Fara í efni
Háskólinn á Akureyri

Ályktun og greinargerð Lagadeildar HA

Akademískir starfsmenn þeirra þriggja deilda við Háskólann á Akureyri sem sameining við Háskólann á Bifröst hefði mest áhrif á lýsa miklum efasemdum um mögulega sameiningu og hvernig að henni er staðið. Þetta kemur fram í þessari frétt sem Akureyri.net birti í dag.

Hér má sjá ályktun deildarfundar lagadeildar Háskólans á Akureyri 17. janúar síðastliðinn og greinargerð með henni.

ÁLYKTUN

Með vísan til meðfylgjandi greinargerðar er það mat lagadeildar HA að skýrslan Mat á fýsileika sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst innihaldi ekki nægilegar upplýsingar um fýsileika sameiningar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um hana. Telur deildin nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga, leita raunsærra og rökstuddra svara við helstu álitamálum, og leggur áherslu á að akademísku starfsfólki sé gefinn raunhæfur kostur á að bregðast við áður en frekari ákvarðanir verði teknar um sameiningaráform.

17. janúar 2024, f.h. lagadeildar,

Rachael Lorna Johnstone, deildarforseti lagadeildar

GREINARGERÐ

Hinn 18. desember sl. var birt skýrslan Mat á fýsileika sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst. Eftir að hafa kynnt sér vandlega innihald skýrslunnar og rætt sín á milli vill lagadeild Háskólans á Akureyri (HA) koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Á haustmánuðum 2023 hófu Deildarforseti og brautarstjóri BA/ML námsins við lagadeild HA viðræður við Deildarforseta Háskólans á Bifröst (HB) í þeim tilgangi að skoða möguleika á auknu samstarfi. Saman sömdu þeir stutt upplýsingaskjal sem var nefnt „Samanburður lagadeildar HA og Bifrastar“. Á 50. deildarfundi lagadeildar HA 29. nóvember sl., voru tilmæli starfandi rektors deildin biði eftir niðurstöðum skýrslunnar til að fá svör við þeim spurningum sem viðraðar voru á fundinum. Skýrslan barst starfsmönnum síðan saga dag og hún var birt opinberlega á netmiðlum. Að skoðun lokinni telur lagadeildin ljóst að markmið skýrslunnar hafi verið að skoða hvort sameining skólanna gæti talist fýsileg. Hins vegar er það mat lagadeildar að rökstuðningurinn sem skýrslan veiti fyrir því að sameining sé fýsilegur kostur sé afar almennur og efnislega innihaldsrýr. Í raun sé hann svo rýr að ekki sé hægt að taka afstöðu á grundvelli hennar til þess hvort sameining geti talist fýsilegur kostur eða ekki.

Þá telur deildin að í skýrslunni sé einnig að finna villur eða fyrirfram gefnar forsendur. Til dæmis er umfjöllun um stöðugildi á HB (sjá bls. 10) sem ekki eru í samræmi við upplýsingar sem lagadeild bárust haustið 2023 frá lagadeild HB og eru í fyrrnefndu skjali, „Samanburður lagadeildar HA og Bifrastar“. Þá eru jafnframt settar fram órökstuddar staðhæfingar um að lagadeildin sé fámenn og rekstur ekki hagkvæmur (sjá bls. 15).

