Tímamótasamningur um nám í heyrnarfræðum
Háskólinn á Akureyri er aðili að tímamótasamningi sem undirritaður var í dag og mun gera kleift að bjóða upp á háskólanám í heyrnarfræðum í fyrsta sinn hér á landi, ásamt Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) og Háskólanum í Örebro í Svíþjóð. Þetta kemur fram í frétt heilbrigðisráðuneytisins á vef stjórnarráðsins.
Nánar er fjallað um samninginn í frétt ráðuneytisins, en þar segir meðal annars:
Samkvæmt samningnum mun Háskólinn í Örebro annast fræðilega kennslu nemenda í gegnum fjarnám í samvinnu við Háskólann á Akureyri sem hefur áralanga reynslu af framkvæmd fjarnáms á heilbrigðisvísindasviði í samvinnu við erlenda háskóla. Öll verkleg þjálfun nemenda verður á hendi HTÍ í umboði Háskólans í Örebro (Örebro Universitet). Kennsla hefst næsta haust og verða a.m.k. fjórar námsstöður í boði ár hvert.
Það hefur verið baráttumál HTÍ um árabil að komið verði á fót námi í heyrnarfræðum á háskólastigi hér á landi. „Með þessum samstarfssamningi er loks tryggt að íslensk heyrnarþjónusta getur tryggt framboð af sérmenntuðum heyrnarfræðingum en þarf ekki að leita eftir erlendum sérfræðingum til starfa líkt og þurft hefur síðasta áratug. Nú fáum við hágæða háskólanám og innleiðum jafnframt verklega þjálfun hér á landi sem veitir íslenskum heyrnarfræðingum enn fremur ómetanlega reynslu.“ segir Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir samninginn marka tímamót: „Það hefur verið skortur á sérþjálfuðum heyrnarfræðingum hér á landi. Nú má vænta þess að þeim fjölgi á næstu árum og að hægt verði að stórbæta þjónustu við fólk með heyrnarskerðingu hér á landi.“