tíð að hægt sé að ætlast til að læknar vinni 12 tíma á sólarhring alla ævi, eins og var kannski siður áður fyrr. Það sé því ekki einfalt að nefna nákvæma tölu yfir hve marga lækna þurfi til að fullmanna stöðina. Hér er ekki um það að ræða að skortur sé á öðru starfsfólki heldur hefur til dæmis fjölgað mjög verkefnum sem heimilislæknar sinna sem mætti segja að sé jafnvel sóun á tíma þeirra.

„Það má klárlega yfirfara hvað heimilislæknar eru notaðir í. Það er oft misbrestur á því, menn eru látnir skrifa alls konar vottorð sem við í rauninni ættum að losa þá við svo þeir geti einbeitt sér að verkefnum sem skapa virði fyrir íbúana,“ segir hann um þessa hlið á starfi heimilislækna og vanda við mönnun.

Það virðist því þannig að þróunin í samfélaginu hafi orðið til þess að tími heimilislækna sé verr nýttur en áður. Breyting á því er þá mögulega hluti af lausninni. „Jú, og hluti af því sem við höfum viljað að verði gert sjálfvirkt og enginn læknir komi að, til dæmis veikindavottorð í skóla eða fyrir atvinnurekanda vegna styttri veikinda. Það á bara ekki að þurfa að hringja í lækni út af því,“ segir Jón Helgi um þessa hlið málsins. Einnig þurfi að ná betri stjórn á því hvaða skilaboð frá íbúum í gegnum Heilsuveru nái til lækna. Þar hafi opnast aðgengi að læknum sem auki álag og geti leitt til misbresta í þjónustu.