Að mati lagadeildar er heldur ekki farið nægilega vel yfir það með hvaða hætti kennsla skuli vera skipulögð í hinum nýja háskóla. Þó báðir skólar bjóði upp á nám sem er að miklu leyti óháð staðsetningu þá er skipulag námsins með afar ólíkum hætti, t.d. er HB er með þrjú misseri (þar með talið sumarmisseri), en HA með tvö. Skipulag námsins við HA miðar við að kennsla og lotur fari fram á hefðbundnum dagvinnutíma, en HB þjónustar nemendur í vinnu og er því með lotur á vinnuhelgum. Þannig mæta skólarnir þörfum ólíkra hópa. Það er mat deildarinnar að fýsileikaskýrslan svari því á ekki hvernig mæta skuli þessum ólíku hópum. Þrátt fyrir þetta gefur skýrslan til kynna að fyrirkomulag HB verði ofan á þegar fjallað er um möguleika á löngum helgum í húsnæði skólans á Akureyri (sjá bls. 18.). Þá er á engan hátt fjallað um hvernig slíkt fyrirkomulag skuli útfært í kjaramálum starfsmanna (t.d. að því er varðar kvöld- og helgarvinnu og álagsgreiðslur). Þá er heldur ekki greint frá því hvort að það sé einfaldlega pláss fyrir alla nemendur beggja skóla þegar þeir sækja lotur á háskólasvæði HA líkt og það er í núverandi mynd, heldur einungis minnst á þörfina til frekari uppbyggingar þess.

Þá telur lagadeild HA það heldur ekki verða séð hvernig akademískt starfsfólk á að öðlast aukið svigrúm til rannsókna vegna samlegðaráhrifa sameiningar í kennslu og skipulagi skólastarfsins. Akademískt starfsfólk hlýtur að hafa áfram sömu kennsluskyldu og áður, nema skerða eigi kennsluskylduna vegna samlegðaráhrifa. Þá er jafnframt ekkert fjallað um það hvort að kennslueiningar séu reiknaðar á sama hátt í báðum skólum, né hvaða aðferð skuli vera viðhöfð. Slíkt hefur mikil áhrif á starfsumhverfi akademísks starfsfólks og er því nauðsynlegt að ákvarða slíkar grunnforsendur áður en tekin er afstaða til nokkurs.

Jafnframt telur lagadeild HA að þó nokkrum mikilvægum spurningum hafi ekki enn verið svarað. Til að mynda sé það gefið til kynna í skýrslunni að meistaranám í félagsvísindum, viðskiptafræði og lagadeild

skuli heyra undir hina nýju sjálfseignarstofnun og að heimild verði fyrir innheimtu skólagjalda í því námi (sjá bls. 17). Á opnum upplýsingafundi með rektor 10. janúar sl. kom hins vegar fram að fyrir meistaranám sem teljist til faggildingar og sé meira en 60 einingar verði ekki innheimt skólagjöld. Að mati deildarinnar er þetta ekki í fullu samræmi við það sem stendur í skýrslunni og telur lagadeildin nauðsynlegt að þetta, sem fram kom á upplýsingafundinum, verði nánar útfært og skjalfest áður en fleiri skref verði stigin. Þannig liggi t.d. klárlega fyrir að unnt verði að ljúka fullnaðarnámi í lögfræði á landsbyggðinni, en slíkt fullnaðarnám er fimm ára nám (BA og ML), án innheimtu skólagjalda, hér eftir sem hingað til. Þá er innheimta skólagjalda slík grundvallarbreyting á fyrirkomulagi náms að það þarfnast töluverðrar rannsóknarvinnu á mögulegum áhrifum þess á hina ýmsu þætti (t.d. fjölda nemenda og stöðu þeirra). Þá telur lagadeild HA jafnframt rétt að benda á að fyrirliggjandi upplýsingar gefa til kynna að til standi að innheimta skólagjöld vegna meistaragráðu í heimskautarétti. Lagadeildin mótmælir þessari ráðagerð harðlega. HA hefur margsinnis ítrekað sérstöðu sína á sviði norðurslóðafræða, bæði í rannsóknum og kennslu, og er meistaranám í heimskautarétti ein af grunnforsendum þeirrar sérstöðu. Til deildarinnar hafa komið helstu sérfræðingar heims á þessu sviði til að kenna og halda fyrirlestra á hverjum tíma og hefur deildin styrkt stöðu sína verulega á alþjóðasviðinu á undanförnum árum með þessari námsleið. Að mati deildarinnar er innheimta skólagjalda til þess fallin að raska þessari stöðu verulega.

