Fara í efni
Háskólinn á Akureyri

Sameining HA og Bifrastar talin fýsileg

Talið er að með því að sameina krafta, styrkleika og sérfræðiþekkingu háskólanna yrði til nýr og samkeppnishæfari skóli samkvæmt skýrslu um mat á fýsileika sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst. Mynd: stjornarrad.is.

Í skýrslu um fýsileika sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst kemur fram að talið sé að með því að sameina krafta, styrkleika og sérfræðiþegkkingu háskólanna yrði til nýr og samkeppnishæfari skóli, jafnt hérlendis sem og á alþjóðavettvangi, sem myndi styrkja til muna háskólamenntun á Íslandi. Þá myndi sameinaður skóli jafnframt styrkja samkeppnisstöðu Íslands í síbreytilegum heimi.

Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðs Íslands í dag. Þar kemur einnig fram að sameiningin yrði styrkur fyrir landsbyggðina þar sem kröftugur, sameinaður háskóli með höfuðstöðvar á Akureyri og miðstöðvar eða samstarf um allt land myndi styrkja landsbyggðina í heild og fjölga tækifærum til náms utan höfuðborgarsvæðisins, ekki síst í gegnum aukna möguleika á fjölbreyttu námi. 

Viljayfirlýsing háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og háskólanna tveggja var undirrituð í september og skýrslan unnin í framhaldinu. Hugmyndin gengur út á að með sameiningu skólanna yrði til nýr skóli með höfuðstöðvar á Akureyri, starfsstöð í Borgarnesi og starfsstöð í Reykjavík. 

Margt jákvætt að finna í niðurstöðunum

Elín Díanna Gunnarsdóttir, starfandi rektor Háskólans á Akureyri segir margt jákvætt að finna í niðurstöðum greiningarinnar. Samtalið og vinnan hefur gengið vel, það er margt jákvætt að finna í niðurstöðum fýsileikagreiningarinnar þó enn séu ýmis álitamál sem þarf að leysa ef samvinnan á milli skólanna á að aukast. Það verður spennandi að takast á við þau álitamál ásamt tækifærunum á nýju ári ef ákveðið verður að halda áfram með þá vinnu sem nú þegar hefur farið fram, segir Elín Díanna.


Háskólinn á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Stýrihópur sem vann skýrsluna var skipaður þremur fulltrúum úr hvorum skóla undir leiðsögn Aðalsteins Leifssonar, fyrrverandi ríkissáttasemjara. Hópurinn átti virk samtöl við starfsfólk, nemendur og aðra velunnara háskólanna við gerð hennar. Fram undan er umræða um skýrsluna í háskólaráðum beggja háskóla og áframhaldandi samtal við starfsfólk, nemendur, sveitarstjórnir, ráðuneyti háskólamála og aðra hagsmunaaðila áður en ákvarðanir verða teknar um möguleg næstu skref í átt til sameiningar.

Yrði svipaður HR að nemendafjölda

Í frétt ráðuneytisins er vitnað til orða Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: „Það er ekki annað hægt en að vera bjartsýn þegar blásið er til sóknar eins og gert er í skýrslu um mögulega sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst. Ef allt gengur að óskum munum við sjá næst stærsta háskóla landsins verða til sem settur er saman af skólum sem hafa verið leiðandi í fjarnámi og sterkir á landsbyggðinni. 

Með sameiningu yrði til háskóli svipaður að nemendafjölda og Háskólinn í Reykjavík, með um 3.500 nemendur. Talið er að nýr háskóli gæti orði ðtil þess að styrkja frekar samstarf sem þessir skólar hafa við háskólasetur og miðstöðvar í öllum landsfjórðungum. Með sameiningu væri blásið til sóknar á landsbyggðinni með auknum gæðum, þjónustu og rannsóknum.

Það er frábært að fá svona vel unna skýrslu um að tækifæri séu til að ná miklum árangri með sameiningu tveggja öflugra háskóla. Ég hlakka til að sjá hvort þessi stórsókn fyrir Norðurland og landsbyggðina alla verði að veruleika. Nú er boltinn hjá háskólaráðunum og samfélaginu að taka umræðuna áfram,” segir Áslaug Arna ennfremur.

Öflugri heild saman en sundur

Rektor Háskólans á Bifröst, dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, er á meðal umsækjenda um stöðu rektors Háskólans á Akureyri eins og Akureyri.net greindi frá fyrir skemmstu. Hún lýsir einnig ánægju með niðurstöður viðræðnanna um fýsileika sameiningar.

Ánægjulegt er hversu jákvæðum niðurstöðum viðræður Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst skiluðu um fýsileika sameiningar. Ljóst er að á grunni þeirra getur risið annar stærsti háskóli landsins, sem myndar til muna öflugri heild en háskólarnir standa nú samanlagt fyrir, hvor í sínu lagi. Gangi það eftir mun nýi háskólinn efla og byggja enn frekar upp innviði háskólamenntunar hér á landi, sem alþjóðlega samkeppnisfær rannsóknaháskóli. Þá mun hann treysta jafnrétti til háskólamenntunar hér á landi með sambærilegum hætti og gert er í nágrannalöndum okkar, óháð þáttum á borð við aldur, búsetu, atvinnuþátttöku eða fötlun. Það er því að okkar mati verulega mikilvægt að stjórnvöld greiði, sem best þau geta, fyrir sameiningu háskólanna,” segir Margrét.