Fara í efni
Háskólinn á Akureyri

Gervigreind: Allt hefur breyst, en samt ekkert

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

„Á þessu stigi er mér ekki kunnugt um slík mál innan Háskólans á Akureyri,“ segir Eyjólfur Guðmundsson rektor í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net um það hvort upp hafi komið tilvik innan HA varðandi misnotkun á gervigreind við ritgerða- og verkefnavinnslu. Fram hefur komið í fréttum að grunur sé um slík tilvik í öðrum háskólum hér þar sem nemendur hafi nýtt gervigreind til að skrifa fyrir sig ritgerðir eða hluta úr ritgerðum, jafnvel á meistaraprófsstigi.

Grundvallarreglur akademíunnar þær sömu

Eyjólfur bendir á að gervigreindin og notkun hennar sé hins vegar í skoðun innan hverrar deildar, bæði hvað varðar mögulega misnotkun sem og tækifæri til framfara. Í nýliðinni viku hafi til dæmis verið haldin ráðstefnan „Hvað er góð háskólakennsla?“ á vegum Kennslumiðstöðvar HA þar sem þessi málefni voru á meðal þess sem rætt var.

„Þessi þróun hefur verið hröð og því er enginn í raun vel í stakk búinn til að takast á við þennan veruleika. Að mörgu leyti vitum við í raun ekki hvaða veruleiki þetta er!“ segir Eyjólfur. Hann segir að reglur verði settar af deildum og háskólanum í heild ef þurfa þykir, en bendir jafnframt á að það gleymist svolítið í umræðunni að grundvallarreglur akademíunnar hafa ekki breyst.

Hreinn og klár ritstuldur

Sú grundvallarhugsun sé: „Allar hugmyndir og texti sem fræðimaður/stúdent skrifar skal vera höfundarins sjálfs nema annað sé tekið skýrt fram í tilvitnunum og heimildaskrá.“ Hann bendir á að annað teljist í raun ritstuldur og heilmikið regluverk sé til í kringum það. „Gervigreindin breytir engu þar um. Tólið er hentugt til rannsókna og aðstoðar, en að nota texta gervigreindarinnar sem þinn eigin er hreinn og klár ritstuldur.“

Eyjólfur segir verkefnið því snúast um tvennt: Annars vegar hið eilífa verkefni um að mennta stúdenta til heiðarlegra og frumlegra fræðaskrifa og hins vegar að koma upp kerfum sem finna verk stúdenta/fræðafólks sem ekki falla undir slík vinnubrögð.

„Það hefur því allt breyst … og samt ekkert,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor háskólans á Akureyri.