Enn bera að nefna að meistaranám í heimskautarétti einnig sá farvegur sem líklegast er að doktorsnemar sæki í. Í doktorsnámi við HA hefur hingað til verið lögð áhersla á jafnrétti til náms, án tillits til fjárhags. Lagadeildin telur afar mikilvægt að hvika ekki frá þeirri stefnu. Jafnframt tekur lagadeildin undir áhyggjur sem kennarar viðskiptafræðideildar hafa greint frá á opnum fundum um efnið að því er varðar áhrif innheimtu skólagjalda fyrir meistaranám á möguleika HA til þess að byggja upp doktorsnám.

Þá telur lagadeildin einnig rétt að koma á framfæri ábendingum við nokkra þætti í þessu ferli.

Í fyrsta lagi telur deildin varhugavert að breyta nafni stofnunarinnar. Háskólinn á Akureyri hefur unnið að því síðastliðna áratugi að koma skólanum og nafni hans á framfæri og hefur það tekist með mikilli vinnu akademísks starfsfólks, ásamt öðrum, bæði á innlendum sem og alþjóðlegum vettvangi. Að mati deildarinnar eru verulegar líkur á því að sú staða raskist við nafnabreytingu.

Í öðru lagi telur deildin rétt að ráðleggja yfirvöldum að vanmeta ekki hina ýmsu þætti vinnuréttar sem líklegt er að munu raungerast við óljósa samvinnu eða hlutdeild opinberrar stofnunar í sjálfseignarstofnun með starfsmenn og nemendur á báðum stöðum. Telur lagadeildin rétt að áður en lengra er haldið að kanna skuli rækilega hvernig reynsla annarra opinberra háskóla hafi verið af slíku fyrirkomulagi.

Í þriðja lagi vill lagadeildin benda á þann tíma og kostnað sem þegar hefur farið í umræður og vinnu starfsfólks vegna skoðunar á mögulegri sameiningu. Til að mynda hafi um 130 starfsmenn verið á sameiginlegum fundi 10.1. sl. sem tók um 1 klst og 15 mínútur. Þá er fyrirséð að frekari skoðun á sameiningu skólanna muni kosta frekara samráð og tíma frá akademísku, sem og öðru, starfsfólki HA. Dragist þetta á langinn er það mat deildarinnar að það sé töluverð hætta á að slíkt muni koma niður á gæðum háskólans, til að mynda að því er varðar rannsóknir, námskrárvinnu, ársskýrslu og námsþróun. Að mati deildarinnar þarf að hafa þetta í huga við ákvarðanatöku um hvort halda skuli áfram með frekari viðræður.

Lagadeild telur þó rétt að þakka skýrsluhöfundum fyrir þeirra vinnu og að sýna skuli því skilning að ekki sé hægt að veita svör við öllum spurningum á þessum tímapunkti. Hins vegar telur hún fyrrgreind atriði það veigamikil að þörf er á að greiða úr þeim áður en áfram verði haldið. Þá telur deildin að þörf sé á mun nákvæmari úttekt á stöðu skólanna beggja (bæði akademíska og fjárhagslega) auk nánari útfærslu á einstökum atriðum áður en frekari ákvarðanir eru teknar og raunar áður en hægt er að meta á trúverðugan og sannfærandi hátt hvort sameining skólanna sé yfirhöfuð fýsileg. Jafnframt er þörf á meiri upplýsingum frá ráðherra um hvernig ríkisstjórnin áætlar að setja frekara fjármagn í sameinaðan skóla til að tryggja að hinum háleitu markmiðum sem ætlað er að ná með sameiningunni verði í raun náð og hvernig stjórnvöld sjái fyrir að rekstri sameinaðs háskóla verði háttar. Enn fremur telur lagadeildin eðlilegast að skipaður yrði vinnuhópur sem skoðaði málið ofan í kjölinn og fengi sérstaklega greitt fyrir þá vinnu.

Að lokum vill lagadeildin þó taka fram að hún sjái ýmsa möguleika á frekara samstarfi, í bæði kennslu og rannsóknum, við lagadeild HB án þess að til fulls samruna komi. Slíkt samstarf hafði verið rætt áður en hafinn var undirbúningur á mögulegri sameiningu skólanna beggja.